Leita í fréttum mbl.is

Sökudólgur gefur sig fram

Halldór Ásgrímsson segist bera ábyrgð á ástandinu. Ég var núna rétt í þessu að hlusta á upptöku danskra ríkisútvarpsins þar sem rætt var við fyrrverandi forsætisráðherrann okkar sem sat í ráðherranefnd um einkavæðingu sem ráðstafaði bönkunum til sérvalinna fyrir örfáum árum, sérvalinna sem virðast vera á góðri leið með að kollkeyra efnahagslífið. Í viðtalinu játar Halldór Ásgrímsson ábyrgð sína á málum en leggur hins vegar áherslu á að eyða ekki of miklum tíma í söguna. Hann var nokkuð kotroskinn og ánægður með verk sín, þá sérstaklega íslenska kvótakerfið. Hann sagði stoltur frá því að hann hefði orðið sjávarútvegsráðherra 1983 þegar sjávarútvegurinn hafði glímt við erfiðleika.

Það er engu líkara en að Halldór Ásgrímsson, framkvæmdastjóri norrænu ráðherranefndarinnar, geri sér ekki nokkra grein fyrir stöðu sjávarútvegsins. Núna, árið 2008, eru skuldir sjávarútvegsins nokkuð örugglega fjórföld ársvelta greinarinnar og hafa á síðustu árum ábyggilega þre- eða fjórfaldast. Þorskveiðin er að sama skapi núna þrefalt minni en á árunum 1982-3.

Horfum endilega bara fram á veginn og gleymum sögunni, hahh.


Heimasíðan sem Alþingi lokaði

Sumir hafa talað um að engir stjórnmálamenn hafi vakið athygli á fjármálasukkinu á meðan á því stóð. Það er ekki rétt, meðan ég var þingmaður flutti ég pistla á Útvarpi Sögu, stóð fyrir umræðum á Alþingi og hélt úti heimasíðu þar sem m.a. mátti lesa meðfylgjandi pistil sem er frá haustinu 2005. Einhverra hluta vegna lokaði Alþingi heimasíðunni og afmáði þar með þessa pistla af veraldarvefnum.

Ég reyndi ítrekað að koma því til leiðar, fyrst í gegnum þingflokk Frjálslynda flokksins og síðan þegar það gekk ekki bað ég Ragnar Arnalds, formann Félags fyrrverandi alþingismanna, að ganga í málið þannig að skrifunum yrði ekki eytt út af vefnum. Það hefði t.d. verið lítið mál að setja inn baka til á vefnum heimasíður fyrrverandi alþingismanna. Félagið á sinn sess á heimasíðu Alþingis hvort eð er. Ég hef engan botn getað fengið í þessi vinnubrögð þar sem skrifin hljóta a.m.k. að vera heimild um tíðarandann. E.t.v. hefur inntak skrifanna eitthvað farið fyrir brjóstið á þeim sem ráða ferðinni við Austurvöll.

---

Kaupréttur og brask bankastjóra

Fleira hefur borið til tíðinda, s.s. kaupréttarsamningar stjórnenda KB banka en stjórnendur raka til sín fé í svo stórum stæðum að allir lottóvinningar fyrr og síðar eru nánast smáaurar miðað þær upphæðir sem stjórnendur KB banka rökuðu til sín í vikunni.

Um var að ræða 769 milljónir króna.

Þetta er ekki í fyrsta sinn í haust sem almenningi berast fréttir af siðlausum viðskiptum stjórnenda almenningsbankanna. Í haust var í raun miklu verra dæmi sem fór ekki eins hátt en það voru kaup sex stjórnenda Íslandsbanka með Bjarna Ármannsson í broddi fylkingar sem rökuðu til sín 470 milljónum íslenskra króna á þrem mánuðum. Ef ég man rétt voru stjórnendur KB banka að innleysa hagnað af fimm ára gömlum kaupréttarsamningum á meðan Bjarni og félagar tóku til sín margra hundruða milljóna gróða á viðskiptum sem eru siðlaus en lögleg.

Ég efast um að það hafi verið einhver áhætta fyrir umrædda stjórnendur bankanna að tapa persónulega á þessum viðskiptum. Trúlega var öruggt að þeir myndu hagnast.

Það væri t.d. mjög fróðlegt að fá upplýsingar hjá Íslandsbanka varðandi það brask sem bankastjóri bankans stundaði á þriggja mánaða tímabili. Hann rakaði við það til sín háum fúlgum. Hagnaðist líka hinn almenni hluthafi á þessum viðskiptum stjórnenda bankans?

Athafnir fylgja ekki orðum verkalýðshreyfingarinnar og Davíð með geislabaug

Í kjölfar frétta af stjórnendum banka sem nýta sér aðstöðu sína til þess að auðgast heyrast af og til raddir frá forystumönnum verkalýðshreyfingarinnar um að athæfi bankastjóranna sé siðlaust.

Ég tel þessar yfirlýsingar marklausar ef verkalýðshreyfingin beitir ekki áhrifum sínum til þess að koma í veg fyrir umrædda gjörninga. Verkalýðshreyfingin getur, ef hún vill, haft mikil áhrif á fjármálalífið í gegnum lífeyrissjóði launþega.

Það er orðið löngu tímabært að hneykslunarræðunum fylgi einhverjar efndir.
Annars var aumt að sjá hvernig sjónvarp ríkisins matreiddi þessa frétt um græðgina í KB banka. Í lok fréttarinnar var rifjuð upp gömul frétt af Davíð Oddssyni þegar hann tók út nokkur hundruð þúsund krónur úr bankanum af því að honum misbuðu fréttir af kaupréttarsamningum. Davíð var settur í eitthvert hlutverk siðapostula. Siðapostuli sjónvarps ríkisins var enginn annar en maðurinn sem klæðskerasaumaði fyrir sig og sína eftirlaun og kom öllum vinum sínum á ríkisspenann.

Furður viðskiptalífsins

Það er margt sem maður furðar sig á þessa daganna í viðskiptalífinu. Til landsins streymir útlent lánsfé í stórum stíl og krónan hækkar í verði á meðan viðskiptahallinn slær öll met. Þetta ójafnvægi mun leita jafnvægis, það er öruggt, og eftir því sem ójafnvægið verður meira þeim mun meiri líkur eru á að þegar hlutirnir ganga til baka muni það gerast með harkalegri hætti en ella.

Það er fleira sem erfitt er að fá einhvern botn í í viðskiptalífinu, t.d. þá gríðarlegu hækkun sem varð á gengi þriggja félaga fyrir skömmu, þ.e. Burðaráss, Straums og Landsbankans. Félögin voru öll meira og minna í eigu sömu aðila. Við það eitt að félögin urðu tvö en ekki þrjú hækkaði verðmæti þeirra gífurlega. Þetta var svona hókus pókus hækkun.

Nú berast mikil tíðindi reglulega frá FL Group en það fyrirtæki stendur í kaupum á flugfélögum víðs vegar í Evrópu. Stjórnendur fyrirtækisins hugsa stórt, það á að margfalda eigið fé félagsins og auka það um 44 þúsund milljónir. Það er gífurlega há upphæð og maður á erfitt með að trúa því að hægt sé að snara þeirri upphæð upp á borðið eins og ekkert sé en þetta er t.d. mun hærri upphæð en verja á af söluandvirði Símans í hin og þessi verkefni á löngu tímabili.

Það er fleira sem vekur furðu, t.d. hvernig eigi að selja IcelandExpress félagið sem hefur tryggt flugferðir á lágu verði frá Íslandi. Ég tel að það verði snúið að kaupa fyrirtæki af tilvonandi samkeppnisaðila.


Bloggfærslur 21. október 2008

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband