Leita í fréttum mbl.is

Hamskipti SKK og ISG á LÍÚ-fundum

Enn og aftur gerist það að ræðumenn á LÍÚ-fundum hafa hamskipti og tala upp í eyrun á fundarmönnum. Hver man ekki eftir formanni Samfylkingarinnar, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, sem breyttist í einlægan stuðningsmann kvótakerfisins á fundi LÍÚ fyrir sléttum tveimur árum? Nú bárust fréttir af hinum unga og efnilega þingmanni þjóðarinnar, Sigurði Kára Kristjánssyni, sem var ræðumaður á þinginu og talaði eins og beint upp úr leiðara Þorsteins Pálssonar sem tók einmitt þátt í að koma kerfinu á.

Það skýtur skökku við að Sigurður sem er gagnrýninn á flest óbreytanleg kerfi, s.s. vínsölu ríkisins, skuli skrifa upp á kvótakerfi sem er sannanlegt skrýmsli. Það kemur í veg fyrir nýliðun ungs fólks í greininni og þorskveiði er nú, eftir uppbyggingarstarf kvótakerfisins, innan við þriðjungur þess afla sem veiddur var áður en kerfið var sett á laggirnar.

Það má vera að kerfið gangi upp séð með gleraugum lögfræðinnar og stjórnsýslufræða en fyrir þá sem þurfa að vinna eftir því og fyrir heildarhagsmuni þjóðarinnar gengur það ekki upp. 

Er ekki sanngjarnt að ætlast til þess af ungu fólki sem er á þingi, hvort sem það heitir Sigurður Kári eða Birkir Jón eða Katrín Júlíusdóttir eða Katrín Jakobsdóttir, að það taki ofan hin þröngu kerfisgleraugu og efli með sér kjark til að fara í gegnum ágalla kerfisins, hörmungasögu þess og leita lausna sem virka í stað þess að draga upp fegraða mynd af kerfinu? Þau voru ekki á dögum þegar kerfinu var komið á og ættu þess vegna ekki að upplifa sig í þeim sporum að þurfa að verja gjörðir flokksfeðranna.


Hugvit á Siglufirði

Ég er kominn á fulla ferð í gömlu nýju vinnunni minni hjá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands vestra. Mér hlotnaðist m.a. sá heiður á nýlegum aðalfundi Félags heilbrigðisfulltrúa að vera kosinn ritari. Ég bíð nokkuð spenntur eftir fyrsta stjórnarfundinum sem verður boðaður í vikunni en það starf leiðir bloggvinkona mín Svava Steinarsdóttir.

Það er ýmislegt að gerast þessa dagana á sviði umhverfismála í sveitarfélögum landsins. Víða er leitað leiða til að minnka úrgang, t.d. með jarðgerð. Síðasta fimmtudag skoðaði ég með heilbrigðisnefnd Norðurlands vestra nýja moltumaskínu sem framleidd er á Vélaverkstæði SR á Siglufirði. Til stendur að sú vél muni jarðgera allan lífrænan úrgang frá íbúum Siglufjarðar, og þegar fram líða stundir og austurhlutinn verður tengdur vesturhlutanum verður úrgangi líka safnað þaðan, þá líka frá Ólafsfirðingum.

Ef þetta verkefni gengur vel í Fjallabyggð eru líkur til að hægt verði að koma tækinu í gagnið á fleiri stöðum á landinu. Svo náttúrlega eru Króksarar komnir af stað með að jarðgera allan lífrænan úrgang frá sláturhúsinu sem er eitt stærsta sláturhús landsins. Búnaðurinn verður formlega tekinn í notkun á ráðstefnu sem mig minnir að verði haldin 8. nóvember nk.

Vonandi gengur allt vel hjá Siglfirðingunum. Það er brýnt að menn sjái tækifæri og lausnir þegar rætt er um umhverfismál og komi umræðunni í jákvæðan farveg.


Bloggfærslur 28. október 2007

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband