Leita í fréttum mbl.is

Ræða á Samráðsfundi Frjálslynda flokksins 3. des 2011

Kæru félagar og gestir ég býð ykkur hjartanlega velkomin á Samráðsfund Frjálslynda flokksins.

Þegar litið er yfir farinn veg þá geta liðsmenn Frjálslynda flokksins borið höfuðið hátt.  Óumdeilt er að ef stefnumál Frjálslynda flokksins hefðu náð fram að ganga þá væru Íslendingar í allt annarri og mun betri stöðu. Frá stofnun beitti flokkurinn sér, einn flokka, fyrir  jafnræði og frelsi til fiskveiða, þar sem girt væri fyrir veðsetningu á sameign þjóðarinnar.Frjálslyndi flokkurinn beitti sér gegn einkavinavæðingunni og fyrir afnámi verðtryggingarinnar og opnaði bókhald sitt fyrstur íslenskra stjórnmálaflokka. 

Þrátt fyrir góða og vandaða stefnu hefur verið  á brattann að sækja í baráttunni, þar sem í höggi hefur verið  fjórflokkurinn.  Fjórflokkurinn á sér langa sögu og er í raun eldri en Íslenska lýðveldið og því margra  áratugagamalt  fyrirbæri, sem er að mörgu leyti orðinn líkari einni af stofnunum samfélagsins en frjálsum félagasamtökum.  Lengi vel byggði fjórflokkurinn veldi sitt á útdeilingu á bitlinga og starfa. Nú eru kraftar hagsmunasamtaka og fjármagnsins orðin æ mikilvægari í stjórnmálabaráttunni. 

Flokkarnir á Alþingi hafa skipt sín á milli dágóðri summu af opinberu fé og sömuleiðis hafa fyrirtæki greitt himinháar fjárhæðir í sjóði fjórflokksins.  Augljós fylgni hefur verið á milli upphæðar fjárframlaga útgerða og fjármálafyrirtækja til  stjórnmálaflokka og frambjóðenda eftir því hversu stjórnmálasamtökin eru líkleg til þess að afnema ójafnræðið og tryggja réttindi almennings.   Vart þarf að taka það fram Frjálslyndi flokkurinn hefur ekki þegið krónu í styrk frá LÍÚ og lítið frá fjármálafyrirtækjum, á meðan mokað hefur verið tugum milljóna í fjórflokkinn.

Barátta auðmanna og sérhagsmunasamtaka yfir fjölmiðlum litar og spillir allri vitrænni stjórnmálaumræðu á Íslandi og það enn nokkrum árum eftir hrun.  Það er engin til tilviljun að höfuðpaurar hrunsins sækja mjög í að reka fjölmiðla.  Ekki er það gróðavonin heldur fyrst og fremst að tryggja sína hagsmuni og síns arms innan fjórflokksins.

LÍÚ rekur Morgunblaðið og blaðið er málgagn þeirra sérhagsmuna og stjórnmálaafla sem leggjast á sveif með þeim.

Samfylkingin endurúthlutaði einum af höfuðpaurum hrunsins aftur, 365 fjölmiðlarveldið eftir að búið var að aflúsa það af skuldum.  Það því ekki að undra að 365 þakki greiðann og sé málgagn Samfylkingarinnar um leið og það reynir að uppfylla það erfiða hlutskipti að rétta hlut eigenda sinna.

Ef mark má taka af miklum ræðum sem formenn fjórflokksins hafa flutt á síðustu vikum á landsfundum og miðstjórnarfundum þá má ætla að enginn flokkanna hafi gert mistök eða verið á rangri braut á umliðnum áratug.

Frjálslyndi flokkurinn þarf ekki á því að halda að búa til falskar minningar um stefnumál sín og stjórnmálabaráttu – ólíkt fjórflokknum.  Ekki dettur mér í hug að bera það á borð að  við forystumenn Frjálslynda flokksins höfum ekki gert mistök að minnsta kosti á það við þann sem hér talar þó svo að stefnan hafi verið rétt.

Ég tel nú í kjölfar hrunsins mjög mikilvægt að þeir sem ætli að leiða þjóðina út úr kreppunni og eru í öndvegi þeirra stjórnmálaafla sem bera ábyrgð strandinu viðurkenni það sem aflaga fór, a.m.k. fyrir sjálfum sér og breyti stefnunni.

Haft var eftir Þorgeir ljósvetningagoða: ,,Ef við slítum í sundur löginn þá slítum við í sundur friðinn”.  Þorgeir var eflaust að tala um það sem kallast nú á fínu máli samfélagssáttmálann þ.e. viljann til þess að fara að reglum ríkisvaldsins. Vilji almennings er forsenda þess að hægt sé að halda uppi allsherjarreglu.

Stjórnmálabarátta komandi mánaða mun skipta miklu máli um framtíð landsins  um hvort að hér verði réttarríki eða bananalýðveldi fjármagnseigenda og stórfyrirtækja.  Ef ekki verður kúvending á stefnu stjórnvalda þá stefnum við hraðbyri í átt að enn meiri spillingu og upplausn. 

Hvernig má það vera að íslensk lögregla neiti að taka við kærum þegar fyrirtæki sem ekki hafa gilt starfsleyfi taka að sér að nema á brott eigur fólks s.s. bifreiðar vegna lána sem hafa verið dæmd ólögmæt? 

Hvernig má það vera að innanríkisráðherra Ögmundur Jónasson sem fer með mannréttindamál, haldi áfram að níðast á mannréttindum sjómanna þrátt fyrir að vera búinn að flytja sérstakt þingmál þar sem að hann boðaði að fara að áliti Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna þar sem kvað á um að stjórnvöld yrðu að breyta stefnu sinni og greiða þeim Erlingi Sveini Haraldssyni og Erni Snævari Sveinssyni bætur.  Ögmundur hefur ekkert gert í þeim efnum og einu skýringarnar sem hann hefur gefið er að hann sé að bíða eftir einhverju svari frá ríkislögmanni um það hvort að honum sé heimilt að greiða þeim bætur.

 

Það er rétt að staldra við þá staðreynd að mannréttindaráðherrann íslenski telji það eðlilegt að spyrja að því hvort að honum sé heimilt að fara að stjórnarskránni sem hann sór eið að. 

Hvernig má það vera að þorri almennings má sætta sig við að stjórnvöld dragi á langinn að leysa með almennum hætti úr stökkbreyttum lánum á meðan höfuðpaurar hrunsins fá milljarða afskriftir.

Reikna má að greiðsluvilji almennings fari mjög þverrandi og það sem verra er að það grípi um sig vonleysi.

Barátta Hagsmunasamtaka heimilanna og Sturlu Jónssonar og fleiri skiptir miklu máli.  Það er kristaltært í mínum huga að framkvæmd verðtryggingarinnar á umliðnum árum stangast á við neytenda- og lánareglur ESB sem eru að nafninu til í gildi hér á landi en líkt og með stjórnarskrárvarin mannréttindi, þá eru reglurnar lagðar til hliðar þegar það hentar fjórflokknum.

Þeir sem telja að breytingar á stjórnarskrá  breyti sjálfkrafa gangi mála ættu að hafa það í huga að núverandi stjórnarskrá er ekki virt og þess vegna er ekki nægjanlegt að fá nýja stórnarskrá í gagnið heldur þarf ekki síður að fylgja því eftir að ekki verði snúið út úr henni og ákvæði hennar jafnvel vanvirt.

Sturla hefur bent rækilega á að kerfið og lánastofnanir uppfylla ekki formsatriði sem getið er um í lögum og hefur krafist þess að áður en hann verði sviptur húsaskjóli þá verði farið að gildandi lögum.  Umhugsunarverð eru viðbrögð kerfisins og bera þau saman við þegar tugfalt stærri skuld bankastjóra Íslandsbanka var strikuð út af FME vegna þess að ákveðin formsatriði voru ekki uppfyllt.

Það er greinilegt að borgararnir eru misjafnir fyrir framkvæmd laga þegar til á að taka.

Í undarlegri röksemdafærslu fyrir því að breyta hvorki stjórn fiskveiða og koma á móts við lánþega er gefin sú skýring að það komi niður á lífeyrisréttindum landsmanna.  Horft er algerlega fram hjá þeirri staðreynd að þorskaflinn er einungis þriðjungur af því sem að hann var fyrir daga kerfins og samanlagður botnfiskafli er helmingurinn af því sem að hann var 1990 og þess vegna eru öll rök með því að hugsa stjórn fiskveiða frá grunni eins og Frjálslyndi flokkurinn hefur bent á.

Gott er að velta því fyrir sér hver hinn raunverulegi lífeyrissjóður okkar Íslendinga er.  Þegar til á að taka þá eru það ekki þessar tölur á

blaði eða inn í tölvum, sem greina frá eign í krónum talið eða hlutfallslegum réttindum.

 Reynsla síðustu ára segja okkur að þessar tölur geta gufað skjótt upp.  Fiskveiðistofnarnir og aðrar auðlindir landsins eru hinn raunverulegi lífeyrissjóður auk þeirrar vinnu og verðmæta sem fólk á vinnumarkaði hverju sinni getur látið af hendi rakna til þeirra sem hættir eru að vinna.

Réttlæti og virðing fyrir mannréttindum skipta miklu máli að berjast að alefli fyrir en ef það stríð tapast þá er hætt við að duglegt ungt folk sem treystir á eigin verðleika yfirgefi spillinguna og landið. Ef sú verður raunin í meira mæli en orðið er, þá fyrst er lífeyrissjóðakerfið í hættu og ég tala nú ekki um ef að nýtingarréttur og þar með fiskveiðiauðlindin sjálf lendir sem séreign erlendra vogunarsjóða í gegnum bankana. Baráttan fyrir réttarríkinu og bjartari framtíð er ekki auðunninn eins og málstaðurinn gefur tilefni til, þar sem við er að eiga annars vegar rótgróinn öfl og hins vegar gríðarlegir fjármunir sérhagsmunaaflanna. 

 Frjálslyndi flokkurinn ætlar sér að sigur í þeirr baráttu.  Í því augnamiði höfum við í forystunni leitað eftir samvinnu og samstarfi við aðrar hreyfingar og flokka sem vilja raunverulegar breytingar.  Það eru hafnar óformlegar viðræður um samstarf þar sem að koma Frjálslyndir, þjóðarflokkurinn, Fullveldissinnar, Hreyfingin, Borgarahreyfingin og ýmisir fulltrúar í stjórnlagaráð

Ég tel sjálfur mikilvægt að vita hvort að ekki náist sameiginlegur vettvangur fólks sem vill endurreisa réttarríkið og helst að fá sömuleiðis fólk og reynslu innan úr gömlu flokkunum sem sér að bráða

nauðsyn á skynsömum breytingum.

Mikilvægt er til að árangur náist að það takist að virkja þann mikla kraft og reynslu sem býr í liðsmönnum Frjálslynda flokksins. 

    

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband