Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Ferjan og fiskurinn í Grímsey - verður eitthvað að flytja?

Það er mikill hráskinnaleikur sem fram fer af hálfu stjórnarliða í umræðu um nýja ferju til Grímseyjar og nú virðist sem það eigi að kenna sveitarstjórn Grímseyjarhrepps um að kostnaður við endursmíði ferjunnar fari upp úr öllu valdi. 

Enn og aftur tekst Sjálfstæðisflokknum að klúðra endurbótum á skipakosti þjóðarinnar, s.s. varðskipum og hafrannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni.

Það hefði mátt ætla að stjórnvöld hefðu lært eitthvað af fyrri axarsköftum, s.s. þegar Björn Bjarnason sendi varðskipin til viðgerða til Póllands. Þegar búið var að taka saman kostnaðinn við ferðalög og ýmsan aukakostnað reyndist hann hærri en sem nam tilboði frá Slippnum hér á Akureyri.

Nú stefnir sem sagt í að endurbætur á gamalli ferju verði dýrari en að smíða nýja Grímseyjarferju sem hefði verið sniðin að þjónustu við atvinnuveg og íbúa Grímseyjar. 

Það sem skiptir þó öllu máli fyrir Grímseyinga er að það verði veigamiklar breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Forsenda fyrir áframhaldandi blómlegri byggð í Grímsey er auðvitað að það verði tryggt að það geti orðið nýliðun í sjávarútvegi og að byggðunum verði tryggður ákveðinn réttur til sjósóknar.

Á síðasta landsfundi Sjálfstæðisflokksins var samþykkt tillaga sem gekk út á að afnema byggðakvóta. Það skýtur auðvitað skökku við að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins komi í tugatali til Grímseyjar til að boða óbreytt kvótakerfi sem grefur örugglega undan sjávarbyggðunum og þar með talið Grímsey.

Ef kvótakerfinu verður ekki breytt er undir hælinn lagt hvort það verði einhverjir flutningar til og frá Grímsey.

Frjálslyndi flokkurinn boðar skynsamlegar breytingar á stjórn fiskveiða sem mun koma sjávarbyggðunum vel, s.s. að taka aukategundir út úr kvóta, heimila frjálsar handfæraveiðar og auka þorskafla og nota það svigrúm til þess að tryggja nýliðum aðgang að greininni. 

Það felast gríðarleg tækifæri í því að breyta núverandi kvótakerfi, ekki einungis fyrir íbúa sjárvarbyggðanna heldur landsmenn alla.


Upplýsingar sem hvergi hafa fengið að koma fram og glænýtt vef TV

Frjálslyndir hafa verið öflugir við að nýta sér netið til þess að koma góðum málstað áleiðis. Nú erum við að reyna fyrir okkur með vefvarp eða vef TV.  Segið endilega ykkar álit á dagskránni

Fyrir skömmu lauk góðum fundi hér á Siglufirði þar sem Jón Kristjánsson fiskifræðingur flutti afar fróðlegt erindi um stjórn fiskveiða í Norður Atlantshafi og ég greindi frá stefnu Frjálslynda flokksins sjávarútvegsmálum. Núverandi kvótakerfi er: óréttlátt gagnslaust og hvetur til brottkasts.  Þrátt fyrir þessar staðreyndir leggur Frjálslyndi flokkurinn einn flokka fram verulegar breytingar á vondu kvótakerfi.  Framsókn og Sjálfstæðisflokkur reyna að ljúga að þjóðinni að kerfið sé gott og ótrúlegt en satt VG og S hafa ekki kjark til að boða nokkra breytingu á alvondu kerfi.

Það var athyglisvert að hlýða á viðbrögð reyndra sjómanna við fyrirlestri Jóns.  Einn togarskipstjóri sem hafði verið 45 ár til sjós sagði eitthvað á þessa leið.  Hvers vegna hafa þessar upplýsingar hvergi komið fram en þær koma mjög heim og saman við mína reynslu. Einnig veltu menn því fyrir sér hvers vegna íslenskir fjölmiðlar sýndu þessum málum ekki meiri áhuga en raun ber vitni?

 

 


Fundur á Siglufirði í dag kl. 16 - Stefnt á Grímsey á morgun og opnun kosningaskrifstofu á Húsavík

Það er í ýmsu að snúast um helgina hjá Frjálslynda flokknum um helgina.  Í dag verður haldinn fundur á Bíóinu á Siglufirði þar sem frummælendur verða Jón Kristjánsson og Sigurjón Þórðarson.  Fjallað verður um árangur Færeyinga við að stýra fiskveiðum og orskök árangursleysi víða um heim við að stýra fiskveiðum með kvótakerfi. 

Jón Kristjánsson er einkar fær vísindamaður sem opnar augu fólks fyrir annarri sýn á stjórn veiða en hefur verið reynd hér við land og sem einkennist af árangursleysi.

Við höfum haldið þessi erindi á nokkrum stöðum á Norður og Austurlandi á undaförnum mánuðum og hefur fyrirlestrunum verið einkar vel tekið og er vísast að benda á ummæli Odds Örvars sem má finna hér á heimasíðunni.

Það er stefnt að halda fund í Grímsey á morgun ef það verður flugveður.  Það er sá margreyndi flugkappi Dagfinnur Stefánsson sem ætlar að sæta lægi og reyna að flúga frambjóðendum út í Grímsey.

Annað kvöld er ætlunin að opna kosningaskrifstofu Frjálslynda flokksins í Húsavík á Garðarsbrautinni við hlið Verkalýðsfélags Húsavíkur.    


Ríkisborgararéttur með hraði - skoðun staðfestir fyrri fullyrðingar

Eftir að hafa gert mér ferð suður til Reykjavíkur til að skoða gögn sem varða veitingu ríkisborgararéttinda til tilvonandi tengdadóttur umhverfisráðherra setur að mér ónot.  Ég á þá alls ekki við sjálfa málavexti og þann afbrigðilega leifturhraða sem málið fór á í gegnum stjórnkerfið heldur ósvífna nauðvörn stjórnmálamannanna sem vilja ekki gangast við því sem allur almenningur sér, nefnilega að um pólitíska fyrirgreiðslu hafi verið að ræða.

Ég er bundinn trúnaði hvað varðar persónulega þætti málsins en málsmeðferð stjórnsýslunnar er harla óvenjuleg. Einum sólarhring eftir að dómsmálaráðuneytinu barst umrædd umsókn var hún send út þaðan til nokkurra opinberra stofnana sem bar að fjalla um hana með málefnalegum hætti. Umsagnirnar voru síðan yfirfarnar í dómsmálaráðuneytinu og sendar Alþingi. Þetta ferli var allt á leifturhraða og mjög ólíkt því sem ég hef kynnst hingað til enda fór allt þetta ferli fram á einum sólarhring - og eitt er víst að ekki var notuð venjuleg póstþjónusta heldur hafa bréfin verið boðsend á milli ráðuneytis, stofnana og Alþingis.

Dómsmálaráðuneytið gaf út sérkennilega yfirlýsingu um málið og tel ég best að lesendur heimasíðunnar kynni sér hana sjálfir en þar vísar Björn Bjarnason til þess að um hefðbundnar starfsvenjur sé að ræða.

Í kvöld birtist svo enn einn þáttur þessa máls þegar fyrrum aðstoðarmaður forsætisráðherra Steingrímur Ólafsson - en það er ekki ár síðan hann lét af starfi aðstoðarmanns Halldórs Ásgrímssonar - tók viðtal til þess að rétta hlut flokkssystur sinnar Jónínu Bjartmarz.


Ólýðræðisleg vinnubrögð Bjarna Ben. sem eru Alþingi ekki til sóma

Það ætti ekki að hafa farið framhjá landsmönnum að ég hef farið fram á að sjá gögn sem vísað var til allsherjarnefndar til umfjöllunar varðandi veitingu ríkisborgararéttar til tilvonandi tengdadóttur ráðherra í ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks.

Ég á sæti í allsherjarnefndinni og hlýt þess vegna að hafa fullan aðgang að öllum þeim gögnum sem koma til meðferðar í nefndinni.  Annað er ólýðræðislegt og þeir sem taka þátt í þvílíku athæfi hljóta að verða að skýra það.  Ég hef farið fram á að ritari allsherjarnefndar veiti mér skriflega skýringu á þessum fáheyrðu vinnubrögðum sem eru skýrt brot á lýðræðislegum leikreglum, og ætlaði ritarinn að gera það í samráði við formann allsherjarnefndar, Bjarna Benediktsson.

Í yfirlýsingu sinni frá í morgun segir formaðurinn að hann ætli að fara að flokka  og greina gögn allsherjarnefndar síðar í dag. Hvaða dauðans della er að fara að stað? Sérstaklega þegar haft er í huga að Guðrún Ögmundsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, heldur því fram hvað eftir annað að umbeðin gögn hafi farið í gegnum pappírstætara.

Bjarni formaður allsherjarnefndar á einfaldlega að veita aðgang að umbeðnum gögnum. Það er kjarni þessa máls.  

Svo einfalt er það. 


mbl.is Bjarni segist ekki hafa neitað Sigurjóni um gögn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjarni Ben. dregur lappirnar

Það er greinilegt að Bjarni Benediktsson, formaður allsherjarnefndar, hefur mjög vondan málstað að verja þegar hann tekur þá afstöðu að meina þeim sem sæti eiga í allsherjarnefnd Alþingis að sjá gögn sem heyra undir nefndina.

Nefndarritari allsherjarnefndar hefur ítrekað neitað að afhenda mér gögn og er sú ákvörðun tekin í samráði við formann nefndarinnar. Ég óskaði strax eftir skriflegri skýringu á þessari ólýðræðislegu ákvörðun og mátti mér skiljast að ritarinn ætlaði að hafa samráð við formann nefndarinnar um gerð þess rökstuðnings. Hann hefur ekki ennþá komið. Ef hann kemur verður hann ábyggilega tímamótaplagg í lögfræðilegri vitleysu.

Hér er um mjög alvarlegt mál að ræða og formaður allsherjarnefndar er kominn í mjög þrönga stöðu. Það sést best á því að hann neitar að mæta í fjölmiðla og ræða málið og getur ekki rökstutt skriflega þau fáheyrðu vinnubrögð að nefndarmaður fái ekki að sjá gögn sem heyra undir þá nefnd sem hann situr í.

Þetta sýnir að það er ekki seinna vænna að skipta um ríkisstjórn. Þessir flokkar hafa setið allt of lengi og eru orðnir eins og heimaríkir hundar og líta svo á að lýðræðið sé ekki til fyrir fólkið heldur bara flokkana.


VG viðkvæmir fyrir umræðu um sjávarútvegsmál

Frambjóðendur Frjálslynda flokksins hafa mátt sæta ýmsum rangfærslum og útúrsnúningum á þeirri stefnu flokksins að ætla að sporna við óheftu flæði  erlends vinnuafls.   Í þeim útúrsnúningum hafa frambjóðendur VG í Norðausturkjördæmi gengið ótrúlega langt.

 

Ætla mætti að þeir sem fara út fyrir allt velsæmi í að gera fólki upp skoðanir í tengslum við skynsamlega stefnu Frjálslynda flokksins í vinnumarkaðsmálum gætu tekið rökstuddri gagnrýni á stefnu sína eða réttara sagt stefnuleysi sitt í sjávarútvegsmálum.

 

Á fundi í Tjarnarbæ í Ólafsfirði spurði ég hvað aðrir stjórnmálaflokkar, þar með talið  VG, væru að meina með byggðastefnu ef þeir ætla ekki að breyta þessu kvótakerfinu sem eyðir byggðinni skipulega.

 

Sannleikanum verður hver sárreiðastur. Einn frambjóðandi VG brást mjög illa við þessari rökstuddu gagnrýni minni á stefnuleysi og vondar tillögur VG í sjávarútvegsmálum og missti sig í eitthvert tal um óábyrga stefnu Frjálslynda flokksins. 

 

Hvað hefur núverandi stefna í sjávarútvegsmálum sem VG ætlar að hlaupa undir bagga með fært íbúum Fjallabyggðar? Nú búa 500 færri íbúar í Fjallabyggð en gerðu samtals í Ólafsfirði og Siglufirði fyrir  áratug síðan. Íbúar nú væru á fjórða þúsund ef íbúaþróun hefði verið hér með sama hætti og annars staðar á landinu -  í stað liðlega 2.200.

 

Þetta er staðreyndir málsins og einnig að Frjálslyndi flokkurinn hefur skynsamar og raunhæfar breytingar á kvótakerfinu sem munu færa byggðunum atvinnurétt sinn á ný.

 


« Fyrri síða

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband