Leita í fréttum mbl.is

Ég skrifa hvorki í gegnum Sverri Hermannsson né Jens Guðmundsson og þeir ekki í gegnum mig

Í upphafi þingferils míns töldu andstæðingar Frjálslynda flokksins að Sverrir Hermannsson skrifaði ræðurnar mínar. Mér fannst það fyndið og var vissulega pínulítið upp með mér enda var Sverrir lengi minn uppáhaldsstjórnmálamaður. Nú virðast einhverjir halda að ég skrifi í gegnum Jens Guðmundsson, stuðningsmann Frjálslynda flokksins, sem er ekki síður upphefð fyrir mig enda er hann bæði vinsæll og skemmtilegur bloggari. Í þetta skipti eru það hins vegar ekki andstæðingar Frjálslynda flokksins sem eru með þessa bábilju heldur fólk sem er í helstu valdastöðum flokksins, s.s. ritari flokksins Kolbrún Stefánsdóttir.

Það má gera athugasemdir við fleira í skrifum hennar á netinu, t.d. fer hún í athugasemd við færslu hjá Jens rangt með gang mála varðandi það hvenær og hvernig mér hlotnaðist sá heiður að fá að leiða lista Frjálslynda flokksins í Norðausturkjördæminu. Ekki ætla ég að rekja þá atburðarás í smáatriðum hér, enda skiptir öllu máli að liðsmenn Frjálslynda flokksins snúi sér að því að vinna að þeim þjóðþrifamálefnum sem hafa aldrei verið brýnni en nú, þ.e. að breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu. Það eru neyðarfundir út af ástandi byggðamála hringinn í kringum landið og aðgerðirnar sem ríkisstjórnin boðar eru í skötulíki enda er ekki tekið á meinsemdinni þar sem byggðir standa varnarlausar eftir af því að atvinnurétturinn hefur verið seldur í burtu. Það er auðvitað fásinna að það eina sem byggðarlögum hringinn í kringum landið standi til boða sé að flytja út vatn í blöðrum, reka söfn og fara í viðhald á byggingum.

Það sem skiptir miklu máli á þessum tímapunkti er að framkvæmdastjórn Frjálslynda flokksins geri sér grein fyrir ábyrgð sinni og virki allar vinnufúsar hendur til þess að ná fram baráttumálum flokksins. Nú er virkilega lag að allir landsmenn geri sér grein fyrir því að kerfið hefur ekki gengið upp hingað til og er óréttlátt.

Hvað mig varðar er ég í öðrum verkum en að skrifa í gegnum aðra, hvað þá að leigja mér penna eins og ýjað er að. Ég er að einbeita mér að því að taka við áhugaverðu starfi framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra á nýjan leik og mun nokkuð örugglega af þeim sökum draga mig að mestu út úr umræðunni, a.m.k. þangað til Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, verður í aðstöðu til að uppfylla fyrirheit frá aðdraganda síðustu alþingiskosninga um að ég tæki að mér starf framkvæmdastjóra Frjálslynda flokksins ef markmið næðist ekki í Norðausturkjördæmi. Við vissum að á brattann yrði að sækja þar sem skoðanakannanir sýndu fylgi upp á 2% í upphafi kosningabaráttunnar. Ég hafði, og hef enn, þá trú að málstaður Frjálslynda flokksins eigi erindi.


Bloggfærslur 18. september 2007

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband