Leita í fréttum mbl.is

Prófessor gerir lítið úr eigin sök

Ragnar Árnason, prófessor við Háskóla Íslands, birti þann 12. mars sl. grein í Morgunblaðinu og kvartaði undan málefnalegri gagnrýni minni á þá furðulegu niðurstöðu hans að kvótakerfið í sjávarútvegi hefði lítið sem ekkert að gera með fólksfækkun í sjávarbyggðunum. Kvótakerfið í sjávarútvegi hefur einmitt leitt til minni afla og girt fyrir nýliðun í atvinnugreininni. Núverandi kerfi hefur sömuleiðis leitt yfir byggðirnar gríðarlega óvissu um sölu og tilflutning aflaheimilda eins og dæmin sanna, óvissu þar sem framtíð byggðanna getur ráðist af hjónaskilnaði eða dauðsfalli einstakra útgerðarmanna.

Ragnar Árnason gerir stílbrögð mín að umtalsefni í grein sinni og efast um þá hörmulegu staðreynd að afli sjö helstu botnfisktegunda hafi minnkað um nálægt helming frá árinu 1990. Það slæma er að fræðimaðurinn gerir ekki neina tilraun til að svara málefnalegri gagnrýni minni á framsetningu og túlkun gagna.

Sagan sýnir að vísindi og gagnrýnin hugsun eru almennt uppspretta framfara en sagan geymir einnig dekkri hliðar þar sem vísindi hafa verið mistæk og jafnvel notuð sem skálkaskjól voðaverka. Ekki hafa fræðimenn við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands farið varhluta af því að slá feilhögg. Þeir hafa jafnvel gerst berir að því að stunda vafasöm vinnubrögð. Minna má á að í aðdraganda hruns fjármálakerfisins settu sérfræðingar Háskóla Íslands saman skýrslur um sterka stöðu fjármálakerfisins og léttvægi olíusamráðssvikamálsins. Ragnar Árnason fann það einhvern veginn út ári fyrir hrun að íslenskt þjóðfélag stæði svo afskaplega vel að hagkvæmast væri að hætta þorskveiðum í tvö ár. Núna, tveimur árum eftir hrun, er Helgi Áss Grétarsson enn kostaður af LÍÚ til starfa í Háskólanum. Eitt helsta verkefni Helga Áss virðist vera að leita logandi ljósi að rökum til þess að fara á svig við álit Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna og halda áfram að brjóta mannréttindi á íslenskum þegnum!Aum er sú málsvörn Ragnars Árnasonar  að reyna að aðskilja og flækja umræðuna með því að gera því skóna að fiskihagfræðin sem hann boðar hafi lítið sem ekkert að gera með ákvörðun heildarafla heldur sé einungis leið til að skipta leyfilegum afla. Sannleikurinn er sá að fiskihagfræði Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, hefur um árabil boðað minnkaðar veiðiheimildir og jafnvel veiðibann til þess að getað veitt meira seinna.  Gallinn á þessum boðskap er að þetta seinna hefur aldrei komið heldur hefur aðferðin alls staðar þar sem hún hefur verið reynd leitt til samdráttar á aflaheimildum.  Öll þessi reiknisfiskifræði gengur út á að maðurinn sé eini áhrifavaldur  fiskistofna í hafinu. Sannleikurinn er sá að aðrir þættir eru miklu sterkari en veiðar mannsins og þarf ekki annað en horfa á hvernig háhyrningurinn hámar nú í sig síldina sem Snæfellingum er meinað að veiða. Þó svo hvalir éti margfalt það magn sem maðurinn tekur úr hafinu þá er augljóst að innbyrðis samkeppni og afrán fiskistofnanna sjálfra er ráðandi þáttur í vexti og viðgangi fiskistofna.

Á  ferðalögum mínum og af samskiptum við erlenda aðila, bæði forsvarsmenn sjómannasamtaka og fræðimenn, hef ég dregið upp raunsanna mynd af íslenska kvótakerfinu. Þegar ég hef greint frá því að engin sátt sé um kostnaðarsamt kerfið og að það hafi leitt af sér að þorskaflinn er einungis þriðjungur af því sem hann var fyrir daga kerfisins hefur viðkvæðið verið að þetta sé allt önnur mynd en Ragnar nokkur Árnason hafi dregið upp. Rekinn hefur verið harður áróður fyrir íslenska kerfinu af stjórnvöldum og hagsmunaaðilum þar sem spámaðurinn Ragnar hefur dregið upp falska glansmynd af stórgölluðu kerfi. Ég vildi að Ragnar hefði rétt fyrir sér, ég vildi að kerfið væri gott og ég vildi sannarlega að sjávarútvegurinn stæði vel og að byggðirnar væru keikar. Okkur væri öllum hagur í því að kerfið stæði undir sjálfu sér og skilaði raunarði til samfélagins. Ljóst er hins vegar að núverandi stefna við stjórn fiskveiða hefur beðið skipbrot s.s hvað varðar: réttlæti, fiskafla, tryggja byggðarsjónarmið og fiskiskipaflotinn er orðinn gamall og greinin aldrei skuldugri.  Viðbrögð þeirra  sem bera ábyrgð á núverandi stefnu hefur því miður ekki verið að gaumgæfa þá málefnalegu gagnrýni bæði á augljósar líffræðilegar brotalamir við stjórn fiskveiða og svo ekki síður efnahagslega þáttinn. Áfram er sá falski tónn kveðinn að íslenska kerfið sé það besta í heimi og hver ráðstefnan á fætur annarri haldinn þar sem tryggilega er reynt að girða fyrr alla gagnrýni.
Það svíður að horfa upp á tvístígandi duglausa stjórnmálamenn sem vandræðast nú með breytingar á vitavonlausu kerfi og hafa ekki kjark til að gera raunverulegar breytingar og auka frelsi til fiskveiða. Hvers vegna þorir Jón Bjarnson ekki að auka frelsi og jafnræði til fiskveiða? Hvernig væri að fara rækilega yfir það hvað gerist þegar veitt hefur verið rækilega umfram ráðgjöf fiskihagfræðinganna í Færeyjum og Barentshafinu? Tímabært er að hætta þessum gunguskap og fara að efna þau loforð sem gefin voru fyrir síðustu kosningar.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

það voru aldrei gefin loforð bara ligar sem allir þessir flokkar hafa aldrei staðið við neitt, flott grein Sigurjón eins og altaf.

gisli (IP-tala skráð) 18.3.2011 kl. 11:26

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Lítill fugl hvíslar því að mér að nýtt frumvarp um stjórn fiskveiða muni engan gleðja nema LÍÚ sem undirbúi nú árshátíð.

Árni Gunnarsson, 18.3.2011 kl. 14:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband