Leita í fréttum mbl.is

Ræða á Borgarafundi á Akureyri í dag

Ágætu fundarmenn
Íslenskir stjórnmálamenn hafa á liðnum árum ekki gætt hagsmuna almennings heldur hafa gert regluverk þannig úr garði að það hefur skaðað framtíðar- og fjárhagslega hagsmuni íslensku þjóðarinnar.
Samkvæmt íslenskum málskilningi er engin goðgá að kalla umrædd verk landráð.

 Hver eru tildrög þess?

Yfirráð yfir fiskimiðunum á landgrunninu eru nátengd sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar á síðustu öld.  Eitt fyrsta verk heimastjórnarinnar var að beita sér fyrir smíði sérstaks varðskips, Islands Falk, sem hóf gæslu árið  1906.Um aldir hafa menn reynt að finna skýringar á misgóðri fiskgegnd og hafa ýmsar ástæður verið nefndar, s.s. að kolareykur gufuskipa eyðilagði tálkn fiska og fyrir mörgum öldum töldu sjómenn sem stunduðu fiskveiðar að auknar hvalveiðar kæmu í veg fyrir að hvalurinn smalaði fiski nær landi og inn á nýtanleg fiskimið.  Það er af sem áður var. Um skeið töldu sjómenn á Akranesi að lagning línu út af Garðskaga kæmi í veg fyrir að fiskurinn færi inn í Faxaflóann. 


Fyrir mig sem líffræðing sem horfir ómengaður á dæmið út frá viðtekinni vistfræði eru miklar sveiflur í dýrastofnum sem eignast jafnvel milljónir afkvæma eins og þorskurinn eðlilegar og nánast sjálfsagðar, þ.e. að þegar dýrastofn er orðinn stór þá eykst samkeppni um fæðu og  leiðir til fækkunar en við það að stofninn dregst saman batna lífslíkur komandi kynslóða og stofninn vex á ný.

Þrátt fyrir þá staðreynd að hvalir, selir og fuglar himinsins taki úr hafinu margfalt meiri fæðu en maðurinn þá gengur það sem kallast reiknisfiskifræði og stjórnvöld styðjast við út á það að veiðar mannsins hafi úrslitaáhrif um vöxt og viðgang fiskistofna. Þegar kenningar reiknisfiskifræðinnar voru settar fram á áttunda áratug síðustu aldar var markmiðið að losna við sveiflurnar og fá jafnstöðuþorskafla 400 til 500 þúsund tonn eða um þrefalda veiði síðasta árs.    

Þetta hefur ekki gengið eftir.

Hvers vegna fengu vafasamar kenningar brautargengi í veiðimannasamfélagi sem stönguðust á við viðtekna vistfræði?
Ég er viss um að skýringanna er að leita í því að Íslendingar stóðu í harðri baráttu við útlendinga um yfirráð yfir fiskimiðunum og tóku innlendir stjórnmálamenn fagnandi öllum rökum um að það færi fram stórfellt arðrán útlendinga við strendur landsins sem yrði að stöðva til verndar  fiskistofnunum.  Það er grátlegt að afraksturinn af baráttunni og innlendri stjórn er að heildarþorskafli á Íslandsmiðum er nú langt undir því sem féll í hlut Íslendinga þegar Bretar stunduðu veiðar.

Reiknisfiskifræðin náði ákveðnum sessi en engu að síður urðu harðar opinberar deilur um miðjan níunda áratuginn þar sem fjölmargir líffræðingar efuðust stórlega um að nokkur von væri til þess að uppbygging þorskstofnsins gæti mögulega gengið eftir.  

Hugmyndir reiknisfiskifræðinnar voru eins og áður segir að minnka sveiflur í afla og ná meira út úr auðlindinni með því að vernda smáfisk. Var það gert í fyrstu með því að stækka möskva í netum til þess að minni fiskur slyppi í gegn og þegar það gekk ekki var reynt að beina sókn í aðrar tegundir en þorsk og síðan náðist fullkomin lausn að mati reiknisfiskifræðinganna, þ.e. að ráða heildaraflanum auk þess að vernda smáfisk með lokun veiðisvæða.  Kvótakerfið  er sett á 1984 og efuðust margir um gagnsemi þess, t.d. þingmaðurinn Halldór Blöndal sem síðar varð þó talsmaður kerfisins. Þingmenn hugguðu sig við að kerfið væri einungis sett til eins árs í senn en það hefur ekki gengið eftir eins og við vitum hér. 

Forsvarsmenn í útgerð voru lengst af mjög efins um skynsemi þess að stýra fiskveiðum með kvótum en þegar úthlutunin breyttist í framseljanleg verðmæti árið 1991 þá fóru útgerðarmenn sem fengu úthlutuðum verðmætum að verja þau verðmæti þó svo að kvótinn drægi kraftinn úr sjávarútvegi. Það kemur eflaust mörgum á óvart að Steingrímur J. Sigfússon, núverandi sjávarútvegsráðherra, greiddi atkvæði með framsali veiðiheimilda en Geir Haarde á móti.

Með framsalinu myndaðist hættuleg blanda hagfræði og reiknisfiskifræði þar sem smíðuð var ný grein gervivísinda, svokölluð fiskihagfræði sem gekk út á að veiða minna til þess að geta veitt meira seinna og reiknaður var vöxtur fiskistofna út frá mismunandi veiðiálagi áratugi fram í tímann, jafnvel þó svo að sömu líkön gætu í engu spáð fyrir um vöxt sömu stofna næsta árs. Vorið 2007 reiknaði Hagfræðistofnun Háskóla Íslands undir leiðsögn Ragnars Árnasonar – þess sem er helsti ráðgjafi Nýja Framsóknarflokksins - að  hagkvæmast væri fyrir Íslendinga að hætta öllum þorskveiðum í 3 ár og það væri gert í ljósi þess hve traustum fótum íslenska þjóðarbúið stóð. Þetta er sérfræðingurinn sem er nú að ráðleggja íslensku ríkisstjórninni. En hann var ekki einn um þessa skoðun, Ásgeir Jónsson hagfræðingur var á sama máli og ég veit ekki betur en að hann sé nú ráðgjafi Vinstri grænna.

Allri skynsemi hefur verið ýtt til hliðar í kvótakerfinu þar sem hægt hefur verið að selja veiðiheimildir landshorna á milli, t.d. frá Grímsey og til Sandgerðis, geyma veiðiheimildir á milli ára og færa jafnvel á milli tegunda. Kvótakerfið er augljóslega galið.

Viðskipti með aflaheimildir fóru í fyrstu hægt af stað enda gekk útgerð oft og tíðum brösuglega áður en menn þurftu að fara að greiða nokkuð fyrir kvóta. Upp úr 1995 fór að komast góður snúningur á viðskiptin og hófst þá aukin skuldsetning atvinnugreinarinnar fyrir alvöru. Margir töldu að á þeim árum hefði verðlag á aflaheimildum farið upp fyrir öll skynsamleg mörk og þeir sem störfuðu þá í greininni sögðu að hámarksverðlag væri um tvöfalt aflaverðmæti fisksins.  Samkvæmt því væri eðlilegt að kaupa veiðiheimild á þorski á vel innan við 400 kr./kg.  Verðið sprengdi alla skala eftir það og virtist þá ganga meira út á málamyndaverð sem hægt yrði að fá enn hærri lán út á og verðmætin sem veðsett voru gátu aldrei staðið undir lánunum.

Kerfið var komið að endimörkum en með einkavæðingu bankanna 2003 fór erlent lánsfé að streyma í stríðum straumum inn í atvinnugreinina og veiðiheimildir voru seldar á enn hærra verði. Spilaborgin hækkaði.

Bankarnir blönduðu sér með beinum hætti í viðskiptin með aflaheimildir og sá aðili sem grætt hefur hvað mest á útgerð á Íslandi er nokkuð örugglega Björgólfur Guðmundsson sem eignaðist flaggskip kvótakerfisins, Brim, um skamman tíma, bútaði fyrirtækið niður og seldi veiðiheimildir með margra milljarða hagnaði.
Við vitum hvernig þessi saga endaði, þjóðin var að lokum höfð að fífli og lendir í að borga eitthvað af þessum skuldahala sem brjálæðið skildi eftir sig þar sem veiðiheimildir voru veðsettar tugfalt út fyrir öll skynsamleg mörk. Menn ættu að hafa í huga að kerfið hefur fengið heilbrigðisvottorð hagfræðinga Háskóla Íslands.

Það sem mér þykir einkennilegast og í raun uggvænlegt við ástand mála nú í febrúar 2009 í aðdraganda kosninga er að ekki skuli vera dýpri og gagnrýnni umræða um það kerfi sem markaði upphafið að hruninu, þ.e. kerfi sem bjó til innihaldslaus veð sem voru lagalega í eigu þjóðarinnar en fénýtt af þeim sem fengu þau afhent án endurgjalds - tímabundið fyrst um sinn.

Það vantar sárlega að farið sé gaumgæfilega yfir líffræðilegar forsendur kvótakerfisins og hvaða leiðir þjóðin ætlar að marka sér út úr ógæfunni.
Markmiðið er auðvitað að komast út úr þeirri hugsun að ákveða fyrirfram hvað náttúran gefur af sér og láta heldur aflann ráðast af náttúruöflunum. Það dettur engum í hug að ákveða hvað tekið er upp úr kartöflugarði að hausti þegar verið er að setja niður útsæðið á vorin. Enn fjarstæðukenndara er það að ætla að ákveða eitt ár eða jafnvel nokkur fram í tímann hversu mörg kg af fiski öll fiskimiðin hringinn í kringum Ísland gefa af sér.

Ég hef í þessu erindi reynt að velta við nokkrum steinum en til þess að einfalda umræðuna og skýra hana þá vil ég taka það fram að umræða um fiskveiðistjórn snýst um tvö meginsvið, annars vegar stjórn veiða, þ.e. hversu mikið eigi að veiða, hvort það eigi að stýra veiðinni með sókn og með hvaða veiðarfærum eigi að taka fiskinn,  og hins vegar eignarhald auðlindarinnar.  Stjórnmálamenn sem hafa viljað forðast að gera grundvallarbreytingar á kerfinu hafa oft á tíðum reynt að grauta þessu tvennu saman til þess að flækja umræðuna og gera síðan ekki neitt í framhaldinu.

Nú þegar eignarhaldið á skuldasúpunni er komið inn í ríkisbankana þá er það lágmarkskrafa almennings að það verði tryggt að fiskveiðiauðlindin verði um ókomna tíð í eign þeirra sem byggja þetta land.  Ég vil vara við þeim stjórnmálaflokkum sem ætla að setja eitthvert gúmíákvæði í stjórnarskrána og ætla síðan að halda áfram með óbreytt kerfi þar sem eigur almennings eru leigðar og seldar og veðsettar upp á nýtt.

Það yrði þá ekki landráð af gáleysi heldur landráð af ásetningi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sigurjón,getur þú reiknað út hvað kæmi í ríkissjóð af peningum, á ári ,ef ríkið mundi bjóða út veiðileifin,og kílóið af þorskinum væri leigt á 60 kr, ýsan á 30 kr karfi 15 kr ufsi 10 kr,koli 20 kr, síld og loðna á 5 kall. Það sagði mér útgerðarmaður að verðið mætti vera helmingi hærra,útgerðin hanns,réði vel við það verð. Gaman væri að vita hvað þyrfti margra daga,(eða klukkutíma) leigu til að klára tónlistarhúsið.

Julius kristjansson (IP-tala skráð) 8.2.2009 kl. 22:22

2 Smámynd: Rannveig H

Flott ræða og seigir allt sem seiga þarf,trúi ekki öðru en að hún hafi fallið í góðan jarðveg.

Rannveig H, 8.2.2009 kl. 22:23

3 Smámynd: Steingrímur Helgason

Þarna hefur þér mælzt vel, félagi góður.

Steingrímur Helgason, 8.2.2009 kl. 23:41

4 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Flott Sigurjón.

kv.Guðrún María.

Guðrún María Óskarsdóttir., 9.2.2009 kl. 02:13

5 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Hún var og er flott ræðan hans Sigurjóns! Fundurinn var líka góður! Ég vona að Sigurjón sé mér sammála um það

Rakel Sigurgeirsdóttir, 9.2.2009 kl. 03:59

6 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Júlíus, ætli aflaverðmæti íslenskra skipa hafi ekki verið í kringum 90 milljarðar en fiskverð var hátt framan af ári og krónan hrapaði, þannig að það er potturinn sem er til skiptanna. Ætli það kosti ekki vel rúmlega 10 milljarða að klára tónlistarhúsið en til viðbótar átti að byggja hótel og höfuðstöðvar Landsbankans fyrir einhverja milljarða.

Eitt mikilvægast er að opna atvinnugreinina og gefa fleirum kost á að spreyta sig og leyfa meiri veiðar.

Stelpur, ég þakka fyrir athugasemdirnar - já Rakel mér fannst fundurinn mjög góður og það er mjög mikilvægt að halda umræðu og þrýstingi á stjórnvöld. 

Hver veit nema að forsetinn bæti fyrir útrásarsyndir sínar og veiti Borgarafundi sérstaka lýðræðisviðurkenningu.

Sigurjón Þórðarson, 9.2.2009 kl. 09:48

7 Smámynd: Georg Eiður Arnarson

Sæll Sigurjón , set þessa grein inn á HEIMAKLETT .Is . kv

Georg Eiður Arnarson, 9.2.2009 kl. 11:18

8 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þú ert óbilandi frændi minn og átt mikinn heiður skilinn fyrir þitt framlag til réttlátara samfélags. Þú átt traust bakland hjá þjóðinni og nú er komið að því að skipuleggja þann styrk til baráttu í næstu kosningum.

Áfram Ísland nýrra vona í drefðum byggðum þessa auðuga lands!

Árni Gunnarsson, 9.2.2009 kl. 14:06

9 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Heyrðu, þú meinar Þá er best að fara að vanda sig almennilega

Rakel Sigurgeirsdóttir, 9.2.2009 kl. 14:30

10 identicon

Bendi fólki jafn framt á þessa umfjöllun --> http://raksig.blog.is/blog/raksig/entry/803588/

Jóhann (IP-tala skráð) 16.2.2009 kl. 12:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband