Leita í fréttum mbl.is

Hagfræðingar í afneitun - þurfa að fara í meðferð

Það kom ekki á óvart að Fréttablaðið undir stjórn Þorsteins Pálssonar fyrrum sjávarútvegsráðherra skyldi skrúfa hressilega frá gagnrýnislausum straumi frétta af ráðstefnu kvótavina um íslenska kvótakerfið.

Sérfræðingarnir sem þar tjáðu sig virðast vera í algerri afneitun og neita að horfast í augu við að kerfið er algerlega misheppnað. Þá þarf ekki frekari vitna við en að skoða aflatölur, þorskaflinn nú er þriðjungur af því sem hann var áður en farið var af stað með þessa tilraun sem kvótakerfið er.

Í stað þess að ræða það með gagnrýnum hætti hvers vegna kerfið gengur ekki upp, s.s. líffræðilegar forsendur eða að ekkert vit sé í að framselja aflaheimildir landshorna á milli - fiskurinn fer ekki af miðunum við Grímsey þó svo kvótinn sé seldur í burtu - halda umræddir kvótavinir ráðstefnu sem virðist miklu frekar vera hópefli í afneitun og raunveruleikafirringu. Niðurstaðan er alltaf sú sama, sú að ekki sé hægt að kenna kvótakerfinu um neitt sem miður fer og að allar breytingar sem það hefur í för með sér séu í raun af hinu góða.

Sveinn Agnarsson gekk svo langt að fullyrða að það væri ekkert samband á milli byggðaþróunar og flutnings á aflaheimildum þó svo að almenn skynsemi segi annað sem og skýrslur Byggðastofnunar

Sérfræðingur Kaupþingsbanka heldur á lofti stjarnfræðilega vitlausri kenningu um myndun og þróun byggða á Íslandi. Er hún að einhverju leyti kóperuð upp úr erlendri kenningu um þróun byggða og borga í Ameríku og Evrópu út frá samgöngum og síðan peistuð á íslenskt samfélag.

Þessar kenning stenst ekki neina skoðun þar sem öllum má vera ljóst að þróun sjávarbyggðanna er samofin atvinnuveginum sem byggðin er grundvölluð á. Það sést berlega á þróun byggðar, t.d. á Siglufirði þar sem síldveiðar skipta miklu máli. Sá uppgangur sem verður í fiskveiðum Íslendinga á 8. áratugnum sem eru samfara auknum veiðum og útfærslu landhelginnar kemur berlega fram í íbúaþróun sjávarbyggðanna og einnig kemur hnignun byggðanna vel fram með minnkandi afla og lamandi hendi kvótakerfisins sem hefur komið í veg fyrir nýliðun í greininni.

Ég er mjög undrandi á að menn sem kalla sig sérfræðinga skuli leggja aðra eins dellu á borð fyrir almenning. Er ekki til meðferð við svona vanda?


Bloggfærslur 31. ágúst 2007

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband