Leita í fréttum mbl.is

Kristinn H. er í andstöðu við formann Frjálslynda flokksins

Í DV í dag gerir Kristinn H. Gunnarsson, þingflokksformaður Frjálslynda flokksins, að umtalsefni að Frjálslyndi flokkurinn sé að hverfa frá þeirri stefnu sinni að aðskilja ríki og kirkju. Í sjálfu sér er eðlilegt að það sé að einhverju leyti ólík afstaða til andlegra mála innan stjórnmálaflokka sem snúast eðli máls samkvæmt að mestu leyti um önnur viðfangsefni. Undir þetta sjónarmið Kristins um að endurskoðunar sé þörf tekur Magnús Þór Hafsteinsson.

Það sem stakk mig sérstaklega í umfjöllun DV var að þingflokksformaður Frjálslynda flokksins tiltekur ein trúarbrögð sérstaklega, þ.e. heiðnina, og segir að þau eigi ekki að sitja við sama borð og þau trúarbrögð sem meirihlutinn aðhyllist. Með þessu talar hann þvert gegn þeirri grundvallarstefnu flokksins að trúarskoðanir fólks séu einkamál þess, allar eigi sinn rétt og að aðskilja beri ríki og kirkju.

Það sem meira er er að formaður flokksins hefur margsinnis lagt fram frumvarp um aðskilnað ríkis og kirkju. Grunnstefið í því máli er að allir landsmenn eigi að sitja við sama borð. Í greinargerð Guðjóns Arnars með frumvarpi sínu segir m.a.:

Efnislega felur þetta frumvarp í sér að öllum trúfélögum skuli gert jafnhátt undir höfði og í samræmi við það skuli stefnt að aðskilnaði ríkis og hinnar evangelísku lútersku kirkju. 

Og nokkru síðar: 

Með núverandi skipan mála má segja að öðrum trúarhópum en þjóðkirkjunni sé sýnt óréttlæti sem ekki samrýmist eiginlegu trúfrelsi.
Skoðanakannanir hafa leitt í ljós að 60–65% þjóðarinnar styðja aðskilnað ríkis og kirkju.

Og enn síðar í greinargerðinni:

Flytjendum þessa frumvarps er öldungis ljóst mikilvægi hins menningarlega og félagslega hlutverks kirkjunnar í samfélaginu. Því felur frumvarpið ekki á neinn hátt í sér óvild í garð kirkjunnar. Með því er einungis ætlunin að tryggja jafnrétti allra þegnanna á þessu sviði sem öðrum í samfélaginu.

Erfitt er að átta sig á skyndilegum trúarhita Kristins H. Gunnarssonar og miklum vilja til að blanda  saman stjórn- og trúmálum. Frelsaðir sannkristnir vinir mínir kannast ekki við að Kristinn H. hafi lagt áherslu á þessi mál fyrr. Það vekur einnig upp áleitnar spurningar um hvers vegna þingflokksformaður Frjálslynda flokksins sem enn er lítill flokkur skuli leggja sérstaka áherslu á að örlítið trúfélag ásatrúarmanna skuli vera sett skör lægra en önnur.   

Ég sé enga ástæðu aðra en þá að Kristinn H. Gunnarsson vilji tryggja sína stöðu innan Frjálslynda flokksins með því að efna til deilna um trúmál við mig. Ég frábið mér að taka þátt í þeirri deilu með öðrum orðum en þeim að minna á orð frelsarans M.K. 12.17. Gjaldið keisaranum það sem keisarans er, og Guði það sem Guðs er og bréf Páls til Títusar 1.15. Allir hlutir eru hreinum hreinir, en flekkuðum og vantrúuðum er ekkert hreint, heldur er bæði hugur þeirra flekkaður og samviska. 

Ég óska Kristni og öðrum landsmönnum gleðilegra jóla.


Bloggfærslur 21. desember 2007

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband