Leita í fréttum mbl.is

Hin máttuga Byggðastofnun mun bæta bölið

Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkur eru í stökustu vandræðum með að útskýra hvernig mótvægisaðgerðir muni bæta fólki í sjávarbyggðunum það tjón sem þær verða fyrir vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um umtalsverða minnkun á þorskafla. Í raun er ekkert handfast í tillögunum nema að það eigi að afleggja veiðigjald á þorskveiðar.  Annað er ekki að finna í tillögunum nema gamla froðusnakkið sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur flutt á liðnum árum. 

Eini munurinn er að nú tekur Samfylkingin heilshugar undir sömu tillögur og hún gagnrýndi áður en hún settist í ríkisstjórn.

Til að bæta úr þessu hafa stjórnarliðar boðað að Byggðastofnun muni bæta það böl sem aflasamdrátturinn mun augljóslega valda. Í umræðum um þátt Byggðastofnunar hef ég ekki orðið var við að nokkur hafi enn sem komið er velt því fyrir sér hvort Byggðastofnun sé þess umkomin. Ég get ómögulega séð að svo sé þar sem rekstur stofnunarinnar er mjög viðkvæmur. Á árinu 2006 var rekstur Byggðastofnunar í járnum en hafði engu að síður batnað mjög frá fyrri árum. Batinn hefur verið skýrður m.a. með því að útlánatöp voru minni á síðasta ári en áður.

Talsverðar líkur eru til þess að boðaður samdráttur í aflaheimildum auki á greiðsluvanda fyrirtækja og komi að lokum niður á fjárhagslegri afkomu og bolmagni Byggðastofnunar. Við núverandi aðstæður er því beinlínis fáránlegt að ætla að Byggastofnun verði mjög stór liður í því að bregðast við vanda sem upp kemur vegna niðurskurðarins þar sem hann mun einnig koma niður á stofnuninni.   

Ákvörðun ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks um niðurskurð á aflaheimildum er algerlega óábyrg þar sem líffræðilegar forsendur hennar eru vægst sagt mjög hæpnar. Ráðamenn, forstjóri Hafró og sérfræðingar innan stofnunarinnar sem komu að ráðgjöfinni hafa reynt að skjóta sér undan því að svara málefnalega rökstuddri gagnrýni.   

Það væri vert að fjölmiðlar veltu því upp hvað það voru margir sérfræðingar innan Hafró sem komu beint að ráðgjöfinni um 130 þús. tonna þorskkvóta og hvort algjör samstaða hafi verið um hana.

Ég vil minna á að öll þessi fórn er gerð til þess að fá mögulega meiri afla árið 2018! Er ekki orðið tímabært að setja spurningarmerki við þessa spá um framtíðina þar sem sömu fræðingar ofmeta hvað eftir annað að eigin sögn fiskistofna fortíðarinnar.


Bloggfærslur 9. júlí 2007

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband