Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2011

Betra ef satt væri - Gaspur Steingríms J.

Steingrímur J. Sigfússon foringi ríkisstjórnarinnar fór mikinn í hádegisfréttatíma RÚV í að hreykja sér af styrkri stöðu þjóðarbúsins.  Sannleikurinn er allur annar en staðan er grafalvarleg.  Á fyrstu 5 mánuðum ársins námu gjöld að meðaltali á hverjum degi 180 milljónum krónum umfram það sem ríkið aflaði.  Hallarekstur Steingríms og Samfylkingarinnar er gífurlegur. Hagtölur Seðlabankans sýna mikinn viðskiptahalla þrátt fyrir að verðmæti innflutnings sé mun minni en útflutnings.  Ástæðan er gífurlegur vaxtakostnaður þjóðarbúsins vegna erlendra skulda en vaxtagjöld umfram vaxtatekjur á fyrstu þremur mánuðum ársins voru á sjötta tug milljarðar króna!

Í afar þröngri stöðu er þetta gaspur Steingríms J. sérkennilegt en furðulegra er þó að hann neitar að skoða augljósar leiðir sem geta aukið gjaldeyristekjur þjóðarbúsins.

 


Útvarp Saga skiptir máli

Útvarp Saga skiptir miklu máli í þjóðfélagsumræðunni.  Ástæðan fyrir mikilvægi Útvarps Sögu er fyrst og fremst sú að umræðan er öllum opin, hver sem er getur hringt inn og látið sína skoðun í ljós. Sömuleiðis hafa stjórnendur stöðvarinnar verið óhræddir við að fá til viðtals fólk sem ekki fær áheyrn í öðrum fjölmiðlum.  Í aðdraganda hrunsins fór fram gagnrýnin umræða um stöðu fjármálakerfisins sem fór mjög lítið fyrir á öðrum fjölmiðlum. Eitt er víst að enginn sem hlýddi á magnaða pistla Eiríks Stefánssonar kom á óvart það álit Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna, að kvótakerfið bryti í bága við jafnræði borgaranna, þó svo að "fræðasamfélagið" og stjórnmálastéttin hafi látið í veðri vaka að álitið kæmi á óvart. 

Í umræðunni um Icesave dró Útvarp Saga vagninn í að krefjast gagnsæis og að þjóðin fengi að segja sitt álit á samningi sem, fræðisamfélagið, fjölmiðlar, álitsgjafar, aðilar vinnumarkaðarins, stærstu stjórnmálaöfl og Besti flokkurinn vildi samþykkja án nokkurrar umræðu.

Greinilegt er að ýmsir  Evrópusinnar eru uggandi um áhrifamátt opinnar umræðu sem fram fer á Útvarpi Sögu.  Ekki verður Útvarp Saga sökuð um að reka einhliða áróður gegn innlimun landsins í Evrópusambandið þar sem um nokkurt skeið hefur verið á dagskrá stöðvarinnar sérstakur þáttur, Nei eða já, þar sem kostir og gallar aðildar landsins að Evrópusambandinu eru tíundaðir

Nýlega var tekin sú erfiða ákvörðun að segja tveimur velmetnum starfsmönnum upp á stöðinni. Í framhaldinu hafa þeir sem óttast stöðina reynt að gera uppsagnirnar tortryggilegar og magna upp einhverja óvild í kringum málið og í garð Útvarps Sögu.  Skýringin sem gefin var á uppsögnunum var að hlustun hefði ekki verið í samræmi við væntingar. Að mínu viti stóðu fjölmiðlamennirnir sig mjög vel, sem um er rætt. Efnistök og framsetning þeirra var hins vegar ekki í miklu frábrugðin því sem gerðist í sambærilegum þáttum á öðrum útvarpsstöðvum s.s. Bylgjunni og Rás 2, sem hafa yfir mun meiri mannskap, útbreiðslu og fjármunum að ráða. Það var því nokkuð ljóst að á brattann var að sækja í samkeppninni, enda leikurinn ójafn. 

Það verður spennandi að fylgjast með hvaða stefnu Útvarp Saga muni taka, en það er sjaldnast lognmolla á stöðinni enda skiptir hún máli.


Klíkan

Samtök Atvinnulífsins fengu í kvöld, einhverra hluta vegna að boða þjóðinni gagnrýnislaust algera þvælu í seinni fréttatíma Ríkissjónvarpsins. Skilaboðin voru að alls ekki mætti breyta illræmdu kvótakerfi í sjávarútvegi. Ástæðan var að sögn SA, að ljósið í efnahagsmyrkrinu fælist í því að flytja út aukin verðmæti sjávarafurða.

Staðreyndin er hins vegar sú að frá því að kvótakerfið var tekið upp hefur botnfiskafli dregist gífurlega saman. Upphaflega markmið kerfisns voru að afla árlega 550 þús tonn af þorski en aflinn í ár er 160 þús tonn. Fyrir þá sem vilja bæta þjóðarhag er augljósasta leiðin að auka frelsi í sjávarútveginum og aflétta óréttlátum atvinnuhöftum.

Fyrir þjóðina er kerfið vont en mögulega er kerfið gott fyrir klíkuna sem ræður SA.


Hver Skagfirðingur fengi um 5 milljónir króna frá Landsbankanum

Ríkisstjórn Vg og Samfylkingar sem gaf sig út fyrir að vera stjórn breytinga og velferðar almennings hefur heldur betur gert í brækurnar.  

Í stað þess að beita sér fyrir grundvallarendurskoðun og breytingum á þeim kerfum sem orsökuðu hrunið hefur vinna stjórnarliða farið í að tjasla þeim saman.  Handbendi ríkisstjórnarinnar í Landsbanka Íslands eru á fullri ferð að endurreisa fallna stórleikara hrunsins, með gríðarlegum afskriftum t.d. af lánum Magnúsar Kristinssonar þyrlu- og útgerðarmanns í Eyjum og Guðmundar Kristjánssonar í Brimi.  Það er kaldhæðnislegt að kálfarnir sem að ríkisstjórnin endurreisti skuli síðan launa velgjörðarmönnum sínum, með hörðum og óvægnum áróðri gegn almannahagsmunum og ríkisstjórninni.

Það er umhugsunarvert að ef að þær afskriftir sem að Guðmundur Kristjánsson í Brimi hefðu skipst jafnt á alla íbúa Sveitarfélagsins Skagafjarðar en ekki á Guðmund Kristjánsson einan, þá hefði hver og einn Skagfirðingur fengið frá Landsbankanum um fimm milljónir króna. Það hefði nú verið dágóð búbót fyrir fjögurra manna skagfirska fjölskyldu að fá hátt í tuttugu milljónir króna frá Landsbankanum.


Borgarstjóri hefur í hótunum við íþróttafélög

Borgarstjóri Reykvíkinga hefur nú tekið upp á því að saka íþróttafélög í Reykjavík um að mismuna stúlkum og drengjum.  Til vitnis um það hefur hann að vopni skýrslu Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkur sem samin er af þremur ágætum konum.  Í skýrslunni kemur fram að í sjálfboðaliðastörfum í stjórnum íþróttafélaganna séu fleiri karlar en konur og að fleiri piltar stunda boltaíþróttir en stúlkur en æfingaraðstaða og tími til æfinga sé svipaður hjá báðum kynjum. 

Erfitt er að sjá að skýrslan getir verið málefnaleg ástæða fyrir borgarstjórann Jón Gnarr til að hafa í hótunum við umrædd íþróttafélög og hóta að svipta þau fjárstyrkjum.  Ef litið er til annarra íþróttagreina þá má eflaust sjá að áhugasvið kynjanna á unga aldri er misjafn s.s. á það við um göfugar íþróttir eins og hnefaleika, fimleika, sund og dans.

Hvað varðar þá uppgötvun Jóns Gnarr Kristinssonar um ójafna kynjaskiptingu í stjórnum íþróttafélaga sem mætti vissulega bæta úr,  þá tel ég að virðulegur borgarstjóri ætti að líta sér nær en tveir þriðju af borgarfulltrúum Bestaflokksins eru karlmenn en einungis þriðjungurinn konur. 

http://www.reykjavik.is/Portaldata/1/Resources/mannr_ttindaskrifstofa/skjol/UTTEKTLOKASKJAL34.pdf


Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband