Leita í fréttum mbl.is

DV að sækja í sig veðrið

Oft og einatt er sami vinkillinn í fréttamiðlum á Íslandi, rætt við hagsmunasamtök og málflutningur þeirra fluttur gagnrýnislítið, hvort sem það er LÍÚ eða úr greiningardeildum bankanna margrómuðu og síðan mæta hóparnir sitt á hvað í hina ýmsu fjölmiðla og ræða málin út frá sama sjónarhorninu. Það er oft eingöngu blæbrigðamunur á fréttaflutningi t.d. Fréttablaðsins og Morgunblaðsins þar sem skrúfað er reglulega frá mönnum á borð við Ragnar Árnason sem sannarlega hefur haft rangt fyrir sér varðandi þjóðahagslega hagkvæmni og ábyrgð í núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi.

Dæmi um slíkt er viðtal við Ragnar í Morgunblaðinu í vikunni þar sem Ragnar tíundaði kosti kerfis sem skilar þrisvar til fjórum sinnum færri þorskum á land, og fyrirtækin sem eftir standa í greininni eru skuldum vafin.

Í DV kveður oft við annan tón og ferskara sjónarhorn. Í DV og jafnvel á Útvarpi Sögu eru málin krufin frá hinum ýmsum hliðum. Það sem er kannski einna verst við hvítu pressuna er að menn leggja ekki í að rökræða ákveðin sjónarmið, heldur er reynt að dæma eða öllu heldur gjaldfella málflutning án þess að fara yfir röksemdir.

Breytingar eru í vændum í íslensku samfélagi. Það skyldi þó aldrei verða að hvítþvottapressan gæfi á endanum eftir þar sem frjálsari fjölmiðlar sem ekki eru bundnir á klafa þröngra hagsmunasamtaka og valdaflokka sækja í sig veðrið gegn hvítu pressunni.


Bloggfærslur 31. október 2008

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband