Leita í fréttum mbl.is

Er Helgi Laxdal málefnalegur?

Ég veit að það er mikið á lesendur lagt að fara í gegnum þrjár greinar á einu bretti. Þær hafa þó allar birst í Morgunblaðinu að undanförnu þannig að þeir sem hafa lesið þær þar hafa nokkurt forskot.

Helgi Laxdal skrifaði grein um fiski- og veðurfræði sem var birt 30. desember. Svargrein mín birtist 7. janúar og í gær svargrein hans við þeirri grein minni. Og nú spyr ég: Er Helgi Laxdal málefnalegur?

Helgi Laxdal skrifar um aðferðafræði við stofnstærðarmælingar

 
Helgi Laxdal
Helgi Laxdal skrifar um aðferðafræði við stofnstærðarmælingar: "Það að auka aflaheimildir á grundvelli skoðana, jafnvel mætustu manna, mun svipta okkur þeim trúverðugleika sem umhverfismerkið bæði á og mun færa okkur."

 

ÞAÐ ætti öllum að vera ljóst að grunnur hinnar svokölluðu fiskifræði sjómannsins og þeirrar fiskifræði sem kennd er í háskólum heimsins og er viðurkennd sem forsenda ákvarðana um sjálfbæra nýtingu nytjastofna, fara ekki saman enda byggja þær á sitt hvorum forsendunum.

Fiskifræði sjómannsins byggist á reynslu þeirra sem eru á miðunum hverju sinn í, skráðri í einhverjum tilfellum en oftar geymd í minni viðkomandi. Í sumum tilfellum er um að ræða staðbundna þekkingu en í öðrum þekkingu þeirra sem stunda sjóinn, allt umhverfis landið, á öllum tímum árs.

Ekki ætla ég að draga í efa þekkingu þeirra manna á miðunum umhverfis landið sem gert hafa sjómennsku að ævistarfi sínu. Vandinn er m.a. sá að við lifum á tímum örra breytinga þar sem bæði fiskileitartæki og veiðarfæri verða stöðugt fullkomnari og stuðla því að auknum afla þrátt fyrir óbreytta fiskigengd. Af því leiðir að ef nýta á almennar aflaupplýsingar sem grunn að ákvarðanatöku um leyfðan hámarksafla úr einstökum veiðistofnum þarf fyrst að meta að hve miklu leyti aflaaukningin er tilkomin vegna endurbættra veiðarfæra og/eða fiskileitartækja.

Takist það þarf að koma upplýsingunum í búning vísindanna svo að þær nýtist í þeim upplýsingagrunni sem nútímafiskifræði byggir ákvarðanir sínar á.

Þá fyrst verður fiskifræði sjómannsins gjaldgeng þegar kemur að ákvörðunum um heildarafla úr helstu nytjastofnunum hér við land.

Það á engum að dyljast sem velt hafa þessum málum fyrir sér að sú aðferðafræði að krefjast þess af ráðherra að hann heimili aukinn afla á grundvelli þess að einhverjir sjómenn fullyrði að það sé miklu meira af þessari eða hinni fisktegundinni í landhelginni en tölur fiskifræðinga gefa til kynna, mun aldrei ganga eftir af fjölmörgum ástæðum.

Ein þeirra er að við höfum gefið það út opinberlega að við stundum sjálfbærar fiskveiðar a.m.k. úr þeim fiskistofnum sem við höfum fulla stjórn á innan landhelginnar; því til staðfestu erum við að taka upp íslenskt umhverfismerki sem framleiðendur fiskafurða úr þessum stofnum geta auðkennt sína vöru með.

Það að auka aflaheimildir á grundvelli skoðana, jafnvel mætustu manna, mun svipta okkur þeim trúverðugleika sem umhverfismerkið bæði á og mun færa okkur. Þess vegna, af þeirri ástæðu einni, getur ráðherra ekki tekið ákvörðun um aukinn afla nema að baki henni séu óumdeildar fiskifræðilegar forsendur. Þannig er þetta bara hvort sem okkur líkar það betur eða verr.

Með hliðstæðum rökum gæti veðurklúbburinn á Dalbæ í Ólafsfirði krafist þess af veðurstofustjóra að hann taki tillit til álita klúbbsins þegar hann birtir spár stofnunarinnar a.m.k. fyrir viðkomandi svæði.

Í þessu máli liggur það alveg ljóst fyrir að til þess að bæði fiskifræði sjómannsins og veðurfræði þeirra Dalbæinga, sem ég geri síður en svo lítið úr, nýtist þegar ákvarðanir eru teknar hvort heldur er á sviði veður- og/eða fiskifræði þarf hún að hafa yfirbragð sem fellur að rannsóknum viðkomandi fræðinga.

Sú leið að halda uppi stöðugu orðaskaki um vanhæfi fiskifræðinganna til þess að meta afkastagetu einstakra fiskistofna mun engu skila, frekar en verið hefur, nema þá enn einni staðfestingunni á gagnsleysi þess málatilbúnaðar.

Að mínu mati eru verkefnin framundan að átta sig á því hvort sé, og þá með hvaða hætti, hægt er að nýta þekkingu sjómannsins til frekari glöggvunar á lífríki sjávarins. Einu jákvæðu teiknin sem komið hafa fram að undaförnu er ákvörðun Síldarvinnslunnar í Neskaupstað um að búa tvö uppsjávarveiðiskip fyrirtækisins leitartækjum, sömu gerðar og Harfó notar til þess að mæla heildarmagn uppsjávarfiska þegar stofnstærð viðkomandi tegundar er ákveðin. Með þessum viðbótartækjum á að vera hægt að koma í veg fyrir mismunadi mat sjómanna og Hafró á t.d. heildarmagni loðnu á veiðislóðinni á hverjum tíma en það hefur trúlega ekki farið framhjá nokkrum manni, sem lætur sig þessi mál varða, að oft á tíðum hefur staðið yfir mikið og langvinnt orðaskak á milli einstakra skipstjóra loðnuskipanna og Hafró um hversu mikið af loðnu sé í þessari eða hinni loðnutorfunni. Vonandi fækkar þeim árekstrum með þessum viðbótartækjum.

Engu að síður verður að nást sátt um þessar rannsóknir á milli sjómanna og Hafró. Það gengur einfaldlega ekki að sú rödd fái hlustun sem heldur því fram að Hafró falsi upplýsingar til þess eins af hafa tekjur af sjómönnum og íslensku samfélagi.

Ég hef oft velt því fyrir mér af hvað hvötum Hafró ætti að gera slíkt og það verður að segjast eins og er að mér er ekki nokkur leið að finna þeim hvötum stað.

Mín skoðun er miklu frekar sú að ef um vafa er að ræða, hvað varðar túlkun upplýsinga, þá sé hann frekar nýttur til aukningar en samdráttar að svo miklu leyti sem vísindin heimila slíkt. Sú skoðun helgast fyrst og síðast af því að mér er ekki nokkur leið að átta mig á því hvaða hvatir reka fiskifræðinga til þess að kynna þjóðinni lakara ástand fiskistofna en það er í raun og veru á hverjum tíma. Hver getur stutt slíka ákvörðun vitrænum rökum?

Höfundur er vélfræðingur.

 

Hér er svar mitt frá 7. janúar 2009:

Formaður Fiskifélagsins skammar sjómenn

Sigurjón Þórðarson er ósáttur við skoðanir formanns Fiskifélags Íslands

 
Sigurjón Þórðarson
Sigurjón Þórðarson er ósáttur við skoðanir formanns Fiskifélags Íslands: "Væri ekki nær að Fiskifélagið færi málefnalega og með opnum hug í gegnum þá gagnrýni sem fiskveiðiráðgjöfin hefur sætt?"


 

ÍSLENSKT þjóðarbú sárvantar erlendan gjaldeyri til þess að endar nái saman og hægt sé að standa við nýfengnar byrðar þjóðarbúsins vegna fádæma gáleysis stjórnvalda gagnvart fjárglæfrum örfárra auðkýfinga. Það er skylda ábyrgra aðila í samfélaginu að leita logandi ljósi að auknum tekjum fyrir þjóðarbúið. Sú leið sem blasir við er að nýta betur sjávarauðlindina enda eru veigamikil rök fyrir því að hægt sé að veiða mun meira úr nytjategundum hér við land, s.s. þorski og síld. Í ár stefnir í minnsta þorskafla við Íslandsstrendur í 100 ár þrátt fyrir að hér hafi verið í notkun kerfi sem í upphafi átti að skila þjóðarbúinu stöðugum afla sem væri liðlega þrefalt meiri en þau 130 þúsund tonn sem ætlað er að sækja á land á núverandi fiskveiðiári. Öll rök hníga sömuleiðis að því að rétt sé að auka síldveiðar en fréttir berast af því að hafnir séu fullar af síld og að hún sé í einhverjum mæli sýkt af sníkjudýri. Í stað þess að veiða síldina og vinna verðmæti úr henni grípur sjávarútvegsráðherra til sérstakrar friðunar á henni.

Margir þeir sem hafa atvinnu af því að veiða fisk hafa veigamiklar efasemdir um skynsemi þeirra hafta sem lögð eru á veiðar og ganga út á að veiða minna til þess að geta veitt meira seinna. Sjómenn og fleiri hafa séð að þetta seinna hefur ekki komið, heldur bara enn meiri niðurskurður á aflaheimildum.

Reyndar hefur sú aðferð að skera niður veiðar á þorski til þess að byggja upp þorskstofn hvergi í heiminum gengið eftir, heldur hefur þvert á móti sýnt sig að þar sem veitt hefur verið vel ríflega umfram ráðleggingar reiknifiskifræðinga, s.s. í Barentshafinu og við Færeyjar, hefur það síður en svo leitt til minnkandi veiða úr viðkomandi fiskistofnum. Reiknifiskifræðingar – sem enn reyna að reikna út afla komandi ára þar sem eina breytan sem að þeirra mati skiptir einhverju máli er veiðin sjálf – endurskoða stöðugt reiknikúnstir sínar þegar dæmið gengur ekki upp, og gerðu það t.d. um síðustu aldamót þegar því var haldið haldið fram að stofninn hefði í raun verið miklu minni en fyrri mælingar gerðu ráð fyrir og nú í haust þegar mælingar sýndu að stofninn hefði vaxið óeðlilega mikið!

Helgi Laxdal, fomaður Fiskifélags Íslands, birti grein í Morgunblaðinu nú um áramótin þar sem hann gerði lítið úr sjónarmiðum sjómanna. Þeir hafa að vonum efasemdir um ráðgjöf sem ekki hefur skilað neinu. Helgi Laxdal taldi að álíka mark ætti að taka á sjónarmiðum sjómanna og tómstundagamni klúbbfélaga á elliheimili norður í landi við að spá í veðrið.

Þetta sjónarmið formanns Fiskifélags Íslands er stórfurðulegt þar sem ekkert er eðlilegra en að hafa ríkar efasemdir um aðferðir og spár reiknifiskifræðinga rétt eins veðurfræðinga ef spárnar ganga aldrei eftir.

Formaður Fiskifélags Íslands veður villu og reyk þegar hann telur í grein sinni að rökstuddar efasemdir um skynsemi þess að nota togararall Hafrannsóknastofnunar snúist um að margur telji stofnunina stunda falsanir á gögnum. Efasemdirnar snúast fyrst og fremst um aðferðafræðina og túlkun þeirra gagna sem er aflað. Margir sjómenn efast mjög um marktækni þess að meta breytingar á stofnstærð þorsks með því að toga á sömu slóðum ár eftir ár þar sem líkurnar á að umhverfisaðstæður séu eins á milli ára eru engar. Breytingar eru á hitastigi, straumum, útbreiðslu, æti og fleiri umhverfisþáttum sem hafa veruleg áhrif á hvar von er á að finna fisk. Margir líffræðingar efast sömuleiðis um réttmæti á túlkun þeirra gagna og útreikninga sem ráðgjöf Hafró byggir á, s.s. að svonefndur náttúrulegur dauði (dauði af öðrum völdum en veiðum) sé 18% fasti af stofnstærð. Reyndar sýna útreikningar Hafró sjálfir á áti hvala á þorski hér við land að hrefnan ein hámar í sig tvöfalt það magn sem heilög reiknilíkön ætla að farist af öðrum völdum en veiðum. Það rekst því hvað á annars horn í þessum útreikningum sem gefur sterklega til kynna að bæði náttúrulegur dauði og stofnstærð þorsksins sé vanmetið.

Það er ómögulegt að átta sig á því hvaða hvatir ráða því að formaður Fiskifélags Íslands skuli ráðast með svo ómálefnalegum hætti að sjómönnum og öðrum sem hafa vel rökstuddar efasemdir um vafasama ráðgjöf. Væri ekki nær að Fiskifélag Íslands færi málefnalega og með opnum hug í gegnum þá gagnrýni sem fiskveiðiráðgjöfin hefur sætt?

Höfundur er líffræðingur.

 

Loks er hér svar Helga sem birtist í gær:

Sigurjóni Þórðarsyni svarað

Helgi Laxdal skrifar í tilefni greinar í Mbl.

 
Helgi Laxdal
Helgi Laxdal skrifar í tilefni greinar í Mbl.: "Hvergi kom fram hjá mér að fiskifræðin sem fræðigrein væri komin að endimörkum í sinni þekkingarleit, veit raunar ekki um neina fræðigrein sem svo langt er komin."


 

SIGURJÓN Þórðarson, líffræðingur og fyrrverandi alþingismaður sendir mér tóninn í grein sem hann ritaði í Morgunblaðið 7. janúar sl. sem ég hef nokkrar athugasemdir við. Fyrir það fyrsta ritaði ég greinina sem Sigurjón vitnar í, ekki í nafni Fiskifélags Íslands (FÍ); því síður í nafni formanns FÍ og veit ekki til þess að það stöðuheiti sé til innan félagsins. Ég ritaði greinina í eigin nafni og tel mig hafa fullt leyfi til þess og ber því einn ábyrgð á efni hennar.

Veittist ég ekki að sjómönnum á nokkurn hátt, þvert á móti fullyrti ég að þeir byggju yfir mikilli þekkingu á lífríki hafsins umhverfis landið; en til þess að sú þekking nýttist yrði að koma henni í umbúðir sem samrýmdust þeirri fiskifræði sem notuð er, til þess að skilgreina sjálfbærar veiðar og ákvarða heildarafla úr hinum ýmsu veiðistofnum. Þ.e. hér er ekki frekar en endranær hægt að bera saman epli og appelsínur. Ég sagði líka að framtíðarverkefnið væri að tengja þessa tvo fræðaheima saman til hagsbóta fyrir land og þjóð.

Minnist ég þess ekki að hafa vikið einu orði að rannsóknaaðferðum Hafró enda hef ég litla þekkingu á þeim. Staðreyndin er einfaldlega sú að þær fiskifræðilegu rannsóknir sem hér eru stundaðar eru viðurkenndar af alþjóðasamfélaginu á þessu sviði og við nýtum grimmt álit og rannsóknir okkar fiskifræðinga þegar við stöndum í deilum við aðrar þjóðir um nýtingarrétt úr hinum ýmsu deilistofnum. Hef ég setið nokkra fundi um nýtingu deilistofna og minnst þess ekki að á þeim fundum hafi verið teflt fram áliti mætra sjómanna um nýtingarþol stofnanna. Þar hefur alltaf verið telft fram rannsóknarniðurstöðum okkar fiskifræðinga. Hvergi kom fram hjá mér að fiskifræðin sem fræðigrein væri komin að endimörkum í sinni þekkingarleit, veit raunar ekki um neina fræðigrein sem svo langt er komin. Því síður hafði ég eitthvað við það að athuga að störf fiskifræðinga væru gagnrýnd; þeirra störf eru ekki, frekar en störf annarra, hafin yfir gagnrýni. Mér aftur á móti finnst það ekki málefnaleg gagnrýni sem byggist á því að fiskifræðingar falsi tölur til þess eins að hafa verðmæti af landi og lýð.

Að loknum lestri greinar Sigurjóns Þórðarsonar, líffræðings og fyrrverandi alþingismanns, skil ég betur en áður af hverju afköst Alþingis virðast í öfugu hlutfalli við allar ræðurnar sem þar eru fluttar.

Höfundur er vélfræðingur.

Ég stend við mitt og spyr enn: Er Helgi Laxdal málefnalegur?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Víðir Benediktsson

Fyrir það fyrsta, þá eru skipstjórnarmenn ekki í neinu uppáhaldi hjá Helga Laxdal. Það má rekja til þess er honum var hafnað sem forseta Farmanna og Fiskimannasambandsins. Í kjölfarið klauf Vélstjórafélagið sig út úr sambandinu og við tóku löng málaferli sem Vélstjórafélagið með Helga í broddi fylkingar tapaði. Hann er enn reiður og ég ætti ekki annað eftir en lesa skrif hans sem hlutlaust innlegg. Það hefur ekki orðið nein grundvallarbreyting á veiðarfærum eða fiskileitartækjum í 30 ár svo þessi ummæli eru marklaus enda snýst fiskifræði sjómannsins ekki um hvað þeir geta veitt mikið heldur að átta sig á stöðunni og sjá hvað mikið er af fiski í sjónum á hverjum tíma. Þegar ég var á sjónum hefði ég lekandi getað tvöfaldað þann afla sem ég var að veiða bara ef ég hefði mátt það jafnvel þó ég hefði farið 25 ár aftur í tíma með tæki og veiðarfæri. Að vísu hefði Helgi þurft að láta kveikja á Lóran C kerfinu aftur til að gera mér það kleift en í dag nota skipstjórnarmenn GPS í stað Lóran en það kemur út á eitt. Gerir sama gagn.

Víðir Benediktsson, 14.1.2009 kl. 12:08

2 identicon

Nei, hann er skki málefnalegur.      Byrjar strax að snúa út úr í fyrstu setningu!    Hann segir: " Fyrir það fyrsta ritaði ég greinina sem Sigurjón vitnar í, ekki í nafni Fiskifélags Íslands (FÍ); því síður í nafni formanns FÍ og veit ekki til þess að það stöðuheiti sé til innan félagsins.

 Innlent | mbl.is | 18.3.2008 | 13:07

Helgi Laxdal formaður Fiskifélags Íslands

Hvað stendur í frétt mbl.is?    Jú, það er kjörinn formaður í FÍ og hann heitir Helgi Laxdal - kanske annar Helgi?!

Þá segir Helgi: "  Hef ég setið nokkra fundi um nýtingu deilistofna og minnst þess ekki að á þeim fundum hafi verið teflt fram áliti mætra sjómanna um nýtingarþol stofnanna. Þar hefur alltaf verið telft fram rannsóknarniðurstöðum okkar fiskifræðinga. "

Hefur Jón Kristjánsson ekki reynt að koma sínum skoðunum - sem í veigamiklum atriðum nálgast fiskifræði sjómanna - á framfæri við áköf mótmæli og þöggun fiskifræðinga Hafró og jafnvel opinberra starfsmanna eins og hagfræðing Seðlabankans  - hans þarna Klemenssonar - "eða hvað hann nú heitir"   Þá hefur fiskveiðistjórnarkerfið hér , sem ekki virðist fordæmi fyrir annars staðar, verið borið út af Hafró og stjórnvöldum sem verandi það albesta í heimi og upplögð útflutningsvara, t.d. til ESB!     Það er svipað og og gert var með hið frábæra fjármálakerfi okkar þar sem ráðherrar fóru í fylgd bankastjóra og annara mektarmanna til útlanda til að tala fyrir fyrirbærinu og afleiðingarnar þekkjum við!

Gæði fiskveiðistjórnarkerfisins hljóta að liggja í að það skuli enn vera þorskur á Íslandsmiðum - að hann hefði annars átt að hverfa eins og á Nýfundnalandsmiðum! 

Eins og þú bendir á Sigurjón eru breytingar á mælingum fyrri ára einfaldlega fölsun og ekkert annað.     Hana hafa fiskifræðingar stundað og ég held að Kristinn Pétursson hafi bent á mörg dæmi um það en ekki bara tvö.

Það að kvótakerfinu skuli á rúmum 20 árum hafa tekist að minnka þorskafla úr 450 þ. í 130 þ. tonn er í sjálfu sér afrek en bara ekki í samræmi við stefnuna!     Þess vegna er kerfið vitlaust og á að fara í gegnum naflaskoðun - það segir brjóstvitið manni alla vega.

Ragnar Eiríksson

Ragnar Eiríksson (IP-tala skráð) 14.1.2009 kl. 14:17

3 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Fiskifræði sjómanna er jafnmargvísleg eins og sjómennirnir eru margir.Hvergi í heiminum dytti nokkrum manni í huga að láta samtök sjómanna sjá um að stjórna hafrannsóknum né taka ákvörðun um hversu mikið skuli veiða.Færeyingar hafa gengið lengst í því með þeim árangri að þorskstofninn þar er hruninn.Sumir sjómenn eru sömu skoðunar og Helgi Laxdal.Ég nefni sem dæmi Örn Erlingsson sem var mikill aflamaður meðan hann var til sjós.Hann segist ekki hafa hundsvit á fiskifræði.

Sigurgeir Jónsson, 14.1.2009 kl. 16:55

4 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Vegna orða þinna Víðir, að Helgi Laxdal hafi klofið Farmanna og fiskimannasambandið, þá er það rangt.Það voru samtök skipstjóra og stýrimanna sem klufu sambandið með því að rjúfa þá hefð að vélstjórar og skipstjórar skiptust á um að vera forsetar sambandsins.Þar fór Guðjón Arnar fremstur.Þetta er sorgar saga sem hafði þær afleiðingar að Farmanna og fiskimannasambandið er nú vart til lengur. Veldur hver á heldur.

Sigurgeir Jónsson, 14.1.2009 kl. 17:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband