Leita í fréttum mbl.is

Á hvaða ferðalagi er umhverfisráðherra?

Í dag eru skilaboðin frá umhverfisráðherra að Heilbrigðiseftirlitið sé ekki nógu strangt og skilvirkt.  Það er niðurstaða Guðlaugs Þórs nú í mars, í kjölfar aðgerða eftirlitsins á matvælalagernum í Sóltúni 20 sl. haust. Á lagernum var að finna m.a. meindýr og annan viðbjóð. Ráherra er hér að enduróma málflutning forsvarsmanna Krónunnar um ábyrgð eftirlitsins á  starfrækslu veitingastaðanna Wok On.  Það er auðvitað verulega ósanngjarnt þar sem Wok On neitaði algerlega að hafa nokkuð með lagerinn að gera.

Það vekur upp spurningar að ráðherra skuli hér beina spjótum sínum sérstaklega að Heilbrigðiseftirlitinu sem hóf málið en ekki t.d. gegn lögreglu, Vinnueftirliti eða Útlendingastofnun sem eiga eflaust einnig líkt og Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur þakkir skyldar fyrir aðkomu sína að málinu?

Það að umhverfisráðherra vilji nú herða og gera heilbrigðiseftirlitið strangara er í algerri mótsögn við skilaboð skýrslunnar sem vitnað er til í fréttinni og sömuleiðis málflutnings ráðherra sjálfs t.d. á opnum fundi um opinbert eftirlit hjá Samtökum Iðnaðarins fyrr á árinu.

Skilaboð skýrslu starfshóps ráðherra voru m.a. einkavæðing eftirlitsins og draga úr eftirlitsferðum en í þess stað ætti að kalla eftir gögnum frá eftirlitsþegum m.a.væntanlega þeim ágæta veitingamanni Davíð Viðarssyni.

Við kynningu á skýrslu starfshóps ráðherra og í greinum sem flokkssystkini hans hafa skrifað á liðnum mánuðum hefur komið fram mikill misskilningur á eðli og starfsháttum heilbrigðisfulltrúa m.a. að þar fari um hópur manna með vaskablæti sem hefur það eitt að markmiði að gera veitingamönnum afar erfitt fyrir.  Það er alls ekki svo en 99% af samskiptunum við veitingamenn eru afar ánægjuleg.

Sá sem fór fyrir hópnum nefndi sérstaklega það eftirlit sem ég veiti forstöðu á Norðurlandi vestra að það væri ekki burðugt þar sem þar væru of fáir opinberir starfsmenn á launaskrá. Ekki ætla ég að gerast dómari í eigin sök en þessi orð sannfærðu mig og fleiri endanlega um að Sjálfstæðisflokkurinn væri báknið sem sæi enga aðra lausn en stórar miðstýrðar stofnanir sem legðu línurnar um t.d. um veitingasölu kvenfélaga eða þrifnaði á lóðum.

Við þetta má bæta að þingmaður Sjálfstæðisflokksins sá sig knúinn í kjölfar Wok On málsins að leggja eftirfarandi fyrirspurn til umhverfisráðherra: Telur ráðherra að regluverk varðandi heilbrigðiseftirlit sé of þungt í vöfum fyrir atvinnurekendur?

Vonandi fer ráðherra að draga þann lærdóm af Wok On- málinu að það sé betra bæði pólitískt og út frá því ná árangri með önnur verkefni ráðuneytisins að tala nú við heilbrigðisfulltrúa sveitarfélaganna í stað þess að tala stöðugt um og jafnvel niður til þeirra sem vinna að matvæla- og hollustuháttareftirliti.

Það eru brýn úrlausnarefni sem eru beinlínis komin í óefni m.a. hefur breytt framfylgd reglna um urðunarstaði lokað fyrir farveg fyrir mengaðan jarðveg.  Staðan hefur leitt til þess m.a. mengunarvarnarbúnaður er að verða óvirkur vítt og breitt um landið. 

Sama á við um skráningarreglugerð umhverfisráðuneytisins nr. 830/2022, en síðast í dag ræddi ég við fiskverkanda sem hristi hausinn yfir þeirri þraut sem hann væri leiddur í, í nafni einföldunar.

 

 

 

 


mbl.is Grípa þarf inn í „ásetningsbrot“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. mars 2024

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband