Leita í fréttum mbl.is

Að ætla að beygja náttúrulögmálin með reiknikúnstum

 Þegar farið var af stað við að stjórna þorskveiðum með þeim kennisetningum sem Hafró beitir var markmiðið að minnka sveiflur í afla og að hann yrði að jafnaði 400-500 þúsund tonn. Aðferðin gengur annars vegar út á að draga úr veiðum til að „byggja upp“ hrygningarstofninn og hins vegar að vernda smáfisk.

Allir geta fallist á að upphafleg markmið hafa ekki gengið eftir, en deilt er um hverju sé um að kenna. Þeir sem hafa stýrt Hafró og rannsakað og fellt dóma um eigin verk segja að ekki hafi verið dregið nægjanlega úr veiðum. Þessu er haldið blákalt fram þó svo að það hafi verið farið nokkuð nákvæmlega eftir ráðgjöf Hafró sl. einn og hálfan áratug og að veiðisvæðum sé markvisst lokað fyrir veiðum á smáfisk.  

Aðrir líffræðingar og fiskifræðingar, s.s. ég og Jón Kristjánsson, hafa haldið því fram að kenningin sem Hafró vinni eftir geti ekki gengið upp þar sem hún brjóti í bága við viðtekna vistfræði, s.s. að vitavonlaust sé að vernda fiskinn þar sem vöxtur er við sögulegt lágmark.  Sömuleiðis hefur verið bent á að ekki sé um að ræða jákvætt samband á milli stærðar hrygningarstofns og nýliðunar en fleiri hafa bent á það, s.s. Rögnvaldur Hannesson fiskihagfræðingur. Fleira má nefna, t.d. að fiskveiðar ganga sinn vanagang á hafsvæðum þar sem umdeildar kenningar Hafró ráða ekki för, eins og í Barentshafinu og við Færeyjar, en reiknisfiskifræðingar hafa ítrekað spáð algjöru hruni.

Þorskveiðin nú er miklu minni en þegar útlendingar voru að veiða hér í landhelginni og sömuleiðis er atvinnufrelsi Íslendinga virt að vettugi að mati mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

Sagan skoðuð

Frá árslokum 1976 hafa Íslendingar haft stjórn á veiðunum og voru menn nokkuð bjartsýnir á að með betri stjórn, einkum minni smáfiskaveiði, næðist fljótlega að ná fram jafnstöðuafla,  400-500 þúsund tonn eins og áður segir.

Þetta gekk ekki eftir þrátt fyrir stækkaða möskva og fleiri aðgerðir og var svo komið að árið 1991 var það mat Hafró að þorskstofninn stæði veikt og var skýringin að veitt hefði verið of mikið frá því að kvótakerfið var tekið upp árið 1984 og síðan að sjór hefði kólnað frá því sem áður var þegar afli var meiri.  Þorsteinn Pálsson sjávarútvegsráðherra ákvað að fara nokkuð nákvæmlega eftir ráðgjöf Hafró.

1991 Kvótinn sem Þorsteinn Pálsson þáverandi sjávarútvegsráðherra gaf út var innan skekkjumarka eða rétt um 6% umfram ráðgjöf.

1992 reiknaði Hafró enn og aftur að þorskstofninn væri á niðurleið þrátt fyrir að farið hefði verið að mestu eftir ráðgjöfinni á árinu á undan.

Kvótinn 1992 sem gefinn var út var 205 þúsund tonn sem var um 7% umfram ráðgjöf og lét aðstoðarforstjóri Hafró hafa eftir sér niðurskurðurinn væri liður í að byggja upp stofninn.

1993 lagði Hafró enn og aftur til að skorið yrði niður þrátt fyrir að farið hefði verið að mestu eftir tillögum stofnunarinnar árin á undan og var lagt til 150 þúsund tonna afla og fór Þorsteinn Pálsson sjávarútvegsráðhera að mestu eftir tillögum Hafró eins og áður.

1994 brá Hafró ekki af venju sinni og lagði til umtalsverðan niðurskurð eða 130 þúsund tonna þorskafla og það var eins og við manninn mælt Þorsteinn Pálsson skar niður veiðiheimildir.

1995 mátti heyra nýjan tón í ráðgjöf Hafró og var ráðlagt að veiðin yrði sú sama og árið áður eða 155 þúsund tonn, þrátt fyrir að ekki hefði verið skorið jafnmikið niður og stofnunin lagði til.  Þorsteinn Pálsson barði sér á brjóst og taldi að þessi ráðgjöf vera til vitnis um að það hefði verið rétt að fara nánast í einu og öllu eftir ráðgjöfinni.

1996 lagði Hafró til að þorskveiðin yrði aukin um 20% eða 186 þúsund tonn og taldi forstjóri Hafró að það væri bjart framundan og það var framreiknað að stofninn myndi vaxa um 200 þúsund tonn á næstu 2 árum.

1997 taldi Hafró að stofninn hefði vaxið meira en spáð hafði verið fyrir um ári áður og lagði stofnunin til að kvótinn yrðir 218 þúsund tonn og fór Þorsteinn Pálsson sjávarútvegsráðherra eftir þeirri ráðgjöf og taldi að harðar niðurskurðaraðgerðir sínar hefðu skilað árangri.
1998  Hafró leggur til að veiðin verði 250 þúsund tonn og er það aflaaukning þriðja árið í röð og Þorsteinn sjávarútvegsráðherra segir að ráðgjöfin staðfesti að stefnan hafi verið rétt.
1999  Hafró leggur til að það sé nánast sami afli og árið á undan en forstjóri Hafró, Jóhann Sigurjónsson, segir að allar spár um þróun stofnsins standist vel og að það sé að vænta góðra frétta vegna tveggja stórra árganga sem séu á leiðinni sem að reynsla væri komin á.

2000  Hafró leggur til niðurskurð að kvótinn verði 203 þúsund tonn og komu þær fréttir eins og þruma úr heiðskíru lofti.  Ástæðan var sú að stofnunin hefði reiknað vitlaust árin á undan og hefði stofninn í raun verið minni en fyrri útreikningar gáfu til kynna.  Ekki voru þó eingöngu um neikvæðar fréttir heldur var reiknað út ef farið yrði að tillögunum þá myndi stofninn stækka strax á næsta ári og enn meiri árið þar á eftir.
2001 Hafró lagði til enn meiri niðurskurð eða 190 þúsund tonn þorskafla. Þetta "seinna" kom því ekki eins og spáð hafði verið ári fyrr og stofnunin taldi að nýir útreikningar staðfestu enn frekar að þegar stofnunin taldi sig loksins vera búin að fá þetta „seinna“ hafði verið reiknað vitlaust. Ástæðan sem Jóhann Sigurjónsson gaf á þessu voru m.a. breytingar á hitafari og benti hann á að það væri vel að merkja kaldara á sl. 30 árum en fyrr á öldinni þegar betur fiskaðist.
2002 Hafró leggur til niðurskurð og að þorskaflinn verði ekki meiri en 179 þúsund tonn.  Nú skyndilega vill forstjóri Hafró breyta aflareglunni sem búið var að mæra árin á unda þrátt fyrir að reglan og furðulegar sveiflujafnanir eigi ekki nokkuð skylt við líffræði heldur miklu frekar hagfræði.
2003 Hafró leggur til aukningu í 209 þúsund tonn en um var að ræða kosningaár og Davíð Oddson lagði til á fundi í Sjallanum að þorskkvótinn yrði aukinn um 30 þúsund tonn.  Jóhann Sigurjónsson forstjóri Hafró staðfesti síðan fljótlega að í góðu lagi væri að veiða þann fisk sem Davíð fann í Sjallanum.
2004 Hafró leggur til skerðingu um nokkur þúsund tonn frá kosningaári og forstjóri Hafró bendir á að það hafi orðið hlýnum sem geti haft neikvæð áhrif á loðnuna og þar með þorskinn.  Nú er hækkað hitastig orðið möguleg skýring á því hvers vegna veiðin er helmingi minni en áður en þremur árum fyrr var lækkað hitastig nefnd sem ástæða fyrir því að þorskurinn ætti erfitt uppdráttar.
2005 Hafró leggur til niðurskurð í 198 þúsund tonna þorskafla í umræðum er sagt að niðurskurðurinn gefi meiri afla á næstu árum en miklu betra væri að skera enn meira niður til að fá enn meiri afla seinna.  Á fundi á Dalvík er haft eftir forstjóra Hafró að ekki sé hægt að bera saman afla á árunum 1920 til 1960 og síðar vegna þess að þá var hlýskeið.
2006 Hafró leggur til niðurskurð í 187 þúsund tonn en nú voru reiknisfiskifræðingar lausir við handfæraveiðar að mestu sem gátu mögulega ruglað lítillega reiknisdæmið.  Nú var hækkað hitastig og meint gróðurhúsaáhrif dregin inn til skýringar á misheppnaðri uppbyggingarstefnu.
2007 Hafró leggur til niðurskurð í 130 þúsund tonn og Einar Kristinn sjávarútvegsráðherra kokgleypti þau fræði og Friðrik Jón Arngrímsson húkkaðist á vitleysuna.  Aflareglunni var breytt til og veiðihlutfall lækkað úr 25% í 20% þess að uppbyggingin þorskstofnsins gengi hraðar fyrir sig.  Hagfræðistofnun var fengin til að skrifa upp á delluna en þeir gerðu gott betur en það þar sem lagt var til enn frekari niðurskurður og jafnvel hætta þorskveiðum í nokkur ár til að uppbyggingin gengi enn hraðar fyrir sig.  .
2008  Hafró leggur til niðurskurð á aflaheimildum um nokkur þúsund tonn.  Einar Kristinn ákveður að kvótinn skuli vera 130 þúsund ton en eykur síðan veiðiheimildir um 30 þúsund tonn í byrjun árs 2009 í ljósi bags efnahags landsins og jákvæðra niðurstaðna í haustralli. 

2009 Hafró leggur til að þorskaflinn verði einungis 150 þúsund tonn og viðurkennir með því að niðurskurður á aflaheimildum og ný aflaregla skilar ekki neinni uppbyggingu.

Búfræðikandídatinn Jón Bjarnason tók það upp hjá sjálfum sér skömmu eftir að hann tók við embætti  að skrifa bréf til Alþjóða hafrannsóknarráðsins og sverja eið að stefnu reikningsfiskifræðinga og fara að einu og öllu eftir ráðgjöf Hafró og veiða einungis 20% af veiðistofni.  Hann  lagði þar meðr til hliðar menntun sína og ætlar í miðri kreppu enn og aftur að fjölga þorskum sem eru langt undir meðalþyngd og þar að auki styttri. Búfræðikandídatinn Jón gerir  heldur ekki neitt með að fiskveiðar ganga hvergi betur en einmitt þar sem ráðgjöf reiknisfiskifræðinganna í Alþjóðahafrannsóknaráðinu hefur verið algjörlega hundsuð, og þá á ég við í Barentshafinu og í Færeyjum.


Er ekki orðið löngu tímabært að setja spurningamerki við ráðgjöf sem aldrei hefur gengið upp og hefur ekkert forspárgildi.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steingrímur Helgason

Allt rétt & margoft zagt..

Steingrímur Helgason, 8.2.2010 kl. 01:56

2 identicon

Heimskingjarnir létu mann sem aldrei hefur farið úr fermingarfötonum, aldrei difið fingri í nokkurt vatn, aldrei unnið ærlegt handtak á aumri ævi, svo vitað sé, þetta var látið vera æðsta vald fiskveiðistjórnunar í landinu, ég held að hann viti ekki hvað sporður á fiski, nýtist fiskinum til ofan í sjónum, svo, var einn álíka, látinn vera aðstoðarmaður, sá vissi bara það sem hann hafði heyrt sagt.  Hvernig á öðruvísi að fara í þessu landi þegar alltaf er staðið svona að málum?  Loðnan er svo æti þorsksins og fleiri fiska, en hún er veidd upp af stórum flota, fyrir framan nefið á þorskinum, honum er ekki gefið færi á að éta, þvílík er græðgin, flibbaliðið snýr sér í aðra átt á meðan, bankaliðið búið að eyða öllu fyrirfram í rugl. Hættiði þessu bara, aular ráða ekki við neitt. nema auka skuldir ár eftir ár.

Robert (IP-tala skráð) 8.2.2010 kl. 02:44

3 identicon

Þarf ekki að auka hvalveiðar og draga úr loðnuveiðum?

Og einnig setja starfandi fiskifræðinga í endurmenntun?

Við ætlum jú aðallega að veiða þorsk.

Er það ekki hann sem skapar mestu gjaldeyristekjurnar?

Pétur.

Pétur (IP-tala skráð) 8.2.2010 kl. 11:59

4 Smámynd: Óskar Þorkelsson

þetta er skelfileg lesning.  Hafró er algerlega á villigötum

Óskar Þorkelsson, 8.2.2010 kl. 16:38

5 Smámynd: Jón Kristjánsson

Góð upprifjun, þetta þarf að segja aftur, aftur og aftur. Með smá von um að eitthvað verði gert. En Hafró er verndaður vinnustaður, varinn í bak og fyrir af hagsmunaðilum 

Jón Kristjánsson, 8.2.2010 kl. 16:47

6 Smámynd: Árni Gunnarsson

Nú styttist í að Sigurjón líffræðingur og Jón fiskifræðingur verði brenndir.

Sorglegt að vísu en ekkert við því að gera.

Hvar ertu Fannar frá Rifi; læturðu þetta átölulaust?

Hvar er ábyrgð þín?

Árni Gunnarsson, 9.2.2010 kl. 00:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband