Leita í fréttum mbl.is

Jens góður í Kastljósinu

Það var virkilega upplífgandi að sjá Skagfirðinginn Jens Guð í Kastljósinu í kvöld eftir mikinn ótíðindafréttatíma þar sem fréttir bárust af loðnuleysi í sjónum og tómahljóði í bönkunum. Jens sló með þunga á létta strengi og ræddi gæludýr og sóttvarnir með meiru. Jens Guð verður með þessu áframhaldi einn frægasti sonur Skagafjarðar. Má þá poppgúrúinn Geirmundur Valtýsson fara að vara sig.

Lækkun þrátt fyrir kjarasamninga

Það kemur óþægilega á óvart að úrvalsvísitalan haldi áfram að lækka þrátt fyrir nýgerða kjarasamninga og í framhaldinu er rétt að huga að því hvað veldur og hvert stefnir.

Það hefði mátt ætla að nýgerðir samningar hefðu hleypt inn bjartsýni og trú á fjárfestingu í íslensku atvinnulífi þar sem hægt er að sjá fyrir þróun launa næstu þrjú árin. Laun eru jú einn stærsti kostnaðarliður í rekstri fyrirtækja og ætti þess vegna að skipta afar miklu máli.

Ástæðan fyrir því að hlutbréfamarkaðurinn hressist ekki er að öllum líkindum sú að íslenski hlutabréfamarkaðurinn er að stærstum hluta markaður banka og fjármálafyrirtækja. Íslensku bankarnir sem vaxið hafa hratt eru í erfiðleikum, m.a. við að fjármagna sig og sömuleiðis hafa þeir tekið þátt í að valda fyrirtæki sem gengið hafa illa og eru í eigu sömu aðila, s.s. fjárfestingar Glitnis í FL.

Þessi vandi birtist almenningi með skorti á lánsfé og gríðarlegum vaxtamun en það hefur verið nokkuð erfitt að henda nákvæmar reiður á hvað hann er mikill. Prófessor í Háskóla Íslands hefur bent á að hann hafi farið hækkandi frá einkavæðingu bankanna og sé nú kominn í 13,4% á meðan bankarnir sjálfir segja að vaxtamunur sé 10 sinnum lægri. Ég er ekki frá því að það sé sanngjarnt að ætla að raunverulegur vaxtamunur sé um 5%.

Í umræðunni hefur farið hæst að það eigi að leysa þennan vanda bankanna með einhverri sameiginlegri auglýsingherferð stjórnvalda og bankamanna. Ég er ekki trúaður á að  ferðalög Ingibjargar Sólrúnar og Geirs Haarde í fylgd Jóns Ásgeirs og Hreiðars Más muni breyta einu eða neinu. 

Það hlýtur að vera vænlegra að bankarnir líti í eigin barm og taki til í eigin ranni. Það ættu að vera fjölmörg tækifæri til hagræðingar í rekstri þar sem bankarnir hafa vaxið gríðarlega hratt og alls óvíst er að á þeirri hraðferð hafi á öllum stigum verið horft í budduna, a.m.k. hefur það ekki verið þegar hundruðum milljóna er dælt árlega í einstaka stjórnendur.


mbl.is Hlutabréf lækkuðu í byrjun dags
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 20. febrúar 2008

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband