Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2010

Réttlæti Steingríms J. Sigfússonar

Nú hefur komist upp um að Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra hefur séð til þess að afskrifaðar voru 2.600 milljónir af lítilli trilluútgerð sem tengist fjölskyldu Halldórs Ásgrímssonar.  Ekki voru það atvinnuhagsmunir sem settu afskriftirnar í forgang enda hefur fyrirtækið einungis örfáa menn í vinnu. Eigendurnir voru rétt nýbúnir fyrir hrun að dæla hundruðum milljóna út úr rekstrinum í arð.

Þessi verk sem unnin eru í skjóli Vg og fjármálaráðherra hljóta að vekja viðbjóð tugþúsunda Íslendinga sem eru í skuldavanda og horfðu upp á fjármálaráðherrann Steingrím og Árna Pál Árnason ólmast um og beita Hæstarétt þrýstingi. Samfylkingin og Vg fengu þann dóm sem flokkarnir pöntuðu frá réttinum og réðu sér vart fyrir kæti yfir niðurstöðunni sem þeim fannst réttlát þó svo að hún hafi komið sér illa fyrir almenning.

Tímabært er að velta fyrir sér hvað Steingrími þyki réttlátt, skynsamlegt og þess virði að færa fórnir fyrir. Ég get ekki séð annað en að allar björgunaraðgerðirnar og afskriftirnar miði að því að bjarga kerfinu. Steingrímur leggur áherslu á að bjarga skuldsetta kvótakerfinu í sjávarútvegi, bönkunum, verðtryggingunni, lífeyrissjóðakerfinu, skuldsettu stóru peningunum í atvinnurekstri, stóru tyggingafélögunum og skuldsettu landbúnaðarkerfinu. Fjármálaráðherrann virðist ekki gera sér grein fyrir því að lykillinn að því að landið nái sér út úr kreppunni eru skynsamlegar og réttlátar breytingar á framangreindum þáttum. 

Eina leiðin sem stjórnin sér til að kosta björgunarleiðangurinn er að fara dýpra ofan í vasa almennings og brjóta mannréttindi á þegnunum.


Hvað hefði verið sagt um Sjálfstæðisflokkinn?

Nú hefur Samfylkingunni tekist að fara á svig við rannsóknarskýrslu Alþingis og sýkna alla í hrunríkisstjórninni nema leiðtoga samstarfsflokksins. Í tilefni niðurstöðunnar er ekki úr vegi að velta fyrir sér hvað hefði verið sagt um Sjálfstæðisflokkinn ef hann hefði haft afl og aðstöðu til þess að koma því svo fyrir að allir sakborningar hefðu verið sýknaðir nema leiðtogi Samfylkingarinnar.

Það eina rétta var að láta alla hrunstjórnina fara í heilu lagi fyrir landsdóm til þess að láta reyna á sýkn eða sekt í sakargiftum. Ég er nokkuð viss um að Jóhanna hefði verið mjög jákvæð með þá lausn en það var einmitt það sem hún ætlaði Björgvini Sigurðssyni að vera þegar allt leit út fyrir að leið hans lægi fyrir landsdóminn.

Annars hefði Geir Haarde betur látið ógert að fara í Kastljósið en hann er enn fastur í þessum örvæntingarútskýringum um að fall Límannbræðrabankans í BNA hafi fellt Ísland og sömuleiðis að enginn hafi séð hrun bankakerfisins fyrir. Það segir hann þrátt fyrir viðvaranir og skýrslur erlendra aðila sem kveðnar voru niður m.a. af gagnmerkum efnahagsráðgjafa, Tryggva Þór Herbertssyni, sem Geir réð til að kljást við hrunið. Niðurstaða þeirra var að gera sem minnst.

Ekki má heldur gleyma því að Frjálsyndi flokkurinn varaði almenning við blikum á lofti í efnahagsmálum í aðdraganda kosninganna 2007, m.a. með auglýsingum sem voru umdeildar þá en í þeim voru lesendur varaðir við með spurningum um hvort þeir væru að verða gjaldþrota vegna verðtryggingar, hárra vaxta og óhóflegra lántaka. 


mbl.is Engin flokkslína Samfylkingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Velkomin í Frjálslynda flokkinn

Ríkisstjórn Samfylkingar og Vg hefur valdið kjósendum sínum gríðarlegum vonbrigðum en þessi hluti fjórflokksins lofaði í aðdraganda kosninganna sem fram fóru fyrir einu og hálfu ári endurreisn, endurmati, réttlæti og sáttargjörð við þjóðina um breytingar á illræmdu kvótakerfi í sjávarútvegi.

Núna sitja fjölmargir kjósendur Vg og Samfylkingarinnar eftir með sárt ennið þar sem skjaldborgin reyndist lygaþvæla og þegar til á að taka varðseta um algerlega óbreytt ástand. Ríkisstjórnin hefur að vísu reist háa múra um þau kerfi sem ollu hruninu, s.s. óbreytt kvótakerfi, lífeyrissjóðakerfi, verðtryggingu og fjárglæframennina. Hún dekstrar hrunaliðið með skattfríðindum til atvinnurekstrar pólitískra vildarvina og hálaunaðri sérfræðivinnu í æðstu stjórn ríkisins.
Þeir sem vilja raunverulegar breytingar verða að þora að stíga fram og taka af krafti þátt í stjórnmálabaráttu þar sem endurreisnin mun ekki verða af sjálfu sér.  Þjóðin hefur ekki lengur efni á samtryggingu fjórflokksins og varðstöðu um kerfi sem fela í sér mannréttindabrot.

Oddviti Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi, Guðbjartur Hannesson, sem lofaði fólki réttlátum breytingum á kvótakerfinu býður fólki upp á að festa í sessi óbreytt kerfi til tveggja áratuga. Ósvífnin er þvílík að varaþingmaður Samfylkingarinnar, Þórður Már Jónsson, hafði ekki lengur geð í sér til þess að kenna sig við flokkinn. Mér finnst eðlilegt að almennir kjósendur Samfylkingarinnar velti því einnig fyrir sér hvort þeir eigi samleið með þessu ómerkilega svikaliði. Ég reikna með að fjölmargir kjósendur Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi svari þessari spurningu hikstalaust neitandi. Á þá hina sömu skora ég að koma til starfa í Frjálslynda flokknum. Frjálslyndi flokkurinn hefur frá stofnun barist af alefli fyrir skynsamlegum og réttlátum breytingum á kvótakerfinu og hefur ekki verið á jötu banka eða útrásarhyskis.

Frjálslyndi flokkurinn hefur sett stórt spurningarmerki við grundvallarforsendur kvótakerfisins sem hefur grafið undan byggðunum. Okkur veitir ekki af því að fara að fiska meira til að rétta af byggðirnar og allir sem eru sama sinnis ættu að leggja okkur lið.

Ruglið heldur áfram í Háskóla Íslands

Sök fræðasamfélagsins á hruninu er mikil þar sem almenningur stóð í þeirri trú að hægt væri að treysta háskólunum fyrir skynsamlegum og gagnrýnum niðurstöðum í álitamálum. Hluti háskólafélagsins sem t.d. afurðir Tryggva Þórs Herbertssonar og Mishkins, Friðriks Más Baldurssonar og Porters bera með sér var keyptur af sérhagsmunaöflum. Skýrsluskrifin gáfu útrásarliðinu skálkaskjól til þess að halda áfram að grafa undan hagsmunum þjóðarinnar og sömuleiðis stjórnmálamönnunum sem vissu betur og nú neyðast til að svara til saka kost á því að ljúga að þjóðinni og umheiminum.

Í Morgunblaðinu í dag er frétt af rannsóknum nýbakaðs dósents Daða Más Kristóferssonar við hagfræðideild Háskóla Íslands sem benda sterklega til þess að ruglið í Háskóla Íslands haldi áfram eftir hrun eins og ekkert hafi í skorist. Fréttir af helstu niðurstöðum Daða Más gefa til kynna að Íslendingar hafi komið á hagstæðasta fiskveiðistjórnunarkerfi sem völ er á í víðri veröld og varasamt sé að breyta því á nokkurn hátt þar sem búið er að fjárfesta svo mjög í greininni. 

Fræðimaðurinn Daði Már Kristófersson virðist ekki hafa frétt af því í skilyrtum útreikningum sínum á auðlindarentu að þorskaflinn - eftir að fína kerfið sem hann vill ekki breyta var tekið upp - sé einungis þriðjungurinn af því sem hann var fyrir daga kvótakerfisins. Eflaust þykir vísindamanninum mannréttasjónarmið léttvæg og eiga skilyrðislaust að víkja fyrir meintri hagræðingu og það finnst honum vafalaust sömuleiðis um þá ágalla kerfisins sem fela í sér að það hvetur til brottkasts.  Fullyrðingar dósentsins við Háskóla Íslands um að frjálst framsal á veiðiheimildum hafi leitt til mikillar fjárfestingar í sjávarútvegi er einfaldlega kolröng og býst ég við því að fræðimaður með faglegan metnað vilji leiðrétta þá fullyrðingu. Frjálst framsal á aflaheimildum hefur leitt til gífurlegs fjármagnsflótta út úr sjávarútveginum og er útgerðin vart rekstrarhæf nema að fá umtalsverðar afskriftir á lánum. Ef farið er um hafnir landsins sést vel að togarar og atvinnutæki eru komin til ára sinna þannig að augljóst er að fjármagnið hefur runnið út úr atvinnugreininni.

Sú spurning hlýtur að vakna hvernig svona gervifræði í hagfræðideildinni horfi við hinum almenna háskólamanni sem ástundar gagnrýna hugsun og er annt um orðspor Háskóla Íslands.


Skagfirðingar einhuga um að styðja Jón Bjarnason til góðra og bráðnauðsynlegra verka

Sveitarfélagið Skagafjörður glímir í kreppunni eins og örugglega fleiri sveitarfélög við þrengri fjárhag en áður.

Nauðsynlegt er að leita allra leiða til að auka tekjur sveitarfélagsins til þess að auðvelda rekstur og bæta hag íbúa. Nærtækasta leiðin til tekjuaukningar er að leyfa auknar veiðar á nytjastofnum sjávar og til þess að stuðla að því lagði ég fram eftirfarandi tillögu í sveitarstjórn:

Sveitarstjórn Skagafjarðar leggur til við ríkisstjórn Íslands að stórauka veiðiheimildir á nytjastofnum sjávar

Eftir nokkrar umræður um tillöguna var eftirfarandi breytingatillaga samþykkt:

Sveitarstjórn Skagafjarðar styður áform sjávarútvegsráðherra um að láta fara fram óháða úttekt á forsendum tillagna Hafrannsóknarstofnunar og ákvarðanna um magn veiðiheimilda í þorski og öðrum nytjategundum. Sveitarstjórn hvetur ráðherra til að fylgja þessum áformum eftir og hrinda þeim í framkvæmd hið fyrsta og leggur áherslu á að veiðiheimildir verði auknar á þeim tegundum og svæðum þar sem ljóst þykir að hægt sé að auka afla með sjálfbærum hætti, til hagsbóta fyrir sjávarbyggðirnar í landinu.

 


Stjórnmálastéttin í kreppu

Niðurstaða rannsóknarskýrslu Alþingis fól í sér margvíslega gagnrýni á stjórnarhætti, fjölmiðla sem og hagsmuna- og fræðasamfélagið. Flestir ef ekki allir þingmenn hafa lofað bót og betrun á starfsháttum og sumir auðlegðar- og kúlulánaþingmennirnir hafa jafnvel gert það tárvotir og skreytt heit sín svo að loforðaflaumurinn úr barka þeirra er orðinn velgjulegur.

Þegar til á að taka eru efndirnar engar sem sást best á aumum verkum Guðbjarts Hannessonar sem stjórnaði svokallaðri sáttanefnd í sjávarútvegi sem ætlað var að innleiða réttlátar breytingar á stjórn fiskveiða.  Ekki ætla ég að hafa mörg orð um afurð Guðbjarts sem er nýbakaður ráðherra og félaga hans í meirihluta nefndarinnar en þjóðin hefur hvorki siðferðislega né fjárhagslega efni á að halda áfram með núverandi stjórnkerfi fiskveiða eins og ekkert hafi í skorist.

Það sem Guðbjartur og meirihluti svokallaðrar sáttanefndar flaskaði algerlega á var að taka forsendur núverandi fiskveiðistjórnunarkerfis til endurskoðunar en kvótakerfið skilar einungis á land þriðjungnum af þeim þorskafla sem veiddist að jafnaði fyrir daga kerfisins.  Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum hafði nefndin ekki nokkurt þrek til þess að fara yfir galnar forsendur kerfisins sem stangast á við viðtekna vistfræði og heilbrigða skynsemi sem segir að vafasamt sé að ætla að nokkurt vit sé í því að draga það sem má veiðast við Grímsey frá því sem má veiða á Breiðafirði, hvað þá við Vestmannaeyjar.  Það liggur í augum uppi að ef stjórnvöld ætla sér að festa í sessi aflamarkskerfi ætti að sníða af helsu galla þess, s.s. brottkast, og fara að sjálfsögðu yfir það hvers vegna kerfið sem byggir á reiknisfiskifræði skilar ekki upphaflegum markmiðum sínum um stöðugan aukinn fiskafla.

Auðvitað hefði það átt að vera algjört forgangsverk fyrir íslensk stjórnvöld að líta til Færeyja þar sem ágæt sátt ríkir um stjórn fiskveiða öfugt við hér.  Færeyska dagakerfið byggir á því að sókn sé stöðug en aflinn ræðst þá af því sem lífríkið gefur en ekki hæpinni ráðgjöf reiknisfiskifræðinga.  Nú er þorskstofninn á uppleið við Færeyjar þrátt fyrir að alltaf hafi verið veitt umfram ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins síðustu tvo áratugina. Reyndar hljóðaði ráðgjöfin síðustu þrjú árin upp á algert veiðibann en samt hefur stofninn sveiflast upp og niður og er núna kominn í uppsveiflu.  Þetta segir mér einungis eitt, það að reynslan frá Færeyjum sýnir að ráðgjöf reiknisfiskifræðinganna er röng. Það sama ætti algjört árangursleysi hér við land að sýna.

Borðleggjandi er að þjóð sem glímir við gjaldeyrisskort á að fara gaumgæfilega yfir öll rök sem hníga að því að hægt sé að sækja í auknum mæli í vannýtta fiskveiðiauðlind.


Ályktun Frjálslynda flokksins um Magma

Magma nefndin svokallaða hefur núna skilað af sér fyrsta hluta af þremur sem henni var falið að kanna. Í þessum hluta er fjallað um kaup Magma Energy á eignarhlutum í HS Orku hf í gegnum dótturfélag í Svíþjóð.


Magma nefndin rekur söguna hvernig löggjöf Íslendinga hingað til hefur beinst að því að halda auðlindum okkar frá erlendum aðilum. Skörð voru rofin í þann múr með EES reglunum hvað viðkemur aðilum innan EES svæðisins. Því sé mjög mikilvægt að ákvarða hvort Magma Energy sé starfandi innan EES eða utan. Íslensk lög banna aðilum utan EES að fjárfesta í auðlindum okkar.


Magma nefndin gagnrýnir nefnd um erlenda fjárfestingu fyrir afgreiðslu sína á málinu. Það er augljóst að allt frá fossalögunum frá 1907 hefur löggjöfin snúist um að halda erlendum fjárfestum frá íslenskum auðlindum. EES samningurin snýst einnig um að veita meðlimum hans forgang fram yfir þá sem eru ekki aðilar hans. Að meta heimilsfang í Svíþjóð, þrátt fyrir að Magma Energy hafi öðlast það með lögmætum hætti, til jafns á við anda íslenkra laga og hugmyndafræði Evrópusambandsins er mjög gagnrýni verð. Lágmarkskrafa er að senda slík lögfræðileg álitamál til dómstóla þar sem miklir hagsmunir eru í húfi fyrir íslenskan almenning.
Frjálslyndi flokkurinn tekur undir gagnrýni Magma nefndarinnar á vinnubrögðum núverandi stjórnvalda við sölu á HS Orku. Stefna Frjálslynda flokksins hefur ætið verið að allar auðlindir landsins séu í eigu Íslendinga og arðurinn renni óskiptur til íslensku þjóðarinnar.
Núverandi stjórnvöld hafa algjörlega brugðist og glutrað einni arðvænlegustu auðlind okkar frá okkur til næstu 130 ára. Allt atferli núverandi ríkisstjórnar í Magma málinu ber vott um algjört sinnuleysi eða jafnvel samvinnu við erlenda aðila við yfirtöku þeirra á auðlind okkar.  Þessi vinnubrögð eru í hrópandi andstöðu við alla lagasetningu Alþingis s.l. hundrað ár og verður Frjálslyndi flokkurinn að álykta að annað hvort hafi núverandi ráðherrar tileinkað sér nýja stefnu eða aldrei verið sammála löggjafanum hingað til.
Frjálslyndi flokkurinn krefst þess að núverandi ríkisstjórn hysji upp um sig buxurnar og standi við stóru orðin og sjá til þess að HS Orka hf sé og verði undir fullri stjórn Íslendinga og auk þess að allur arður auðlindarinnar komi óskertur til íslenksu þjóðarinnar


Mikið ójafnvægi í yfirlýsingum Náttúrufræðistofnunnar

Það má ganga að því sem vísu hvert haust að það berist miklar yfirlýsingar úr ranni Náttúrufræðistofnunar um áhrif veiða á rjúpnastofninn.  Merkilegt er að meintur vandi og áhyggjutónn virðist aukast eftir því sem stjórnun og takmörkun veiðanna vex!

Mjög bagalegt er við mótsagnakenndar yfirlýsingar Náttúrufræðistofnunar er að þær eru ekki rökstuddar með aðgengilegri skýrslu eða gögnum t.d. á vef stofnunarinnar.  Í fréttaskýringu Morgunblaðsins í morgun má helst ráða að rjúpnastofninn sé í miklum voða vegna veiða þrátt fyrir að hér á Norðurlandi og á Austurlandi þar sem veiðar eru miklar sé henni að fjölga þriðja árið í röð.  Rjúpunni fer víst fækkandi á Suður og Vesturlandi þar sem stór svæði eru friðuð. 

Náttúrufræðistofnun skýrir aukna veiði  veiðimanna í fyrra í hverri veiðiferð sem afleiðingu aukinnar græðgi veiðimanna.  Ég hef sjaldan heyrt aðra eins rugl og bull skýringu en nærtækasta ástæðan á aukinni veiði í veiðiferð er sú að það hafi verið mun meira af rjúpu í fyrra en fyrri ár sem voru til samanburðar.

Ein helsta dellan líffræðilega sem kemur frá Náttúrufræðistofnun er að veiðar magni upp önnur afföll í stofninum.  Það er engu líkara en að gengið sé út frá því að veiðimenn æsi upp hungrið í fálkanum og refnum.  Sérfræðingar Náttúrfræðistofnunar virðast vera búnir að týna sér í einhverju reiknilíkani og gleyma því sem kennt er í fyrstu kennslustund í vistfræði þ.e. að afföll séu vaxandi með auknum þéttleika. Rjúpna módelið sem stofnunin notar sem forsendu ráðgjafar hefur aldrei gengið upp en fyrir 3 árum töpuðust mörg hundruð þúsund rjúpur út úr bókhaldinu.

 


mbl.is Takmörkun veiða skilar ekki árangri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fundurinn með Ingibjörgu þungbær skuggi á annars miklum gleðidegi Samfylkingarinnar

Samfylkingin og Steingrímsarmurinn í  Vg fengu þann dóm í Hæstarétti um gengistryggðu lánin sem  pantaður var fyrr í sumar.  Ráðamenn Samfylkingarinnar hvort sem er í ríkisstjórn eða verkalýðsforystu gátu í dag ekki farið dult með mikla gleði sína með dóminn.  Með dómnum tókst a.m.k. í bili að rétta af nýlega endurreist bankakerfi með því að ganga rækilega á höfuðstól heimilanna. 

Öllu þyngra var yfir sama hópi Samfylkingarliða þegar leið á kvöldi en þá tók við erfiður fundur með sjálfri Ingibjörgu Sólrúnu Gíslandóttur um það hvort að hún eigi að svara til saka fyrir þátt sinn í hruninu.  Hún myndaði jú ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum sem hafði það helsta markmið að greiða götu útrásarvíkinganna sem veittu vel og ríkulega í kosningasjóði viðkomandi flokka.  Aðstoðin var svo ríkulega  veitt að vildarvinunum í aðdraganda hrunsins að ekki gafst nokkur tími í að pæla í þjóðarhag.  Ekki var látið af neyðaraðstoð við útrásarliðið eftir hrun heldur haldið áfram við að tryggja að snillingarnir gætu haldið sem mest af fyrirtækjum sem þeir misstu tímabundið tangarhald á til bankanna og á það við um skipafélög, lyfsölu, fjölmiðla, fjarskiptafyrirtæki, verslanir, flugfélög ofl. Þeim er jafnvel veittur sérstakur skattaafsláttur til þess að koma á fót nýjum fyrirtækjum s.s. gagnaverum.

En  sá böggull fylgir skammrifi að einhver þarf að borga veisluna og óráðsíu fjárglæframannanna og á því fengu heimiln að kenna í dag.


mbl.is Fundað með Ingibjörgu Sólrúnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ákæra Alþingis á hendur Geirs Haarde er í samræmi við stefnu Sjálfstæðisflokksins

Helsta niðurstaða endurreisnarstarfs landsfundar Sjálfstæðisflokksins í ársbyrjun 2009 var á þá leið að stjórnmálalegt og efnahagslegt hrun landsins hefði orðið vegna þess að fólkið hefði brugðist en alls ekki stefna Sjálfstæðisflokksins.

Í samræmi við þá niðurstöðu landsfundar ætti Sjálfstæðisflokkurinn að vera sáttur og í raun ákafur í  að láta Geir Haarde sæta ábyrgð. Satt best að segja þá finnst mér ýmsir aðrir bera meiri sök á því að það fór sem fór s.s. sá öflugi sölumaður Halldór Ásgrímsson sem náði því afreki að selja sér nákomnum ríkisbanka með hæfisstimpli frá sjálfum ríkisendurskoðanda.

Í umfjöllun um þessi þungbæru mál sem snúa að ákærum á hendur fyrrverandi ráðherrum, þá gladdi það mitt litla hjarta að sjá hve forystumönnum Sjálfstæðisflokksins og fylgifiskum þeirra er skyndilega orðið annt um mannréttindi. Ekki hefur borið á því í umræðum áður að sömu aðilar sem nú æmta og skræmta yfir því að niðurstaða Landsdóms sé endanleg og ekki í samræmi við nútímalegt réttarfar, hafi einhverju sinni haft orð á því að nokkur þörf sé á því að bæta þeim sjómönnum sem sóttu mál sitt til Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna í samræmi við álitið sem féll þeim í vil og hvað þá hefur nokkur af nýbökuðum baráttumönnum mannréttinda í Sjálfstæðisflokknum léði máls á því að breyta kvótakerfinu þannig að hætt verði að brjóta mannréttindi.

Það má vissulega líta á gagnrýni Sjálfstæðisflokksins á dómstólinn Landsdóm út frá mannréttindasjónarmiðum sem ákveðna og óvægna sjálfsgagnrýni þar sem dómsmálaráðherrar landsins hafa lengstum komið úr röðum flokksins. Nú verður fróðlegt að fylgjast með hvort að aukin vægi mannréttindasjónarmiða munu einnig eiga við um fleiri s.s. sjómenn en ekki eiga einungis við um fyrrum formann Sjálfstæðisflokksins.


mbl.is Mistök gerð við einkavæðinguna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband