Leita í fréttum mbl.is

Nasisti á Stöðvarfirði?

Í dag héldu frjálslyndir fund á Stöðvarfirði þar sem ég fór rækilega yfir augljósa líffræðilega veikleika þess grunns sem kvótakerfið byggir á. Ég lagði aðaláherslu á að einn mikilvægasti liðurinn í því að breyta kvótakerfinu er að færa Hafró undan stjórn þröngra hagsmunaaðila sem vilja halda óbreyttu kerfi þótt þjóðin og byggðirnar tapi. Ég gerði rækilega grein fyrir því að við ráðum ekki stærð fiskistofnanna, heldur njótum þess í auknum afla þegar þeir eru stórir og líðum svo fyrir það í aflabresti þegar þeir eru í niðursveiflu.

Fyrir fundinn lagði ég leið mína inn í þorpið til að dreifa fundarboði og ákvað að leggja leið mína sérstaklega í hús Björgvins Vals Guðmundssonar sem er háttsettur innan Samfylkingarinnar, sérstakur trúnaðarmaður hennar, og ætlaði að ræða við hann einslega til að leiðrétta misskilning hans um stefnu Frjálslynda flokksins.

Einhverra hluta vegna náðum við ekki saman þótt ég hafi ítrekað lagt mig fram við að ná fundi með honum. Þó að við Björgvin höfum ekki hist lagði hann sérstaka lykkju á leið sína til að gera hróp að starfsmanni Frjálslynda flokksins sem hafði nákvæmlega ekki neitt til saka unnið. Björgvin hrópaði að starfsmanninum ókvæðisorð þar sem hann undirbjó fundinn, m.a. að við værum nasistar.

Þið eruð nasistalýður,“ öskraði Björgvin Valur.

Maður spyr sig hvort það sé eðlilegt að maður sem er sérstakur trúnaðarmaður Samfylkingarinnar, og barnaskólakennari, geri svona hróp að ókunnugu fólki.

Auðvitað grunar mig hvað býr að baki. Hann finnur fyrir vonbrigðum og uppgjöf með málflutning Samfylkingarinnar í baráttu fyrir breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu sem er forsenda blómlegrar byggðar á Stöðvarfirði. Það hlýtur þó að vera eitthvert hóf í öllu.


Leiðari nafna míns Egilssonar í DV 19. apríl 2007

Sigurjón M. Egilsson skrifar markverðan leiðara í helgarblað sitt, DV, sem kom út í fyrradag, Kvóti eða gjaldmiðill. Hann talar um það sem Frjálslyndi flokkurinn hefur hamrað á frá upphafi sínu, að kvótakerfið sé gagnslaust og vinni ekki það gagn sem því var ætlað, nefnilega að byggja upp fiskistofnana og renna stoðum undir byggðirnar í landinu. Fáir útvaldir fengu mikið á silfurfati, og dugnaður og atorkusemi skilar mönnum engu. Einkavinátta spilltra manna gerir það hins vegar.

Sigurjón segir:

Verð á þorskkvóta er komið svo fjarri raunveruleikanum að varla tekur tali. Við blasir að sá kvóti sem er keyptur skilar ekki arði fyrr en eftir um tuttugu ár.

 

Þegar svo er komið að verð á kvóta er svo hátt að ekki er ein einasta leið til að útgerðin standi undir því blasir við sá raunveruleiki að kvótakerfið er ekki lengur fiskveiðistjórnunarkerfi ...

Hafi Sigurjón þökk fyrir að benda á hið augljósa sem mörgum hefur þó skotist yfir, bæði stjórnmálamönnum og fjölmiðlamönnum. Eða kannski bara sýnt áhugaleysi. Fiskur og slor er víst ekki sexí í augum fjölmiðlamanna. Þetta sinnuleysi þeirra sýnir veruleikafirringu þar sem meira en helmingur af verðmæti vöruútflutnings landsmanna kemur úr þessari atvinnugrein. Það er hægt að slá æ hærri lán fyrir útgerðina eftir því sem kvótaverð hækkar, en hækkunin á kvótaverði stendur ekki í nokkru samhengi við hækkað afurðaverð. Það hefur ekki hækkað.

Hins vegar yfirsést ritstjóranum - eða hann gerir sig sekan um áhugaleysi - að Frjálslyndi flokkurinn hefur ótrauður haldið uppi merki byggðanna. Sigurjón M. Egilsson segir nefnilega líka:

Hitt er annað og verra að ekki er að heyra að frambjóðendur til Alþingis átti sig á fáránleikanum.

Er Sigurjón strútur þegar kemur að Frjálslynda flokknum? Stakk hann höfðinu í sandinn í leit sinni að breyttri afstöðu Einars K. Guðfinnssonar? Sigurjón gæti verið öflugur liðsmaður réttlætis ef hann legðist á sveif með okkur. Við tökum öllum liðsauka fagnandi því að málstaður okkar er góður.


Það sem ekki var sagt

Þögn S og D

Það sem var markvert við ræður formanna Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar var ekki það sem var sagt heldur það sem var ósagt. Hvers konar stjórnmálaleiðtogar eru það sem hlaupa yfir helsta ágreinings- og óréttlætismál síðari tíma, þ.e. kvótakerfið í sjávarútvegi? Eru það miklir stjórnmálaleiðtogar?

Í ræðu „jafnaðarmannaleiðtogans" Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur kom nákvæmlega ekkert fram um mesta óréttlætismál Íslandssögunnar, kvótakerfið sem hefur farið ránshendi um sjávarbyggðirnar. Ekkert einasta orð. Og fiskveiðar eru, vel að merkja, aðalútflutningsgrein landsmanna, meira en helmingur af vöruútflutningi kemur úr þessari atvinnugrein. Það er alls ekki trúverðugt hjá jafnaðarmanni að hlaupa yfir þetta óréttlæti.

Það er greinilegt að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur ekki borið sitt barr síðan hún lagði leið sína inn á fund LÍÚ haustið 2005 til að friðmælast við þau samtök sem vilja með kjafti og klóm vernda glórulaust kerfi í sjávarútvegi.

Geir Haarde hefur líklegast stokað út sinn öfugmælakafla um ábyrga stefnu í nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar en hann hefur verið drjúgur við að fara með öfugmæli um einhvern árangur kerfis sem hefur þrefaldað skuldir sjávarútvegsins á áratug á meðan tekjur hafa staðið í stað.

Það sem hefur að öllum líkindum orðið til þess að hann stökk yfir þennan öfugmælakafla er að nýjar niðurstöður Hafró sýna að svokölluð uppbygging á þorskstofninum hefur algerlega brugðist. Nýjar niðurstöður úr vorralli Hafró gefa til kynna að íslenska þjóðarbúið verði af tugmilljarðatekjum vegna minnkandi þorsk- og ýsuveiði ef farið verður að ráðum Hafró eins og Sjálfstæðisflokkur hefur gert gagnrýnislaust um áratugaskeið.

Það er auðséð að hvorki Samfylking né Sjálfstæðisflokkur treysta sér til að taka á málum og ætla að eftirláta öðrum að taka af skarið. Frjálslyndi flokkurinn kveinkar sér ekki undan ábyrgð frekar en óvinsælum ákvörðunum ef þær eru réttar og mun glaður taka til hendi í þessum málaflokki.Við erum þegar byrjuð að bretta upp ermarnar og hlökkum til að láta verkin tala ef við fáum til þess umboð. Vindum ofan af kvótakerfinu og færum byggðunum aftur atvinnuréttinn.


Bloggfærslur 21. apríl 2007

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband