Leita í fréttum mbl.is

Æsir tófan upp hungrið í fálkanum?

Þessi pistill fjallar ekki um samskipti Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins, heldur galna líffræði. Nú liggur fyrir veiðiráðgjöf Náttúrufræðistofnunar Íslands um að veiða megi 38.000 rjúpur í haust. Ráðgjöfin byggir á reiknilíkani sem svipar að öllu leyti til reiknilíkans Hafrannsóknastofnunar, þ.e. að áætlað sé að fyrirframákveðinn fasti drepist af náttúrulegum orsökum, sem sagt öðrum orsökum en veiðum. Síðan eru veiðar lagðar við þennan fasta sem ættu þá að vera heildarafföll stofnsins. Það er alveg ljóst að þetta reiknilíkan Náttúrufræðistofnunar gengur engan veginn upp þar sem það hafa tapast út úr stofninum 400 þúsund rjúpur á síðustu tveimur árum sem svarar til fjórfalds varpstofns í vor. Í hnotskurn er ekkert mark takandi á því líkani sem umhverfisráðherra notar til veiðistjórnunar.

Í bréfi Náttúrufræðistofnunar Íslands til umhverfisráðherra, dags. 6. september 2007, var ýmislegt sem flokkast undir galnar líffræðilegar vangaveltur, s.s. að skotveiðar magni upp aðra þætti affalla. Þetta eru sérlega furðulegar vangaveltur þar sem tekið er fram í bréfinu að afföll séu svipuð á friðuðum svæðum og þar sem veiðar eru leyfðar. Þetta er álíka og að telja að fálkinn magni upp matarlystina í tófunni.Það er orðið löngu tímabært að taka þessi líkön til endurskoðunar þar sem þau virðast vera jafn vitlaus hvort sem er í undirdjúpunum eða háloftunum.

Í mínum huga er alveg ljóst að grunnhugsunin í þessum líkönum er röng, þ.e. að áætla að náttúrulegur dauði sé einhver fasti og að öll önnur afföll skrifist síðan á veiðar. Í tilfelli rjúpunnar verður þessi skekkja augljós þar sem hún flögrar ofan jarðar og veiðin er þekkt stærð. Þegar afföll verða mun meiri en líkanið gerir ráð fyrir er farin gamalkunnug leið til að skýra út skekkjuna, þ.e. með því að endurmeta fyrri stofnstærð og segja stofninn minni en fyrri mælingar sýndu, og síðan er farin hin nýja stórundarlega leið að telja að veiðar magni upp önnur afföll. Er ekki orðið löngu tímabært að setja stórt spurningarmerki við þessa reiknileikfimi? Frá því að umrætt stofnstærðarlíkan var tekið í notkun hafa tapast út 400.000 fuglar og það á tveimur árum.  


Bloggfærslur 2. október 2007

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband