Leita í fréttum mbl.is

Velferðarmaðkur Samfylkingarinnar kominn fram

Nú er bandormur Jóhönnu Sigurðardóttur kominn fram, breytingar á fjölmörgum lögum til að ná fram markmiðum hennar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í ríkisfjármálum. Eitt helsta markmið Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er að greiða skuldir óreiðumanna í útlöndum og þá sérstaklega Icesave-reikninginn. Maðkurinn er afar undarlegt plagg í ljósi þess að Samfylkingin lofaði fyrir nokkrum vikum að byggja mikla velferðarbrú. Fyrir utan mikla skattlagningu verður helsta sparnaðartillagan að ná að klípa af gamla fólkinu. Nálægt 2/5 af öllum sparnaði í rekstri eiga að koma frá elli- og örorkulífeyrisþegum, 1.830 milljónir, og á næsta ári á að skera niður um tvöfalda þá upphæð.

Ekki hefur komið fram að loka eigi einu einasta sendiráði en ríkisstjórnin eða Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn - eitt og hið sama? - virðist hafa ákveðið að skera niður í samgöngumálum um á níunda milljarð króna á næsta ári. Báðir aðilar virðast vera algjörlega einhuga um að halda öllum sendiráðum opnum og halda óhikað áfram byggingu tónlistarhússins.


mbl.is Heildarmyndin ekki komin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Þau geta ekki verið að fækka sendiráðum enda sjá þau ekki fram á endurkjör og eyja þann möguleika að skipa sjáfa sig sendiherra.

Sigurður Þórðarson, 19.6.2009 kl. 06:24

2 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Siggi, Samfylkingin hefur lagt mikla áherslu á að græðgisnæðingin hafi farið með íslenskt samfélag en hégómagirndin á ekki síður þátt í hruninu.

Forystumönnum Samfylkingarinnar þótti mikið til koma að fá að vera óreiðumönnum í veislum og ferðalögum.  Össur og Ingibjörg voru drjúg á ferðalögum með liðinu og minni spámönnum "jafnaðarmanna" þótti mikið til koma að fá að vera með í hégómanum s.s. veisluhöldum Tortóla.

Þessu liði er vart treystandi til þess að fækka sendiráðum.

Sigurjón Þórðarson, 19.6.2009 kl. 08:50

3 Smámynd: Jóhann Elíasson

Nú eru menn búnir að sjá það svart á hvítu hve úrræðaleysi þeirra heilagrar Jóhönnu og Steingríms Joð er mikið og að þetta var það VERSTAsem þjóðin gat kosið yfir sig á þessum tímum.  Skyldu ekki vera farnar að renna tvær ef ekki fleiri grímur á marga, yfir því hvernig þeir kusu, þann 25 apríl í vor?

Jóhann Elíasson, 19.6.2009 kl. 09:27

4 identicon

Ég hef stundum líkt ríkisbúskapnum og þeirri stöðu við sem þjóð erum í dag þegar verið er að hnýta í núverandi ríksstjórn og tillögur þeirra til að staga í fjárlagagatið við það að fyrirtæki fer á hausinn og skúringakonunni sé kennt um hvernig farið hefur.  Ég held og ég veit að hvað eina sem rikisstjórnin gerir er ekki af hinu góða vegna þess að fátt er um eitthvað gott sem hún tók við!

Þór Hauksson (IP-tala skráð) 19.6.2009 kl. 11:25

5 Smámynd: Elfur Logadóttir

Ég vil minna þig á að gripið var til niðurskurðar í utanríkisþjónustunni strax síðastliðið haust þannig að gera má af því skóna að þá þegar hafi mikið af því sem hægt er að skera niður verið skorið niður og því ekki nauðysnlegt að koma með lagabreytingar um það efni núna.

En ég geri nú samt ráð fyrir að meira verði skorið þar niður á nýju fjárlagaári.

Elfur Logadóttir, 19.6.2009 kl. 16:27

6 Smámynd: Elfur Logadóttir

*að* því skóna :)

Elfur Logadóttir, 19.6.2009 kl. 16:28

7 identicon

Man eftir þessu Elfur...hefur þú tölur...skrýtið að ekkert af þessum niðurskurði hafi ratað á forsíður blaðanna undanfarna mánuði??..ekki nóg að ætla...heldur að gera...

itg (IP-tala skráð) 19.6.2009 kl. 17:26

8 Smámynd: Elfur Logadóttir

Hér á eftir fara nokkrar fréttir sem ég fann um efnið með "snöggu" gúggli. Ég hef ekki upplýsingar um hvað af þessu er þegar komið til framkvæmda eða hvað kemur til framkvæmda síðar á árinu.

Undir fyrirsögn um minnkun þróunaraðstoðar fjallar Viðskiptablaðið um niðurskurðartillögur utanríkisráðuneytisins. Fréttin greinir að fyrirhugaður niðurskurður hafi verið uppá 2,3 milljarða króna, sendiráðum skyldi fækkað um fjögur og sendiherrum fækkað.

Undir fyrirsögninni "Stefnt að 2,3 milljarða sparnaði" fjallar mbl..is um blaðamannafund utanríkisráðherra með svipuðum upplýsingum og fram koma í Viðskiptablaðsfréttinni.

Nokkrar fréttir af vef utanríkisráðuneytisins eru einnig tengdar í þessa setningu, eins og "undirstrikanir og litabreytingar" bera með sér. Fjalla þær um breytingu á staðsetningum sendiherra o.fl.

Elfur Logadóttir, 19.6.2009 kl. 18:12

9 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Elfur Logadóttir, þessi "sparnaður" Ingibjargar Sólrúnar fólst í því að  hætt var í gríðarlega útgjaldaaukningu í utanríkisþjónustunni.

http://arni.eyjan.is/2008/11/hvtt-er-svart-sirkus-slu-smart.html

 Hér er blogg sem ég skrifaðu um þennan sparnað "jafnaðarmanna.

Það hefur verið háttur fyrrum utanríkisráðherra að fara í vafasamar ráðningar á sendiherrum rétt áður en þeir láta af störfum, þó ekki Valgerður Sverrisdóttir og á hún skilið hrós fyrir það. Í dag bárust fréttir af því að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir skipaði mitt í sparnaðaraðgerðum sínum vinkonu sína og fyrrum aðstoðarmann og skrifstofustjóra borgarstjórans í Reykjavík, Kristínu Árnadóttur, sendiherra.

Kristín hefur starfað í rétt rúmt ár í utanríkisþjónustunni og stýrt einni vitlausustu hugmynd Íslendinga á síðustu árum, þ.e. að sækjast eftir setu í öryggisráðinu. Og ekki er hægt að segja að erfiðið hafi skilað þjóðinni miklum árangri.

Þetta er gert í miðjum „sparnaðaraðgerðum“ sem felast í því að blása burtu megninu af því furðulega í útþenslu utanríkisþjónustunnar sem boðað var í fjárlagafrumvarpinu. Þetta minnir á kallinn sem datt í hug að fara í tvær sólarlandaferðir á næsta ári, bæði til Mæjorka og Kýpur, en grípur svo til harðra sparnaðaraðgerða - fara bara í aðra ferðina og spara þannig hundruð þúsunda.

Sigurjón Þórðarson, 19.6.2009 kl. 18:32

10 Smámynd: Elfur Logadóttir

Sigurjón, ég var ekki að verja skipun Kristínar í sendiherrastöðu en þrátt fyrir þá skipun vildi utanríkisráðuneytið meina að skorið yrði niður um 2,3 milljarða. Ég var að minna á að þessi ákvörðun var tekin þarna og hefur tvímælalaust áhrif á hraða annarra ákvarðana um niðurskurð í því ráðuneyti.

Það má ekki horfa að fullu fram hjá því sem rétt er gert, þó með hafi fylgt eitthvað sem ekki var skynsamlegt. Sendiráðum var lokað og sendiherrum var fækkað, bara einum minna en hefði verið hægt að fækka með því að sleppa að skipa Kristínu.

Elfur Logadóttir, 19.6.2009 kl. 18:49

11 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Elfur farðu betur yfir málið það var ekkert skorið niður heldur hætt við útgjaldaaukningu upp á 2,3 milljarða og ég man ekki eftir að neinu sendiráði hafi verið lokað því miður.

Sigurjón Þórðarson, 19.6.2009 kl. 19:01

12 Smámynd: Elfur Logadóttir

Sendiráðinu í Suður afríku (Pretoríu) var lokað. Sendiherrum var fækkað. Skoðaðu fréttirnar sem ég tengdi á.

Mogginn sagði: "Loka á fjórum sendiskrifstofum: sendiráði í Pretoríu, í Strassborg, Róm og einni skrifstofu til viðbótar."

Búið er að loka í Pretoríu, ekki virðist vera skrifstofa í Strassborg (þal. vel mögulega búið að loka), ekki búið að loka í Róm og ég veit ekki hver sú fjórða átti að vera.

AMK tveir sendiherrar létu af störfum án þess að aðrir hefðu verið skipaðir, einn kom til starfa á skrifstofunni hér heima. Vissulega bættist Kristín við, ég hef áður sagt að það ætla ég ekki að verja. En það þýðir engu að síður amk einum færri sendiherrar í utanríkisþjónustu - það er niðurskurður (þó gera megi betur).

Þetta er ekki bara ákvörðun um að fara ekki í áður ákveðin útgjöld.

Elfur Logadóttir, 19.6.2009 kl. 19:42

13 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Elfur. það virðist vera að sendiráðinu í S - Afríku hafi verið lokað eftir að Sigríður Dúna lauk rannsóknum sínum þar, en það virðist þó vera á svig við forsetaúrskurð sjá að neðan. 

Mér sýnist sem að hinar starfsstöðvarnar lifi góðu lífi í Róm og Strassborg ef marka má heimasíðu utanríkisráðuneytisins.

http://www.mfa.is/diplomatic-missions/icelandic-missions#IceEmb

Nr. 90 28. mars 2007

FORSETAÚRSKURÐUR

um sendiráð, fastanefndir hjá alþjóðastofnunum og sendiræðisskrifstofur.

FORSETI ÍSLANDS

gjörir kunnugt:

Samkvæmt tillögu utanríkisráðherra og með vísan til 4. gr. laga nr. 39/1971 um utanríkisþjónustu Íslands eru hér með sett eftirfarandi ákvæði:

1. a. Sendiráð skulu vera í Berlín, Brussel, Colombo, Helsinki, Kampala, Kaupmannahöfn, Lilongwe, London, Managua, Mapútó, Moskvu, Nýju-Delhi, Ottawa, Ósló, París, Peking, Pretoríu, Stokkhólmi, Tókýó, Washington og Windhoek. Sendiráðin í London og París skulu jafnframt gegna hlutverki fastanefnda gagnvart nánar tilteknum alþjóðastofnunum.

  1. Fastanefndir skulu vera í Brussel, Genf, New York, Róm, Strassborg og Vín. Fastanefndirnar skulu jafnframt gegna hlutverki sendiráðs gagnvart nánar tilteknum ríkjum.
  2. Aðalræðisskrifstofur skulu vera í New York, Winnipeg og Þórshöfn.

2. Umdæmi sendiráða skulu vera sem hér segir:

  1. Berlín. Auk Þýskalands skal umdæmi sendiráðsins vera Búlgaría, Króatía og Pólland.
  • Brussel. Auk Belgíu skal umdæmi sendiráðsins vera Lúxemborg og Sviss. Forstöðumaður sendiráðsins skal vera sendiherra Íslands hjá Evrópu-sambandinu (ESB/EU).
  • Colombo. Umdæmi sendiráðsins skal vera Srí Lanka. Sendiherra Íslands gagnvart Srí Lanka skal sitja í Nýju-Delhi.
  • Helsinki. Auk Finnlands skal umdæmi sendiráðsins vera Eistland, Lettland, Litháen og Úkraína.
  • Kampala. Umdæmi sendiráðsins skal vera Úganda. Sendiherra Íslands gagnvart Úganda skal sitja í Pretoríu.
  • Kaupmannahöfn. Auk Danmerkur skal umdæmi sendiráðsins vera Ísrael, Rúmenía, Slóvenía og Tyrkland.
  • Lilongwe. Umdæmi sendiráðsins skal vera Malaví. Sendiherra Íslands gagnvart Malaví skal sitja í Pretoríu.
  • London. Auk Bretlands skal umdæmi sendiráðsins vera Holland, Írland, Jórdanía, Katar, Líbanon, Makedónía (fyrrum Sambandslýðveldi Júgóslavíu), Malta og Nígería. Sendiráðið skal gegna hlutverki fastanefndar gagnvart Alþjóðasiglingamálastofnuninni.
  • Managua. Umdæmi sendiráðsins skal vera Níkaragva. Sendiherra Íslands gagnvart Níkaragva skal sitja í Ottawa.
  • Mapútó. Umdæmi sendiráðsins skal vera Mósambík. Sendiherra Íslands gagnvart Mósambík skal sitja í Pretoríu.
  • Moskva. Auk Rússlands skal umdæmi sendiráðsins vera Armenía, Aserbaídsjan, Georgía, Hvíta-Rússland, Kasakstan, Kirgisía, Moldóva, Tadsjikistan, Túrkmenistanog Úsbekistan.

    Nr. 90 28. mars 2007

    1. Nýja-Delhi. Auk Indlands skal umdæmi sendiráðsins vera Bangladess, Indónesía, Malasía, Maldíveyjar, Máritíus, Nepal, Seychelleseyjar og Singapúr. Sendiherra Íslands í Nýju-Delhi skal einnig vera sendiherra gagnvart Srí Lanka.
  • Ottawa. Auk Kanada skal umdæmi sendiráðsins vera Belís, Bólivía, Ekvador, Hondúras, Kostaríka, Kólumbía, Panama, Perú, Úrúgvæ og Venesúela. SendiherraÍslands í Ottawa skal einnig vera sendiherra gagnvart Níkaragva.
  • Ósló. Auk Noregs skal umdæmi sendiráðsins vera Barein, Egyptaland, Grikkland,Íran, Jemen, Líbía, Óman, Pakistan, Sameinuðu arabísku furstadæmin og Súdan.
  • París. Auk Frakklands skal umdæmi sendiráðsins vera Alsír, Andorra, Marokkó, Portúgal, San Marínó, Spánn og Túnis. Sendiráðið skal gegna hlutverki fastanefndar gagnvart Efnahagssamvinnu- og þróunarstofnuninni (OECD) og Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO). Sendiherra Íslands í París skal einnig verasendiherra gagnvart Ítalíu.
  • Peking. Auk Kína skal umdæmi sendiráðsins vera Ástralía, Kambódía, Laos, Mongólía, Norður-Kórea (Alþýðulýðveldið Kórea), Nýja-Sjáland, Suður-Kórea (Lýðveldið Kórea) og Víetnam.
  • Pretoría. Auk Suður-Afríku skal umdæmi sendiráðsins vera Angóla, Benín, Botsvana, Eþíópía, Gana, Kenía, Lesótó, Malí, Sambía, Senegal, Svasíland og Tansanía. Sendiherra Íslands í Pretoríu skal einnig vera sendiherra gagnvart Malaví, Mósambík, Namibíu og Úganda.
  • Stokkhólmur. Auk Svíþjóðar skal umdæmi sendiráðsins vera Albanía, Írak, Kúveit, Kýpur, Sádi-Arabía, Serbía og Sýrland.
  • Tókýó. Auk Japans skal umdæmi sendiráðsins vera Austur-Tímor, Brúnei Darússalam, Filippseyjar, Papúa Nýja-Gínea og Taíland.
  • Washington. Auk Bandaríkjanna skal umdæmi sendiráðsins vera Argentína, Brasilía, Chile, El Salvador, Gvatemala og Mexíkó.
  • Windhoek. Umdæmi sendiráðsins skal vera Namibía. Sendiherra Íslands gagnvart Namibíu skal sitja í Pretoríu.

    3. Fyrirsvar fastanefnda skal vera sem hér segir:

    1. Brussel. Auk Atlantshafsbandalagsins (NATO) og stofnana tengdum því skal fastanefndin fara með fyrirsvar gagnvart Vestur-Evrópusambandinu (VES/WEU) og Stofnuninni um bann við efnavopnum (OPCW) í Haag í Hollandi. Jafnframt skal fastanefndin gegna hlutverki sendiráðs gagnvart Afganistan.
  • Genf. Auk Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) skal fastanefndin fara með fyrirsvar gagnvart skrifstofu Sameinuðu þjóðanna í Genf, Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO), Alþjóðafjarskiptasambandinu (ITU), Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO), Alþjóðahugverkastofnuninni (WIPO), Alþjóðaveðurfræðistofnuninni (WMO) og Alþjóðavinnumálastofnuninni (ILO). Jafnframt skal fastanefndin gegna hlutverki sendiráðs gagnvart Liechtenstein.
  • New York. Fastanefndin skal fara með fyrirsvar gagnvart Sameinuðu þjóðunum í New York. Jafnframt skal fastanefndin gegna hlutverki sendiráðs gagnvart Bahamaeyjum, Barbadoseyjum, Dóminíska lýðveldinu, Grenada, Gvæana, Jamaíka og Kúbu.
  • Róm. Fastanefndin skal fara með fyrirsvar gagnvart stofnunum Sameinuðu þjóðanna í Róm: Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO), Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) og Alþjóðasjóði um þróun landbúnaðar (IFAD). Jafnframt skal fastanefndin gegna hlutverki sendiráðs gagnvart Ítalíu, en sendiherraÍslands gagnvart Ítalíu skal sitja í París.

    __________

    Nr. 90 28. mars 2007

    1. Strassborg. Auk þess að fara með fyrirsvar gagnvart Evrópuráðinu skal fastanefndin gegna hlutverki sendiráðs gagnvart Páfagarði.
  • Vín. Fastanefndin skal fara með fyrirsvar gagnvart Öryggis- og samvinnustofnunEvrópu (ÖSE/OSCE), skrifstofu Sameinuðu þjóðanna í Vín (UNOV), Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni (IAEA) og skrifstofu undirbúningsnefndar samningsins um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn (CTBTO). Jafnframt skal fastanefndin gegna hlutverki sendiráðs gagnvart Austurríki, Bosníu og Hersegóvínu, Slóvakíu, Svartfjallalandi, Tékklandi og Ungverjalandi.

    4. Umdæmi aðalræðisskrifstofa skal vera sem hér segir:

    1. New York. Auk New York fylkis skal umdæmi aðalræðisskrifstofunnar vera fylkin Connecticut, New Jersey og Rhode Island.
  • Winnipeg. Umdæmi aðalræðisskrifstofunnar skal vera héraðið Manitoba, fylkið Saskatchewan, að undanskilinni borginni Regina, og fylkið Alberta, að undanskildum borgunum Calgary og Edmonton.
  • Þórshöfn. Umdæmi aðalræðisskrifstofunnar skal vera Færeyjar.

    5. Utanríkisráðuneytið fer með fyrirsvar gagnvart öðrum ríkjum sem Ísland hefur stjórnmálasamband við, m.a. með skipun sendiherra með búsetu í Reykjavík eftir því sem ástæða er til:

    1. Ameríka: Antígva og Barbúda, Dóminíka, Haiti, Paragvæ, Sankti Kristófer og Nevis, Sankti Lúsía, Sankti Vinsent og Grenadíneyjar, og Súrinam.
  • Afríka: Búrkína Fasó, Búrúndí, Djíbútí, Erítrea, Fílabeinsströndin, Gabon, Gambía, Gínea, Gínea-Bissá, Grænhöfðaeyjar, Lýðveldið Kongó (Brazzaville), Kómoraeyjar, Líbería, Madagaskar, Máritanía, Miðbaugs-Gínea, Níger, Rúanda, Síerra Leóne, Sómalía, Tógó og Tsjad.
  • Kyrrahafsríki: Kíribatí, Marshalleyjar, Míkrónesía, Narú, Palá, Samóa, Túvalú og Vanúatú.

    Úrskurður þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi forsetaúrskurður nr. 7 frá 11. febrúar 2003.

Gjört á Bessastöðum, 28. mars 2007.

Ólafur Ragnar Grímsson.

(L. S.)

Valgerður Sverrisdóttir.

A-deild – Útgáfud.: 25. apríl 2007

Sigurjón Þórðarson, 19.6.2009 kl. 22:33

14 Smámynd: Elfur Logadóttir

Ætli utanríkisráðuneytið hafi ekki heyrt í okkur :)

Ný frétt á vefsíðu þeirra eftir að ég fór þar inn fyrr í dag:

"Sparnaður 2009-2010"

Elfur Logadóttir, 19.6.2009 kl. 22:48

15 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Það er jákvætt og Össur fær plúsinn.

Sigurjón Þórðarson, 19.6.2009 kl. 23:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband