Leita í fréttum mbl.is

Samfylkingin æsti til vörubílstjórauppreisnarinnar - Grein sem birt var í DV

Ég hef orðið var við það í ágætum athugasemdum  við skrif mín hér á síðunni að talsmenn Samfylkingarinnar botna ekkert í óánægju vörubílstjóranna og  finnst mér því vel við hæfi að birta grein sem birtist í DV á dögunum. 

Það virðist sem ráðamenn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar telji það fyrir neðan virðingu sína að setja sig inn í umkvartanir bílstjóranna - andinn frá stjórnarliðinu er að bílstjórarnir séu ekki nógu fínt fólk og kunni ekki að mótmæla með nógu penum og áhrifaríkum hætti líkt og samkynhneigðir og náttúruverndarsinnar eiga víst að kunna. Eflaust væri þægilegra ef Sturla Jónsson læsi ljóð á Austurvelli og héldi með bílstjórana sína í gleðigöngu í stað þess að þeyta lúðra og trufla tigna Palestínumenn í að heimsækja ráðherraliðið.

Ég legg það til að stjórnvöld komi á viðræðum við bílstjórana sem fyrst og fari yfir málið af alvöru og sýni annað en belging og sinnuleysi. Vandamál ríkisstjórnarinnar er að almenningur skynjar að ríkisstjórnin er ekki að gera neitt annað en að flögra um heiminn.

Stjórnvöld tóku nýlega upp á arma sína útgerðarmenn sem urðu fyrir niðurskurði í besta fiskveiðistjórnarkerfi í  heimi og síðan bankastjórana sem eru með tugi ef ekki hundrað millur á mánuði en bílstjórarnir virðast ekki vera nógu fínt fólk fyrir Samfó og Sjálfstæðisflokkinn.

Greinin í DV:

Samfylkingin æsti til vörubílstjórauppreisnarinnar

Nú hafa ýmsir meðreiðarsveinar Samfylkingarinnar, s.s. Dofri Hermannsson og Egill Helgason, reynt að útmála mótmæli vörubílstjóranna sem einhvern asnalegan misskilning, þ.e. að bílstjórarnir fatti ekki að heimsmarkaðsverð á olíu fari hækkandi. Það er auðvitað ekki svo, bílstjórarnir eru eflaust margir hverjir að borga af erlendum lánum sem þeir hafa tekið til að fjármagna bílakaup sín. Þeir þurfa að greiða æ hærra verð fyrir olíuna til að knýja tækin áfram á meðan margur hefur boðið í verk þar sem forsendur eru allar aðrar, enda ekki gert ráð fyrir að ríkisstjórnin missti algjörlega tökin á efnahagsmálum með frægri stefnu forsætisráðherra, stefnunni að-gera-ekki-neitt.

Reyndar hefur forsætisráðherrann okkar ferðaglaði áður komið fram með nýstárlegar hugmyndir í efnahagsmálum, eins og þegar hann ætlaði sér að slá á þenslu með því að fresta framkvæmdum á Vestfjörðum, í þeim landshluta þar sem samdráttur ríkti. Ein krafa vörubílstjóranna er að lækkaðar verði álögur á olíu. Ef eitthvert mark ætti að vera hægt að taka á ráðherrum Samfylkingarinnar, t.d. samgönguráðherra og utanríkisráðherra Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, hefðu þau strax átt að taka undir kröfu bílstjóranna þar sem það eru ekki nema örfá misseri síðan núverandi samgönguráðherra sem þá var í stjórnarandstöðu sendi frá sér ákall til ríkisstjórnar Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks um lækkun álaga hins opinbera vegna þess að dísilolían nálgaðist að kosta 120 kr., lítrinn. Ef farið er í gegnum þingræður núverandi samgönguráðherra á umliðnum árum blasir við að þetta var hans helsta baráttumál auk þess að jafna flutningskostnað. Í þessum ræðum hans kemur greinilega fram að hann telji að skattlagning umferðar sé margfalt meiri en varið er í uppbyggingu vegasamganga.

Þessi áhugi Samfylkingarinnar og barátta tók á sig þá mynd að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir flutti sérstaka tillögu um lækkun olíugjalds um 15%, úr 41 kr. í 35 kr.Það er aumt að horfa upp á þingmenn Samfylkingarinnar skilja vörubílstjórana eftir á berangri þegar þeir krefjast þess að farið sé að tillögum sem Samfylkingin sjálf lagði til. Þeim er att á foraðið og síðan fá forystumenn Samfylkingarinnar minni spámenn flokksins til að hía á þá.Það væri meiri bragur að því að flugkapparnir í ríkisstjórninni settust að viðræðum við bílstjórana til að leita leiða um að leysa úr málum á farsælan hátt.


Bloggfærslur 24. apríl 2008

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband