Leita í fréttum mbl.is

Til varnar Eskju hf.

Í fréttaskýringaþætti RÚV upplýstist hve grænir Íslendingar geta verið fyrir lymskulegum áróðri græningja. Verksmiðjustjórinn vildi nokkuð örugglega gera vel við erlenda fréttamenn og frændur sem sýndu fiskimjölsverksmiðjunni áhuga. Fréttamennirnir þökkuðu fyrir sig og klipptu saman glannaleg ummæli og kjánaaðfarir verksmiðjustjórans við veiðar. Tilgangurinn var eflaust að undirstrika hvers konar umhverfishryðjuverk færu fram á Íslandi.

Það vakti athygli mína að fræðimaðurinn Daniel Pauly var fenginn til þess að votta að framleiðsla á eldisfiski værI óábyrg og framleiðsla á fiskimjöli skaðleg fyrir ofveidda fiskistofna. Ofveiðigrýlan lifir góðu lífi hér á Íslandi, bæði á Hafró og hjá fjölmiðlamönnum þar sem stöðugt er klifað á því að helstu nytjastofnar þjóðarinnar séu ofveiddir þrátt fyrir að sú staðreynd liggi á borðinu að þorskveiði hefur nánast aldrei verið minni og ekki er það vegna þess að þorskinum sé ekki til að dreifa. Nei, ástæðan er að sjómenn hafa ekki leyfi til að veiða hann. Sömuleiðis liggur fyrir að í Barentshafinu og Færeyjum þar sem ekkert er gert með ofveiðigrýluna ganga veiðar sinn vanagang og fiskistofnar eru við hestaheilsu.

Það er sem margur átti sig ekki á að Daniel Pauly er á mála hjá umhverfissamtökum og -sjóðum, t.d. PEW, sem hafa yfir gríðarlegum fjármunum að ráða sem greiða fyrir rannsóknir sem eiga að sýna fram á skaðleg áhrif fiskveiða og reyna að sverta atvinnugreinina með falsvísindum.

Ekki er Pauly einn um að birta reglulega heimsendaspár um sjávarútveginn, fleiri frægir hafa komist í fréttirnar hér, s.s. Boris Worms sem kom fram með spádóminn um að allir fiskistofnar heims kláruðust 2048, Andrew Rosenberg sem reiknaði út stærð þorskstofnins við strendur Bandaríkjanna á 19. öld og Ransom Myers sem reiknaði út hnignun mörg hundruð fiskistofna vítt og breitt um heiminn.

Það sem vekur ugg er að íslensk stjórnvöld hafa nýtt sér starfskrafta sumra þessara manna, s.s. Andrew Rosenbergs, í að fara yfir hvers vegna friðunarstefna sem verið hefur við lýði undanfarna áratugi hafi ekki gengið eftir eins og þegar Hafró týndi mörg hundruð þúsund tonnum af þorski fyrir nokkrum árum. Það stóð ekki á svarinu sem var á þá leið að friðunarstefnan stæði fyrir sínu nema þá að helst þyrfti að friða enn meira til þess að geta veitt meira seinna en þetta seinna hefur aldrei komið eins og þeir sem fylgjast með sjávarútvegi ættu að vita.

Það er langt í frá að starfsmenn Eskju séu þeir einu sem ekki hafa varað sig á lymskulegum áróðri græningja gegn sjávarútvegi og veiðum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steingrímur Helgason

Mér fannst nú Haukur Jónsson ~Mellari~ ágætur í þættinum.  Nákvæmilega jafnlíkur sjálfum sér & hann hefur alltaf verið.

Steingrímur Helgason, 23.3.2009 kl. 00:32

2 identicon

Datt alveg það sama í hug. Hafði reyndar gaman af þessu, gaman að heyra svona karlagrobb á þessum síðustu og verstu.....hressandi og yndislegt að sjá fjöllin og umhverfið . Við eigum svo sannarlega fallegt land.

Ína (IP-tala skráð) 23.3.2009 kl. 02:52

3 identicon

Menn ættu að vara sig á svona liði sem kallar sig fréttamenn, sérstaklega ef þeir eru frá Svíþjóð og Þýskalandi, þar sem að umhverfis-hysterían er svo grasserandi að það ríður ekki við einteyming.

Haukur Mellari var náttúrulega í hlutverki sjálfs síns, svona eins og hann er, en hann oflék sjálfan sig reyndar heldur betur.

Og auðvitað var þessi gervivísindamaður og álitsgjafi; Daniel Pauly, ekkert að hafa fyrir því að minnast á hið gífurlega afrán hvala á fiski, svona rétt eins og hvalir væru bara ekki til, enda er þetta afrán hvala eitt mesta feiminismál umhverfisverndarsinna.

Magnús Þorkelsson (IP-tala skráð) 23.3.2009 kl. 10:31

4 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Daniel Pauly, var einn af þeim sem spáði fyrir um hrun fiskistofna árið 2010  þ.e. ef ekki yrði dregið úr stórlega úr veiðum, þá væri túnfisksamlokan ófáanleg og eina sem væri á boðstólnum væru marglyttusamlokur.

Sigurjón Þórðarson, 23.3.2009 kl. 10:42

5 identicon

Fannst alveg óhemjusmart að sjá manninn henda öllu í sjóinn sem hann gat. Hélt að þetta væri liðin tíð.

Þekki þennan mann ekki, en fannst hann hálf kjánalegur kallgreyið.

Hrönn (IP-tala skráð) 23.3.2009 kl. 11:33

6 identicon

Ég verð nú að fá meiri upplýsingar um þennan Daniel Pauly sem þið kallið gervivísindamann. Augljóslega er maðurinn umhverfisverndarsinni en ég veit ekki hvort þið gerið ykkur grein fyrir því að hann er höfundur og meðhöfundur á um 500 ritrýndum vísindagreinum. Er það gervivísindamennska, getur verið að allt sem hann skrifar sé rangt? Ég held ekki.

Davíð Gíslason (IP-tala skráð) 23.3.2009 kl. 15:52

7 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Davíð, þú ættir að vita það manna best að magn og gæði í þessum geira er ekki það sama en þá vísa ég til allra þeirra fjölda "vísindamanna" sem skrifa upp á að ekki sé forsvaranlegt að Íslendingar veiði hvali sem fullyrt er að séu í útrýmingarhættu.

Pauly er einskonar spámaður sem sér eyðingu fiskistofna á næsta leiti hvar sem að hann ber niður í rannsóknum sínum.  Það er mikið ályktað út frá takmörkuðum gögnum bæði um útrýmingu allra fiskistofna heimsins og ofveiði fyrri alda. Ég hef orðið vitni af því að reiknisfiskifræðingar kynni mat sitt á ofveiði á síld á 17. öld út frá mjög takmörkuðum gögnum. 

Þetta er auðvitað ekkert annað en það sem kallast hrein og tær della.

Sigurjón Þórðarson, 23.3.2009 kl. 16:39

8 Smámynd: S Kristján Ingimarsson

Þessi Daniel Pauly heldur því fram að því meira sem framleitt er af eldisfiski því meira verði veitt.  Þetta er ákaflea heimskulegt af því að það er ekki fiskeldi sem stjórnar veiðunum.  Í öllum þeim löndum sem framleiða fiskimjöl er til staðar fiskveiðistjórnunarkerfi og það eru yfirvöld sem ákveða hversu mikið er veitt að fengnu áliti vísindamanna.  Það er líka rétt að nefna að aðeins brot af því mjöli sem framleitt er er notað til fiskeldis, stærsti hlutinn fer til framleiðslu á kjarnfóðri fyrir kjúklinga, svín, nautgirpi o.þ.h. 

S Kristján Ingimarsson, 23.3.2009 kl. 18:24

9 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Er þetta rétt ?

30% af veiddum fiski heimsins fer í mjöl til að fóðra eldisdýr:

"Forage fish account for a staggering 37 percent (31.5 million tonnes) of all fish taken from the world's oceans each year, and 90 percent of that catch is processed into fishmeal and fish oil.

In 2002, 46 percent of fishmeal and fish oil was used as feed for aquaculture (fish-farming), 24 percent for pig feed, and 22 percent for poultry feed."

http://www.wildlifeextra.com/go/news/fish-meal823.html#cr

Ómar Bjarki Kristjánsson, 23.3.2009 kl. 22:29

10 identicon

Það er náttúrulega snilld að það þurfi einhverja svía til að finna þennan snilling fyrir austan og sleppa honum lausum í sjónvarpið. Kom svo öllum viðskiptum í uppnám í fyrirtækinu. Kýs þetta atriði ársins. Klárt

 Sissinn

Sigþór Guðnason (IP-tala skráð) 23.3.2009 kl. 23:15

11 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Ómar, ég þekki ekki þessar tölur sem vitnað er til en við vitum að á Íslandi getur verið mjög misjafnt hversu hátt hlutfall fer í bræðslu. 

Hitt er svo annað mál að ef farið er yfir orkuþörf spendýra hafsins og sjófugla þá kemur í ljós að það sem maðurinn er að taka úr hafinu er lítill hluti, kannski einn tíundi eða einn tuttugasti af því sem þessi dýr gæða sér á.  Í fréttum hefur nýlega verið til umræðu vandræðalegar fréttir af útreikningum sérfræðinga Hafró sem gáfu til kynna að hrefnan ein étur meira af þorski en sjómenn veiða af sömu tegund hér við land.

Það má reikna það út að ef talningar lunda séu nær lagi að það séu a.m.k. um 4 milljón stykki hér við land.  Ætli orkuþörf þeirra sé ekki í kringum 1.000 tonn á dag sem er rúmlega tvöfalt það magn sem við veiðum af þorskinum.  Í öllu þessu dæmi verður að líta til þess að þó svo að hrefnan selir og fuglarnir éti mikið meira en við erum að taka þá eru það fiskarnir sjálfir sem eru stærsti lífmassinn og hljóta að vera aðalleikararnir en ekki lundinn eða hvað þá trillukarlinn.

Það er rétt að hafa það í huga að ef að allt það magn væri látið vera í hafinu sem við annars veiddum til bræðslu og það færi ofan í dýr sem eru ofar í fæðukeðju hafsins þá myndi það einungis verða til þess að lífmassi dýranna ofar í stiganum ykist um 3,7 %.  Þumalputtareglan er sú að 90% af orkunni tapast á leið upp þrep í fæðukeðjunni og þess vegna eru m.a. talsvert færri fálkar en rjúpur.

Annars á ég erfitt með að skilja hvert vandamálið er þar sem að það magn sem maðurinn tekur af næringarefnum úr hafinu með fiskveiðum  er slíkt örlítið brot að það er ekki mælanlegt og getur ekki skaðað frumframleiðslu og lífkeðjuna í heimshöfunum.

Ég hef a.m.k. ekki áhyggjur af því að það verði einungis marglyttur eftir eins og félagi Daniel Pauly.

Sigurjón Þórðarson, 24.3.2009 kl. 01:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband