Leita í fréttum mbl.is

Finnski kúr Samfylkingarinnar

 Til að átta sig á því sem er að gerast í efnahagslífi þjóðarinnar hefur verið algjörlega vonlaust að stóla á greiningardeildir bankanna og spá fjármálaráðuneytisins, hið sama má segja um það sem hefur komið frá Seðlabankanum og alls ekki hefur verið hægt að treysta á viðskiptakálfa dagblaðanna. Einhvern tímann gerði ég samantekt á öllum þessum spám, sendi nokkrum blaðamönnum og sýndi þeim fram á hversu vitlausar spárnar væru, segðu lítið og hefðu lítið forspárgildi.

Þeir sem fengu samantektina senda gerðu ekkert með hana enda var þá góðæri og allir ánægðir.

Ein helsta leiðin til að átta sig á stöðu mála er að fara inn á malefnin.com. Þar er að finna ýmsa skarpa penna, s.s. Dodda, Ganglera og bekk. Einnig er skynsamlegt að skoða hagtölur eins og þær sem koma beint af skepnunni, t.d. hjá Hagstofunni og Seðlabankanum. Reyndar má bæta því við að Villi Egils hjá Samtökum atvinnulífsins hefur oftsinnis haldið því fram að ekkert væri að marka tölurnar frá Seðlabankanum. Hann bar brigður á upplýsingar þaðan um erlendar skuldir þjóðarbúsins en nú virðist sannleikurinn hafa læðst aftan að honum.

Nú er Samfylkingin að boða einhverjar hókus-pókus-leiðir út úr efnahagsvandanum en hún vill sem kunnugt er ekki veiða meiri þorsk og ekki spara í utanríkisráðuneyti Ingibjargar, heldur hækka vexti og bregða með því fæti fyrir atvinnulífið. Síðan á að fara einhverjar óskilgreindar leiðir og er umræðan um sumt eins og verið væri að kynna einhverja meiriháttar megrunarkúra, sbr. danska kúrinn, finnsku leiðina. Ein leið  Samfylkingarinnar er að taka upp evru en óraunhæft er að það geti orðið fyrr en eftir þrjú, fjögur ár þannig að nú boða samfylkingarmenn finnska kúrinn sem er illa skilgreind leið.

Samfylkingunni líst illa á norska kúrinn sem Frjálslyndir bjóða upp á, en hann gæti mögulega virkað strax með því að taka upp norsku krónuna. Svo virðist sem ástæða Samfylkingarinnar sé sú að það gæti spillt fyrir evrukúrnum eftir fjögur ár, megruninni sem virðist sú eina rétta að mati Samfylkingarinnar.


Bloggfærslur 2. nóvember 2008

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband