Leita í fréttum mbl.is

Veiðar á hrygningartíma - Skrif sjómanns á Vopnafirði

Sæll Sigurjón, mig langar til að koma eftirfarandi á framfæri.
Veiðar á hrygningartíma?
------------------------------------
Að ráði Hafró er þorskveiði á hrygningartíma takmörkuð og yfirlýst af þeirri stofnun að sú ráðstöfun skipti höfuðmáli. Hinsvegar hafa einu takmarkanir á grásleppuveiði verið vegna markaðsaðstæðna.
Grásleppan er nær eingöngu veidd vegna hrognanna og er veiðiálagið mikið og staðbundið. Vissulega er veiðin misjöfn eftir árum, en alls ekki niður á við öll árin, þrátt fyrir sóknina.
Það skilur á milli veiða á þorski og grásleppu að því leyti, að ókynþroska grásleppa er ekki veidd að neinu marki svo vitað sé. Sem sé, ungviðinu er hlíft við veiði. Annað er í gangi hvað þorskinn varðar. Smár þorskur ( 1,5-3,0 kg ) er uppistaðan í bolfiskafla  togveiðarfæra, þ.m.t. dragnót. Krókaveiðarfæri skila álíka stærð, en skilja að auki eftir slóð af dauðvona fiski í sjó og að kalla þau umhverfisvæn stenst ekki skoðun. Einu veiðarfærin sem hlífa smáfiski eru netin.
Sala grásleppuhrogna.
-------------------------------
Undanfarin ár hefur verið offramboð á grásleppuhrognum. Samtök fiskimanna í framleiðslulöndum hafa reynt að hafa samráð um veiði, en með misjöfnum árangri. Verðin hafa verið léleg, enda áhuginn og afkoman eftir því.
Síðasta áratug hafa íslensku hrognin verið að mestu leyti keypt af innlendum niðurlagningarverksmiðjum. Þar hefur samráð um verð verið augljóst, og með því að leggja til tómtunnur og salt hafa verksmiðjurnar tryggt sér hrognin.
Tiltölulega lítið magn hrogna hefur verið á lausu til útflutnings og hafa erlendir aðilar sótt sitt hráefni annað.
Vissulega er þetta innlenda framtak að mörgu leyti jákvætt, en einhver útflutningur þyrfti að vera samhliða í þeim tilgangi að viðhalda orðspori íslenskra hrogna erlendis. Til að svo megi verða þurfa íslenskir veiðimenn að hafa kjark til að salta hluta hrognanna upp á eigin spýtur.
----------------
Að lokum Sigurjón, þá finnast mér þessi skrif eiga erindi á þína heimasíðu, því mér finnst líklegt að smábátasjómenn líti þar við og væri fróðlegt að heyra álit manna. Einhver myndi etv spyrja hvort þessi skrif ættu frekar heima á heimasíðu Landssambands smábátaeigenda. En á þeim bæ er engin umræða í gangi og þrátt fyrir að vera lögskipaður aðili að þeim samtökum, þá var mér meinað aðgengi að heimasíðunni síðast er ég reyndi.
Með kveðju
Vilhjálmur Jónsson
Vopnafirði

Bloggfærslur 12. ágúst 2007

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband