Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

DV að sækja í sig veðrið

Oft og einatt er sami vinkillinn í fréttamiðlum á Íslandi, rætt við hagsmunasamtök og málflutningur þeirra fluttur gagnrýnislítið, hvort sem það er LÍÚ eða úr greiningardeildum bankanna margrómuðu og síðan mæta hóparnir sitt á hvað í hina ýmsu fjölmiðla og ræða málin út frá sama sjónarhorninu. Það er oft eingöngu blæbrigðamunur á fréttaflutningi t.d. Fréttablaðsins og Morgunblaðsins þar sem skrúfað er reglulega frá mönnum á borð við Ragnar Árnason sem sannarlega hefur haft rangt fyrir sér varðandi þjóðahagslega hagkvæmni og ábyrgð í núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi.

Dæmi um slíkt er viðtal við Ragnar í Morgunblaðinu í vikunni þar sem Ragnar tíundaði kosti kerfis sem skilar þrisvar til fjórum sinnum færri þorskum á land, og fyrirtækin sem eftir standa í greininni eru skuldum vafin.

Í DV kveður oft við annan tón og ferskara sjónarhorn. Í DV og jafnvel á Útvarpi Sögu eru málin krufin frá hinum ýmsum hliðum. Það sem er kannski einna verst við hvítu pressuna er að menn leggja ekki í að rökræða ákveðin sjónarmið, heldur er reynt að dæma eða öllu heldur gjaldfella málflutning án þess að fara yfir röksemdir.

Breytingar eru í vændum í íslensku samfélagi. Það skyldi þó aldrei verða að hvítþvottapressan gæfi á endanum eftir þar sem frjálsari fjölmiðlar sem ekki eru bundnir á klafa þröngra hagsmunasamtaka og valdaflokka sækja í sig veðrið gegn hvítu pressunni.


Eru þetta ekki seiðin sem voru á matseðlinum í Grímsey?

Nú furða menn sig enn og aftur á því að aukin friðun gefi ekki af sér fleiri seiði - það er enn verið að bíða og bíða.

Hvernig væri nú að blaðamenn og aðrir sem fjalla um sjávarútvegsmál færu nú að tengja?

Faglegum gagnrýnum skýrslum á þær aðferðir sem notaðar hafa verið á umliðnum árum er stungið undir stól og haldið er áfram með svokallað uppbyggingarstarf á þorskstofninum sem hefur hvergi gengið eftir í heiminum.


mbl.is 2008 árgangur þorsks virðist slakur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað var Konráð Alfreðsson að meina þá?

Í gær birtist Konráð Alfreðsson í fjölmiðlum landsmannaþar sem að hann fullyrti að Seðlabankinn væri vísvitandi að koma af stað fjöldagjaldþrotum í sjávarútvegi meðal sterkustu fyrirtækja í greininni.

Margur taldi fyrir víst að Konráð ætti við Samherja sem hefur löngum talist til sterkari fyrirtækja í sjávarútvegi.  Í ársreikningum Samherja fyrir árið 2006 sem eru þeir síðustu sem fyrirtækið hefur birt kemur fram að skuldir félagsins séu um 32 milljarðar á meðan tekjur af veiðum og vinnslu voru um 17 milljarðar. Frá árinu 2006 hefur fyrirtækið gefið laxeldið upp á bátinn og sömuleiðis herma fréttir að ekki hafi allar fjárfestingar í Færeyjum gengið upp.

Það er þó ekki allt svart sem betur fer þar sem bleikjueldið gengur ágætlega. Eitt er víst að mun aldrei geta náð sér út úr skuldafeninu með núverandi fiskveiðistjórn þar sem leyfður þorskafli er einungis þriðjungur af því sem hann var áður en svokallað uppbyggingarstarf hófst. 


mbl.is Segja stöðu Samherja sterka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pínleg staða Einars Kristins Guðfinnssonar

Í Kastljósi kvöldsins réttlætti Einar Kristinn Guðfinnsson 50% hækkun stýrivaxta.  Það hefði svo sem verið ókei ef að ráðherrann hefði ekki haft það sem helsta baráttumál á liðnum árum að lækka umrædda vexti.  Fyrr á þessu ári þá skrifaði Einar Kristinn Guðfinnsson pistil þar sem að hann vitnaði í sjálfan Björgólf Thor Björgólfsson til marks um að Seðlabankinn yrði að skrúfa vextina niður.

Einar Kristinn er vanur maður þegar kemur að því að snúa algerlega við blaðinu. Hann bauð sig fram fyrir hverjar kosningar á fætur öðrum á þeim forsendum að hann væri á móti kvótakerfinu og myndi jafn vel ekki styðja ríkisstjórn sem endurskoðaði ekki kerfið sem rústaði vestfirskum byggðum.

Eftir að hann varð ráðherra varð kerfið skyndilega heilagt og svo mjög að ekki má breyta því þó svo að það hafi verið úrskurðað af Sameinuðu þjóðunum sem óréttlátt.

Hvernig er það  Sjálfstæðisflokkinn - Vilja menn á þeim bænum láta taka sig alvarlega?


mbl.is Vaxtahækkun jók bankakreppuna í Noregi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þiggjum aðstoð Færeyinga á fleiri sviðum

Færeyingar eru mikir höfðingjar að bjóðast til að hjálpa okkur á erfiðum tímum.

Íslenskir ráðamenn ættu að setjast yfir það með Færeyingum hvernig þeim tókst að komast út úr sinni krísu á tíunda áratugnum, en það gerðu þeir meðal annars með því að hætta að nota kvótakerfi við að stýra fiskveiðum.  Færeyingar höfðu reynt kvótakerfi í 2 ár með afar slæmum afleiðingum s.s. brottkasti og minnkandi afla.  Hér höfum við reynt kvótakerfi með hræðilegum afleiðingum í tvo áratugi.

Utanríkisráðherra Færeyinga og formaður Fólkaflokksins, Jörgen Niclasen sem gegndi áður starfi sjávarútvegsráðherra, er sá stjórnmálamaður sem staðið hefur vörð um færeyska fiskveiðistjórnunarkerfið í sjávarútvegi.  Nú er um að gera fyrir íslensk stjórnvöld að taka upp viðræður við utanríkisráðherra Færeyinga og kynna sér fordómalaust gríðarlega mikinn árangur Færeyinga við að stjórna fiskveiðum. Við það eitt að taka upp færeyska kerfið þá streymdu í auknum mæli margir tugir milljarða króna í beinhörðum gjaldeyri til að þjóðarbúsins.

 


mbl.is Siðferðileg skylda að hjálpa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yfirmaður loddaradeildarinnar leysir úr vanda lántakenda

Greiningadeildir bankanna sálugu voru eins konar áróðurs- og sölubatterí fyrir bankanna sem höfðu það helsta markmið að skrúfa upp í hæstu hæðir verð á "öruggum" hlutabréfum í bönkunum og tengdum fyrirtækjum.

Mér finnst það óneitanlega í takt við annað við úrlausn bankahrunsins að Samfylkingin skuli skipa fyrrum yfirmann greiningardeildar Landsbankans, Eddu Rós Karlsdóttur í nefnd sem á að leysa úr vanda viðskiptavina bankans, sem sumir hafa eflaust látið gabbast af fræðilegum loddaraskap greiningadeildanna.


Morgunblaðið bjargar í horn

Morgunblaðið hefur misboðið mörgum lesendum sínum á umliðnum vikum í umfjöllun um bankahrunið en þó tók steininn úr í gær.

Áróður blaðsins hefur gengið út á það að hrunið væri ekki neinum einum um að kenna nema þá helst eyðslu almennings og var Þessi tónn hávær í efnistökum blaðsins sem kom út í gær. Svo mjög að einhverjir tóku blaðið á orðinu og ákváðu að spara þær baunir sem fara í kaup á Morgunblaðinu.

Við blasti að trúverðugleiki blaðsins biði þvílíkan hnekki að fátt eitt gæti komið blaðinu til bjargar annað en skylduáskrift.  Ritstjóri Morgunblaðsins virðist hafa séð það ráð vænst í leiðara blaðsins í dag að skamma fyrrum eigendur Landsbankans fyrir bankaklúðrið.

 


Morgunblaðið tekur afstöðu með útrásarvíkingum gegn Geir Haarde

Í Morgunblaðinu kemur skýrt fram að blaðið tekur afstöðu með eigendum sínum Björgólfunum og gegn Geir Haarde forsætisráðherra.

Stjörnublaðamaðurinn Agnes Bragadóttir tekur tilfinningaþrungið viðtal við Björgólf Guðmundsson útrásarvíking en í viðtalinu kennir hann ríkisstjórn Íslands að stórum hluta um ófarir bankanna.

Blaðið er með umfjöllun um neyðarlögin þar sem slegið er úr og í varðandi réttmæti þeirra.

Síðast en ekki síst kemur fram sú furðulega afstaða í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins að bankahrunið sé ekki bein afleiðing fjárglæfra og lausataka stjórnvalda við stjórn efnahagsmála og fjármálaeftirlits, eins og ætti að vera flestum ljóst. Nei ritstjóri Morgunblaðsins étur upp eftir eiganda blaðsins þá skoðun að bankahrunið sé stjórnvöldum að kenna og þá sérstaklega  þrákelkni Geirs Haarde við að vilja standa fyrir utan ESB sem hafi síðan beinlínis orðið til þess að sett voru neyðarlög, þar sem ótal lagaákvæðum var sópað til hliðar.

 

 


mbl.is Farið inn í brennandi hús
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í hverju er Samfylkingin lent? Icesave í Hollandi var stofnað í vor

Samfylkingin var stofnuð með það að markmiði að verða mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn.

Nú eru breyttir tímar og Sjálfstæðisflokkur og Samfylkingin eiga í nánu samstarfi með hræðilegum afleiðingum fyrir Íslendinga. Samfylkingin veitti í stjórnarandstöðu stjórnarháttum Sjálfstæðisflokksins á köflum eitthvert aðhald. Samfylkingin gat beitt sér hart í málum sem snertu fjölmiðla en minna fór fyrir andstöðu við einkavinavæðingu Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks, hvað þá mannréttindabrotum stjórnvalda á sjómönnum. Mögulega hefur leiðtogi Samfylkingarinnar talið það betur fallið til vinsælda að hafa fjölmiðla með sér og svo er hitt, það að taka á spillingunni í kringum ráðstöfun bankanna gat verið of viðkvæmt fyrir mögulega samstarfsaðila á komandi kjörtímabilum.

Nú er flokkurinn kominn í þá ömurlegu stöðu að verja vítaverða stjórnahætti liðinna ára og bæta jafnvel gráu ofan á svart í þeim efnum. Það hefur Samfylkingin gert með því að taka þátt í aðgerðarleysi, flytja þjóðinni hálfsannleik og jafnvel skrök um stöðu mála.

Hver hefur ekki heyrt hvern ráðherra Samfylkingarinnar á fætur öðrum enduróma bergmálið úr Valhöll - það ber enginn einn ábyrgð á stöðu mála - stöndum saman - kreppan kom að utan??

Bæði forsætisráðherra og viðskiptaráðherra hafa haldið því fram á síðustu dögum að hægt hefði verið að stofna útibú Icesave á grundvelli einfaldrar tilkynningar og þá hafa þeir vísað til EES-samningsins. Þetta er ekki rétt þar sem Fjármálaeftirlitið getur bannað stofnun útibús á EES enda gerir tilskipun EES ráð fyrir því að hægt sé að stofna til útibús á EES-svæðinu. Það er tekið sérstaklega fram í 36. gr. laga nr. 161/2002:

Fjármálaeftirlitið getur bannað stofnun útibús skv. 1. mgr. ef það hefur réttmæta ástæðu til að ætla að stjórnun og fjárhagsstaða hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis sé ekki nægilega traust.

Það er ömurlegt fyrir skattgreiðendur og sömuleiðis Íslendinga framtíðarinnar að vita til þess að útibú Landsbankans var stofnað í vor þegar nokkuð ljóst var orðið að á brattann væri að sækja fyrir íslensku bankana. Frétt um stofnun hollenska útibúsins birtist á bls. 7 í afkomutilkynningu Landsbankans frá 29. júlí 2008.


Aumkunarverður viðskiptaráðherra

Það var dapurlegt að horfa upp á Björgvin Sigurðsson viðskiptaráðherra í Kastljósinu í kvöld. Björgvin er góður drengur sem vill láta gott af sér leiða og sýna af sér ákveðna snerpu eins og þegar hann setti bráðabirgðalög um rafföng á Keflavíkurflugvelli. Hvers vegna segir hann þjóðinni ekki satt? Hann lætur líta út sem eitthvað hafi breyst frá 15. september eins og að lausafjárkreppa hafi skollið skyndilega á sem hafi orðið til þess að allir bankarnir fóru á hausinn á tveimur vikum.

Hver sá sem veltir þessum hlutum eitthvað fyrir sér veit betur. Það þurfti engan speking til að átta sig á að helstu máttarstólpar Glitnis töpuðu hátt í 70 milljörðum á FL Group og þar að auki gekk rekstur fjölda fyrirtækja sem tengdust bönkunum, s.s. Eimskipafélagið, afar illa og voru skuldsett langt út fyrir skynsamleg mörk. Hið sama má segja um veð sem voru tekin í sjávarútvegsfyrirtækjum, staðan í íslensku viðskiptalífi var orðin gríðarlega þröng. Björgvin á náttúrlega að segja eins og er, hann hafi verið að klóra í bakkann í þessum viðtölum og skrifum á heimsíðunni þar sem hann taldi að íslensku bankarnir stæðu einstaklega vel og að einhverjir útlendingr væru í rógsherferð.

Það má segja að með þessum digurbarkalegu yfirlýsingum hafi verið reynt að berja í brestina en skynsamlegra hefði verið fyrir stjórnvöld hefðu strax hugað að útgönguleið og reynt að tryggja hag íslensks almennings.

Núna þarf þjóðin að gera upp við sig hvort hún treysti fólkinu sem svaf á verðinum til að hreinsa upp eftir sjálft sig. Það blasa við möguleikar til að gera betur, spara í utanríkisþjónustunni og ná í meiri gjaldeyri úr hafinu.


Næsta síða »

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband