Leita í fréttum mbl.is

Samfylkingin sneiðir að höfuðstaðnum

Mér sem gömlum og gegnum brottfluttnum Akureyringi, nánar tiltekið úr innbænum, rennur til rifja hversu mjög Samfylkingin virðist ætla að sneiða að höfuðstað okkar Norðlendinga. Margir vonuðust til þess að einhver viðsnúningur yrði í byggðastefnu stjórnvalda með nýrri ríkisstjórn og miklum loforðaflaumi Samfylkingarinnar í vor. Sú hefur þó ekki orðið raunin og birtist það í stóru sem smáu, s.s. óábyrgum niðurskurði aflaheimilda og mismunun menntastofnana á landsbyggðinni í fjárframlögum.

Samkvæmt fjárlagafrumvarpi 2008 heldur Háskólinn á Akureyri rétt rúmlega í við verðbólguna, þ.e. eykst um 7,2% frá fjárlögum síðasta árs, á meðan fjárframlög til Háskólans í Reykjavík aukast um 16,4%.

Þessi stefna Samfylkingarinnar kristallast enn fremur í framferði Þórunnar Sveinbjarnardóttur þar sem hún hefur tekið þá ákvörðun að leggja niður veiðistjórnunarsvið sem staðsett var á Akureyri og flytja fyrrum veiðistjóra suður yfir heiðar til að gegna þar einhverju allt öðru starfi. Hvað varð um loforðið störf án staðsetningar? Var það innantómt blaður?

Þessi ákvörðun Þórunnar er illskiljanleg í ljósi þess að fyrrum veiðistjóri stóð sig afar vel í starfi. Sem dæmi um það er að þegar verið var að koma veiðikortakerfi veiðimanna á - sem var umdeilt - veitti veiðistjóraembættið svo góða þjónustu að til þess var tekið. 

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að skilgreina eigi störf á vegum ríkisins sem hægt er að vinna án tillits til staðsetningar og þannig stuðlað að fjölgun starfa á landsbyggðinni. Það má vera að hafið sé þetta skilgreiningarstarf stjórnarflokkanna á því hvaða störf megi vinna utan höfuðborgarsvæðisins og hver ekki og að í þeirri vinnu hafi flokkarnir komist að því að alls ekki sé hægt að starfrækja embætti veiðistjóra á Akureyri.


Bloggfærslur 14. nóvember 2007

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband