Leita í fréttum mbl.is

18% vextir en ekkert lán - og ekkert plan

Ég hef verið bjartsýnn á að Ísland gæti komið sér hratt og vel út úr efnahagskreppunni á svona 1-2 árum, já, náð vopnum sínum á ný innan tveggja ára. En þá þurfa þeir sem ráða að vera tilbúnir til að skoða allar leiðir út úr vandanum, hvort sem er til að veiða meira, taka einhliða upp annan gjaldeyri eða gjaldeyrishöft um tíma, skipulega, þá kannski í þrjá mánuði til hálft ár.

Ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks útilokar nánast allar aðrar leiðir en að slá lán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, og einhverra hluta vegna fannst þeim ekki nógu fínt að taka lán hjá Rússum sem þó stóð til boða. 

Nú er ljóst að Evrópuþjóðirnar eru að bregða fæti fyrir ríkisstjórnina við að fara þá leið sem hún ætlaði sér í fyrstu, stórfellda erlenda lántöku. Þrátt fyrir það virðast ráðamenn ekki tilbúnir til að horfast í augu við breyttar aðstæður, heldur hnoðast áfram með sömu hugmyndir og fyrir rúmum mánuði - þrátt fyrir að þær hafi ekki skilað neinum ávinningi.

Samfylkingin telur ennþá að allar dyr Evrópusambandsins muni standa opnar og að þar muni bjóðast afar hagfelldur samningur hjá þeim þjóðum sem eru í þessum rituðu orðum að bregða fæti fyrir það að við fáum lán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Samfylkingin er líka alfarið á móti því að taka upp annan gjaldmiðil þrátt fyrir að það gæti komið atvinnulífinu úr þeirri kreppu sem það er í, eingöngu vegna þess að þá minnkar pressan á að Íslendingar sjái sér einhvern hag í inngöngu í Evrópusambandið.

Sjálfstæðisflokkurinn tefur rannsókn mála og uppgjör eins lengi og hann mögulega getur. Ástæðan er augljós, hreinskilið uppgjör myndi snerta hagsmuni flokksins og helstu forystumanna hans, hvort sem er formanns eða varaformanns.

Ég hef verið þeirrar skoðunar að ekki væri skynsamlegt að boða strax til kosninga, og það yrði ekki gert fyrr en í fyrsta lagi með vorinu. Nú finnst mér aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar síðasta árið, einkum síðustu vikur og mánuði, bera með sér að því fyrr sem kosningar verða þeim mun betra fyrir íslensku þjóðina. Flokkarnir þyrftu þá að hrófla saman einhverri áætlun um það hvernig skynsamlegast væri að komast út úr kreppunni og þá gætu kjósendur tekið afstöðu til þeirra tillagna sem kæmu fram.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Skattborgari

Því meira sem ég heyri því meiri áhyggjur hef ég því að stjórnvöld ætla greinilega að fara sínar leiðir sem henta þeim sjálfum og sínum hagsmunum hvað sem færustu menn þjóðarinnar segja.

Í mínum huga þá er ekki spurning hvað það er sem er frum örsök vandamálsins í dag og það er sama vandamál ennþá og það eru vanhæfir ráðherrar og ráðamenn allstaðar sem hlusta ekki á aðra en þá sem hentar þeim að hlusta á hverju sinni.

Það er aðeins spurning hve mikinn skaða þeir gera áður en þeir fara frá völdum.

Kveðja Skattborgari.

Skattborgari, 11.11.2008 kl. 16:02

2 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Þróunin er ískyggileg en ég get ekki séð betur en að lítið hafi þokast til betri vegar sl.  6 vikum.

Sigurjón Þórðarson, 11.11.2008 kl. 17:17

3 identicon

Sigurjón mér líður nákvæmlega eins og verið sé að fórna heilli þjóð fyrir auðvaldið það á ekkert að gera og verður ekkert gert fyrr en við verðum komin svo langt niður að við tökum hverju sem er.

Vilbogi Magnús Einarsson (IP-tala skráð) 11.11.2008 kl. 22:37

4 Smámynd: Árni Gunnarsson

Það er búið að færa þessa fórn Vilbogi. En þessi ríkisstjórn er orðin slíkt pólitískt furðuverk að um það munu hvergi finnast dæmi nema í gamansögum fyrir börn. Ég átti í æsku minni tvö bindi af Ævitýrum Gúllívers, Gúllíver í Putalandi og Gúllíver í Risalandi. Það eina sem ég man úr þessum bókum er pólitískar deilur milli stílfærðra vitleysinga sem börðust um völd. Samfylkingin notar hvert tækifæri til að benda á EB sem einu lausnina meðan Geir botnar ekkert í af hverju allir eru svona reiðir við okkur og af hverju IMF sjóðurinn sendir okkur ekki lánið sem hann gleymdi að biðja um. Davíð hækkar stýrivextina þegar sendlar Alþjóðasjóðsins stíga um borð í flugvélina og segir að þetta sé samkvæmt grein nr. ? í samningnum við sjóðinn. En Geir og Björgvin segja að samningurinn ( sem aldrei var gerður) sé "leyndó". Íslenskur fulltrúi þjóðarinnar á erlendri grund skýrir frá því í fréttatíma sjónvarps að það sé gert gys að íslenskum stjórnvöldum út um allan heim og okkur sé nær að halda myndarlegan kökubasar til að bjarga efnahag okkar en að biðja um aðstoð sem engum detti í hug að verði í formi annars en ölmusu að óbreyttu andliti. Krakkar eru farnir að fleygja skyri og tómötum úr Bónus í Alþingishúsið undir lögregluvernd og Geir lítur þetta athæfi alvarlegum augum og verður alvarlegri á svipinn með hverjum degi.

Það eina sem nú er bitastætt í okkar pólitík er að Einar Kr. fulltrúi í LÍÚ í ríkisstjórn segist vera að skoða hvort útgerðirnar í flokkseigendafélaginu eigi ekki núna að taka lán hjá sjálfum sér í kvótanum upp á sama seinna. Og negla þar með niður eignarhaldið eitt skipti fyrir öll. Þjóðarbúið er gjaldþrota og fátt annað en kvótinn er eftir til að passa að ekki leki út úr eignarhaldi Flokksins.

En nú skulum við bara vera góð og taka utan um hvert annað.

Árni Gunnarsson, 12.11.2008 kl. 00:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband