Leita í fréttum mbl.is

Loðnuveiðar strax

Það er sárgrætilegt að horfa upp á sjávarútvegsráðherra meina íslenskum sjómönnum að veiða loðnu. Það er eins og að ráðherrann sé kontóristi og láti stjórnast í einu og öllu af ráðgjöfHafró sem hefur óneitanlega ekki verið hafin yfir gagnrýni. Stofnunin hefur látið hjá líða að svara rökstuddum athugasemdum við veiðiráðgjöfina undanfarin ár sem hefur í rauninni ekki gengið upp.

Það er vafasamt að ætla fiskiskipaflotanum að ráða úrslitum. Stofnunin var búin að gefa út byrjunarkvóta í loðnunni og það er ekki traustvekjandi að afturkalla hann eins og hendi sé veifað án þess að gaumgæfilega sé farið í gegnum röksemdir fyrir þeirri breytni.

Núna herma fregnir af miðunum að það sé gríðarlega mikil loðna á ferðinni. Staðan er þannig að flotinn er bundinn við bryggju þegar Hafró ætlar í það ævintýralega verkefni að kasta tölu á fjölda fiska á ferðinni. Þannig er hætt við að stór hluti af loðnunni syndi hjá og drepist engum til gagns í fjöruborði að lokinni hrygningu.

Sumir virðast trúa því að ekki sé rétt að veiða loðnu vegna þess að með því sé maturinn tekinn frá þorskinum. Þess vegna er rétt að fara í gegnum það hvort sú hætta sé til staðar. Ef við gefum okkur að í stað þess að veiða 1 milljón tonna af loðnu myndum við leyfa henni að synda sína leið færi helmingurinn í kjaftinn á þorskinum, þ.e. um 500 þúsund tonn. Í sjálfu sér er það vel í lagt af þeim þar sem ekki er mikið um meðafla í þorski á loðnuveiðum. Það er langt frá því að allar loðnunætur séu fullar af þorski með loðnunni. Þumalputtaregla í vistfræði segir að þegar farið er upp eitt fæðuþrep verði í rauninni einungis 9% af því sem innbyrt er til þyngdaraukningar fyrir þann sem ofar er í keðjunni.

Því má ætla að þessum forsendum gefnum, sem eru vel að merkja mjög í vil þeim sem hafa áhyggjur af loðnuskorti fyrir þorksinn, að þyngdaraukning þorskstofnsins yrði um 50 þúsund tonn. Ný veiðiregla segir að þá megi veiða 20% af þorskstofninum sem gefur 10 þúsund tonn.

Valið er mögulega að í stað þess að velja 1 milljón tonna af loðnu að velja 10 þúsund tonn af þorski.

Þessar stofnstærðarmælingar og fiskatalning eru ekki neinar absalúttmælingar, enda mjög ónákvæmar eins og sjá má á kvóta sem er dreginn til baka. Þá liggur beinast við að ef þorskurinn er horaður og vöxturinn í sögulegu lágmarki sé miklu vænlegra að veiða hann í stað þess að mata hann.


Bloggfærslur 25. febrúar 2008

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband