Leita í fréttum mbl.is

Stjórnmálaklúbburinn í algjörri afneitun

Í gærkvöldi var ég í þessu pallborði ásamt öðrum frambjóðendum allra stjórnmálaafla sem bjóða fram. Svo var að heyra á fjórflokknum, stjórnmálaklúbbnum, að talsverðir fjármunir væru í ríkiskassanum til að hækka námslán og auka framboð á hinum og þessum námsleiðum og öllu yrði forgangsraðað til að tryggja óbreytt eða betra ástand í menntakerfinu. Satt að segja var mér svolítið brugðið yfir því að þingmennirnir og formaður Framsóknarflokksins virtust ekki hafa kynnt sér að vaxtagreiðslur ríkisins í ár nema sjöföldum fjárframlögum til HÍ, bara þess eina háskóla. Allar líkur eru til þess að vextirnir einir saman verði talsvert hærri á næsta ári þegar skuldadagar Icesave renna upp.

Frjálslyndi flokkurinn hefur ítrekað bent á að það verði að fara í mikla tekjuöflun, stórauka fiskveiðar og taka upp samninga um lán, að öðrum kosti er dæmið óyfirstíganlegt. Hinir flokkarnir hafa talað um blandaða leið, niðurskurð og skattaaukningu - nema Sjálfstæðisflokkurinn sem vill ekki hækka skatta og hlýtur þá að boða enn meiri niðurskurð en aðrir. Tölum tæpitungulaust, sleppum innihaldslausum fagurgalanum.

Ef taka mætti mark á fulltrúum flokkanna á þessum fundi ætti ekki að skera af eina einustu krónu í menntakerfinu, frekar bæta í. Eðlilega finnst námsmönnum ljúft að heyra það - en hverjar verða efndirnar þegar reikningarnir hrúgast inn á næsta ári? Reyndar bætti fyrrum menntamálaráðherra því við að þetta ástand, að borga af hátt í tveggja þúsund milljarða skuldum, væri á að giska tveggja ára verkefni! Skorturinn á raunsæi er algjör. Fjórflokkurinn er í stórkostlegri afneitun eða hann lýgur vísvitandi að fólki. Eini flokkurinn utan Frjálslynda flokksins sem sagði að smjör drypi ekki af hverju strái á komandi árum var Borgarahreyfingin og mér fannst jafnvel Ástþór Magnússon hafa á köflum mun meiri jarðtengingu en stjórnmálaklúbburinn. Samfylkingin heldur að fólki efnahagstillögum sem samdar eru af fyrrum stjórnarformanni Fjármálaeftirlitsins sem var Icesave-fyrirsætan í fyrrasumar. Jóni til aðstoðar við samningu ritsins var enginn annar en Jón Þór Sturluson sem gerði lítið úr olíusamráðssvindlinu fyrir fáum árum. Og eru menn búnir að gleyma hvernig olíugarkarnir svínuðu á okkur?

Bjartsýni er góðra gjalda verð en hún verður að ganga í takt við raunsæið. Fyrst þarf að afla teknanna.


mbl.is Háskólanám verði metið til jafns við vinnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband