Leita í fréttum mbl.is

Mæðuleg rannsóknarblaðamennska RÚV

Það er óneitanlega skrýtið sjónarhorn sem mæðulegar fréttaskýringar birta fiskveiðiþjóðinni um sjávarútvegsmál í Speglinum á RÚV. Oft er fjallað um áhrif hækkaðs hitastigs og umhverfisbreytinga á fiskistofna jafnvel þó að brunakuldi frysti landann og sýnt er að hitastig sjávar hér við land sé við meðaltal. Nánast eina umfjöllunin um hvalveiðar er út frá þeim sjónarhóli hvaða áhrif þær muni hafa á umhverfisofstækisfólk úti í heimi.

Hér er annað sjónarmið í grein (minni) sem Morgunblaðið birti í gær:

Hvalræðisreikningarnir

Íslendingar lifa einstaka tíma breytinga og það er óhætt að fullyrða að margt sem taldist til óhagganlegra viðmiða reyndist tálsýn ein, s.s. viðskiptaundrið Ísland. Nú er nauðsynlegt að taka fyrri viðmið og kerfi til rækilegrar endurskoðunar ef von á að vera til þess að þjóðin geti spunnið verðmæti úr breyttum gildum.


Eitt af því sem fjölmörg stéttafélög, hagsmunafélög og sveitarfélög hafa kallað á er að leyfðar verði auknar hvalveiðar til að afla þjóðinni meiri gjaldeyris til að mögulegt verði að standa skil á skuldbindingum sem fjárglæframenn stofnuðu til í skjóli Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks.

Ein helsta röksemd framangreindra aðila fyrir auknum hvalveiðum er sú að hvalir éti gríðarleg býsn af helstu nytjastofna þjóðarinnar. Þessi afstaða kemur óneitanlega á óvart í því ljósi að margir af fulltrúum fyrrgreindra samtaka hafa skrifað án athugasemda upp á reiknilíkön Hafró sem gera ráð fyrir því að árlega drepist alltaf sama hlutfall, þ.e. 18%, af þorskstofninum af náttúrulegum orsökum, þ.e. öðrum orsökum en veiðum. Með öðrum orðum hefur einu gilt hvort hvalirnir á miðunum séu hundrað eða hundruð þúsunda, alltaf hefur verið reiknað með því að sama hlutfallið drepist af náttúrulegum orsökum. Upp á þetta hefur verið skrifað þó svo að útreikningar sem byggðir eru alfarið á forsendum Hafró bendi eindregið til þess að hrefnan ein éti tvöfalt meira en fastinn gerir ráð fyrir.

Þetta gefur auðvitað til kynna að eitthvað sé meira en lítið bogið við reiknilíkönin sem stuðst hefur verið við og undirstrikar að gagnrýni líffræðinga á forsendur Hafró eiga fullan rétt á sér. Grundvallaratriði í reikningunum eru einfaldlega líffræðilegt bull, enda ekki gert ráð fyrir að einn stærsti lífmassinn, þ.e. fiskarnir sjálfir, hafi áhrif á lífsafkomu sína heldur er horft á veiðar mannsins sem hinn eina ráðandi þátt varðandi vöxt og viðgang fiskistofna.

Ef einhver samfella og vottur af rökhugsun væri fyrir hendi væri strax sett vinna í að endurskoða núverandi reiknilíkön sem notuð eru til að ákvarða veiðiheimildir.

Til að hugga þá enn frekar sem hafa miklar áhyggjur af því að hvalir éti of mikið af þorski er rétt að minna á að vöxtur þorsksins er nálægt sögulegu lágmarki sem gefur til kynna að of margir fiskar séu um þá fæðu sem er fyrir hendi og að hrefnan hafi ekki tekið nægjanlega vel til matar síns eða þá að hvalir hafi afétið þorskinn af fæðu sinni. Eitt blasir þó við þegar heildarmyndin er skoðuð, óhætt er að veiða talsvert meira af þorski enda eru núverndi veiðar við sögulegt lágmark. Veiðum bæði hval og þorsk.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Georg Eiður Arnarson

Set þetta inn á Heimaklett . kv .

Georg Eiður Arnarson, 13.2.2009 kl. 11:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband