Leita í fréttum mbl.is

Áfram gríðarlega háir vextir

Síðustu dagana hafa verið uppi háværar umræður um að nú væri von til þess að Seðlabankinn gæti lækkað vexti, m.a. til að koma húsnæðismarkaðnum af stað á ný en hann hefur staðið pikkfastur síðustu mánuðina.

Seðlabankinn var í mjög þröngri stöðu þar sem háir vextir hafa haldið uppi háu gengi íslensku krónunnar, m.a. með útgáfu svokallaðra jöklabréfa í íslenskum krónum. Útgáfa þeirra nemur hundruðum milljarða króna. Ef þessir aðilar færu út af markaðnum í einni hendingu hefði það alvarlegar afleiðingar til lækkunar á íslensku krónunni. Nú er sú staða uppi að gengi krónunnar hefur hrapað þrátt fyrir háa vexti og er sú hækkun rakin til lækkunar á hlutabréfum og meiri efasemda um efnahagslífið. Það sem spurningarmerki hefur verið sett við er gríðarlegur viðskiptahalli sem stafar ekki af mikilli fjárfestingu í atvinnutækjum heldur að miklum hluta af mikilli neyslu eins og má sjá á dýrum bílaflota sem ekið er um þjóðvegi landsins.

Það hefði mátt búast við því að ef Seðlabankinn hefði farið í mikla lækkun stýrivaxta, m.a. til að koma húsnæðismarkaðnum á flot, hefði það getað haft áhrif til enn frekari lækkunar gengis íslensku krónunnar með tilheyrandi hækkun verðlags á innfluttum vörum.

Það má segja að fáir góðir leikir hafi verið í stöðunni hjá Seðlabankanum þar sem stjórnvöld hafa tekið mjög óábyrgar ákvarðanir og skorið niður þorskafla og minnkað þar með gjaldeyristekjur þjóðarinnar - og í ofanálag þanið út ríkisútgjöld um allt að 20%.   

Það merkilega við umræðuna um efnahagsmál núna snýst ekki um framangreinda hluti, heldur um gjaldmiðilinn sem slíkan, þ.e hvort við við notum krónu eða evru. Ýmsir stjórnmálamenn virðast hafa þá barnalegu trú að allt lagist með því einu að skipta úr krónu í evru. Þó fylgir sjaldnast sögunni að ójafnvægið er slíkt, bæði vegna hárrar verðbólgu og vaxta, að Íslendingar eru langt frá því að geta uppfyllt þau skilyrði sem sett eru fyrir upptöku evrunnar.

Það er gömul og ný saga að árinni kennir illur ræðari.


mbl.is Krónan styrktist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

já.. er ekki umræðan um evrópusambandið orðin tímabær svo við losnum við þetta vaxtaokur ?

Óskar Þorkelsson, 15.2.2008 kl. 00:27

2 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Óskar hvernig væri að ræða um bætta efnahagsstjórn hér innanlands. Það er ekki got að fara í viðræður um inngöngu á þeim forsendum að við ráðum ekki fram úr stjórn okkar efnahagsmála sjálf.

Sigurjón Þórðarson, 15.2.2008 kl. 00:41

3 identicon

Það sem ég skil ekki er að afhverju er fólk að taka sér neyslulán þegar vextirnir séu svona háir?

Það er engin þolinmæði eftir hlutunum, allir verða að fá allt STRAX! sama hvort það sé fjármagn til staðar fyrir hlutunum eða ekki.

Arnar (IP-tala skráð) 15.2.2008 kl. 13:54

4 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Hér er ríkjandi gífurlega svæsinn neyslu- og afþreygingarkúltúr sem að sjálfsögðu er keyrður áfram af skuldapappírum og ruslpósti. Og smám saman hefur skuldapappíraframleiðsla orðið mikilvægasta atvinnustarfsemi landsmanna. Vöxtur skulda hefur orðið mikilvægasti vaxtarbroddurinn. En auðvitað skapar öll þessi neysla og skuldir heilmikla starfsemi þar sem hver þjónar undir rassgatið á öðrum og hundunum þeirra líka (með fullri virðingu fyrir blessuðum hundunum). Slíkt neyslu- og skuldasöfnunar- og þjónustuhagkerfi er hins vegar afar viðkvæmt fyrir samdrætti. Dragi saman með vinnu og/eða lánveitingar eru menn líklegir til að byrja að spara við sig ýmsa þjónustu fremur en vörur og þá er líklegt að ýmsar þjónustugreinar hreinlega hrynji. Þetta er því fremur viðkvæmur vinnumarkaður.

Í þessu ljósi ekki síst ber að skoða hreint tryllingslegt hæp maskínunnar sem sameiginlega hefur komið þessum kúltúr á, það er framleiðendur skuldapappíranna, ruslpóstur (sem eitt sinn kallaðist fjölmiðlar), stjórnmálamenn og keyptir "álitsgjafar". Þegar þessi maskína neyðist loks til að ræða hugsanlegt bakslag í segl þessarar vonlausu og fallít stefnu má fastlega búast við  að dómínókubbarnir hafi byrjað að falla fyrir amk. 6-9 mánuðum.

Baldur Fjölnisson, 15.2.2008 kl. 18:58

5 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Hver er helsta ógnun hvers keðjubréfaskíms? Jú, að það hægi á sér og stöðvist. Þess vegna hafa menn gripið til sífellt örvæntingarfyllri terrorleiksýninga og stríðslyga til að halda því gangandi. Við fundum ekki upp hjólið hérna á klakanum, öll okkar upphefð er að utan eins og maðurinn sagði. Eyðilegging skapar veltu og þar af leiðandi "hagvöxt". Síðan er það yfirfært á stríð. Dabbi vildi að við tækjum þátt í uppbyggingunni í Írak eftir að vinir hans og hugmyndafræðingar hefðu sprengt þar allt í tætlur. Siðvillingar hirða ekkert um líf og limi saklauss fólks. Það er bara fórnarkostnaður hagvaxtar og lýðræðis og og framfara. Og enginn hirðir um að biðja þessa brjálæðinga að skilgreina þessi gildishlöðnu hugtök.

Baldur Fjölnisson, 15.2.2008 kl. 20:13

6 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Sigurjón, til að laga þetta heima fyrir þurfum við stjórnun að utan því okkur virðist vera fyrirmunað að geta gert þetta sjálf !!  Seðlabankinn með óbreytta vexti sem á að hindra óþarfa fjárfestingar en bitnar á þeim sem síst skyldi..  Ég hef akkurat enga trú á því að íslenskir stjórnmálamenn lagi þetta af sjálfsdáðum.

Óskar Þorkelsson, 15.2.2008 kl. 20:42

7 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Absalútt. Þetta er klassískur Hegel. Þú býrð til krísu og lýðurinn heimtar lausnir sem þú varst með í huga til að byrja með.

Baldur Fjölnisson, 15.2.2008 kl. 22:32

8 identicon

Ertu að halda því fram að það sé ekki vaxtaokur á Íslandi?

bush (IP-tala skráð) 15.2.2008 kl. 22:50

9 Smámynd: Árni Gunnarsson

Hafið þið nokkuð heyrt um að það standi til að hleypa endurskoðendum í reikninga ESB?

Merkilega gott kerfi sem þarfnast ekki endurskoðenda í 13 ár!

Árni Gunnarsson, 15.2.2008 kl. 23:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband