Leita í fréttum mbl.is

Hvað er að þegar ekkert er að, dr. Össur?

Í heitum pottum landsmanna fer fram nokkuð fjörug umræða um algjöran viðsnúning Samfylkingarinnar í fjölda mála sem flokkurinn hefur lagt áherslu á, s.s. hvað varðar það að vera áfram á alræmdum lista yfir stuðning við innrásina í Írak, í kvótamálum og stóriðjumálum.

Ég hef reynt að sýna þessum algjöra viðsnúningi Samfylkingarinnar skilning. Formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hefur jú sagt þjóð sinni að nú stöndum við frammi fyrir breyttum veruleika í utanríkismálum. Jafnaðarmannaflokkurinn vill ekki heldur raska þeim stöðugleika sem nú ríkir í sjávarútvegi sem íbúar sjávarbyggðanna, t.d. á Flateyri, kunna svo vel að meta - eða hitt þó heldur. Það má einnig skilja gríðarlegan áhuga Samfylkingarinnar á að reisa fleiri álver á suðvesturhorninu út frá sjónvarpsþættinum sem sýndur var á RÚV um að ekki þyrfti að hafa nokkrar áhyggjur af losun CO2 - ha? 

Ég á hins vegar miklu erfiðara með að skilja skrif líffræðingsins dr. Össurar Skarphéðinssonar um stjórn fiskveiða. Hann fer mikinn í að gagnrýna sovéskt fyrirkomulag rannsókna þar sem málsmetandi vísindamenn, s.s. Jón Kristjánsson fiskifræðingur o.fl., eru beittir þöggun í stað þess að fara yfir rök þeirra. 

Þrátt fyrir þessar þungu ásakanir virðist sem Össur fallist algerlega á rök þeirra sem starfa innan þessa sovéska skipulags og eru varðir með því að þagga skipulega niður efasemdarraddir, og hagsmunir rekast augljóslega á að mati ráðherra.

Ég verð að viðurkenna að eftir að ég las í gegnum skrif Össurar komu mér í hug þessi fleygu orð: Hvað er að ef ekkert er að?

Össur virðist algerlega taka undir að um mikla ofveiði sé að ræða og að það hefði átt að beita breytilegri aflareglu eftir því hvernig áraði í hafinu, taka sem sagt hlutfallslega minna þegar árar illa. Ég hef lesið allt sem ég hef komist yfir varðandi umrædda aflareglu og hef ekki séð hvernig það ætti að breyta henni út frá því hvernig áraði í hafinu og hvað þá hvernig ætti að meta þær breytingar. Umrædd aflaregla byggir ekki á neinni vistfræði heldur er einkar einkennilegur sambræðingur af hagfræði og reiknisfræðilegri fiskifræði þar sem viðtekin vistfræði hefur verið algerlega útilokuð.

Ég beindi nokkrum spurningum til dr. Össurar á heimasíðu hans varðandi fráleitar fullyrðingar hans um meinta ofveiði á þorskinum. Nú verður spennandi að sjá hvort Össur svarar spurningunum eða beitir sovéskri þöggun.

Hér eru spurningarnar:

Hvernig getur verið um ofveiði á þorski að ræða ef vöxtur einstaklinga er við sögulegt lágmark?

Hvernig er hægt að skýra aukinn fjölda skyndilokana vegna smáfisks nú á sama tíma og Hafró segir að það vanti nýliðun og að þeir fiskar sem eru að koma inn í veiðina séu fáliðaðir?

Hvernig er hægt að skýra að endurheimtur merkinga eru ekki í nokkru samræmi við stofnlíkön, þ.e. margfalt færri fiskmerki endurheimtast en stofnlíkan gerir ráð fyrir?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Ráðherra byggðamála hlýtur að svara.

Sigurjón Þórðarson, 23.6.2007 kl. 10:43

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Sigurjón það verður fróðlegt að heyra svörin.  Haltu áfram þínu góða starfi að vekja athygli á hversu arfavitlaust þetta kerfi er.  Það er gott að eiga þig að í þessum málum minn kæri.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 23.6.2007 kl. 11:19

3 Smámynd: Jón Aðalsteinn Jónsson

Haltu áfram Sigurjón ef svo fer fram sem horfir sýnist mér ekki verða fjögur ár þangað til að þið Magnús fáið annað tækifæri hjá þjóðinni. Verður athyglisvert að sjá fylgi Samf næst þegar að einhver þorir að gera könnun.

Jón Aðalsteinn Jónsson, 24.6.2007 kl. 14:08

4 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sigurjón minn, þú hefur algjörlega misskilið aflareglu dr Össurrar en hún hljómar þannig."Hvernig get ég setið á friðarstóli sem ráðherra sem lengst án þess að lenda í neinu veseni". Please haltu áfram með vesen Sigurjón. Við þurfum öll að vera með vesen. Það er stundum nefnt Lýðræði þegar vel viðrar.

Gunnar Skúli Ármannsson, 24.6.2007 kl. 19:48

5 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Já Össur er að reyna að sópa þessu máli undir teppið eins og fram kemur í grein Björgvins Guðmundssonar í Morgunblaðinu í dag.

Ég er sannfærður um að það gengur alls ekk þrátt fyrir mjög mikinn vilja formanns "jafnaðar"mannaflokksins sem kallar sig Samfylkingu.

Sigurjón Þórðarson, 24.6.2007 kl. 22:05

6 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Ég heyrði í útvarpinu að Össur er kominn með lausnina fyrir fólkið í sjávarþorpunum:  Fjarvinnsla á tölvum, menntasetur og aukið fjármagn í vegagerð.   Þjónkun Samfylkingarinnar við kvótagreifana er slík að ég bíð bara eftir því að  Samfylkingin leggi til sjávarþorpin verði gerð að byggðasafni fyrir horfna atvinnuvegi.  Einskonar Árbæjarsafn. 

Sigurður Þórðarson, 24.6.2007 kl. 23:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband