Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Jákvætt að fá lánið hjá Færeyingunum

Færeyingar hafa ýmsu að miðla og ekki bara peningalánum, heldur ekki síður þekkingu á því hvernig á að stjórna fiskveiðum.

Íslendingar hafa lifað í þeirri barnalegu trú að allt-sé-best-í-heimi hérna, m.a. fjármálakerfið og ég tala nú ekki um fiskveiðistjórnunarkerfið. Það kom þó á daginn að það voru Færeyingar - sem að sögn þeirra sem hafa ráðið för á Íslandi hvað varðar sjávarútveginn búa við óhagkvæmt kerfi og eru búnir að hirða hvert snitti í kringum eyjarnar - eru aflögufærir.

Það væri óskandi að Íslendingar sæktu ekki einungis beinharðan pening til Færeyja, heldur líka visku til að læra að stjórna fiskveiðum. Færeyingar lentu í slæmum málum á sínum tíma og þeirra ráð var að veiða sig út úr kreppunni þrátt fyrir viðvaranir reiknisfiskifræðinga sem héldu að auknar veiðar gjöreyddu fiskistofnunum. Færeyingar hafa veitt langt umfram ráðgjöf í vel á annan tug ára.

Væri ekki nær fyrir okkur að fara svipaða leið og Færeyingar?


mbl.is Skrifað undir lánasamning við Færeyjar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til varnar Eskju hf.

Í fréttaskýringaþætti RÚV upplýstist hve grænir Íslendingar geta verið fyrir lymskulegum áróðri græningja. Verksmiðjustjórinn vildi nokkuð örugglega gera vel við erlenda fréttamenn og frændur sem sýndu fiskimjölsverksmiðjunni áhuga. Fréttamennirnir þökkuðu fyrir sig og klipptu saman glannaleg ummæli og kjánaaðfarir verksmiðjustjórans við veiðar. Tilgangurinn var eflaust að undirstrika hvers konar umhverfishryðjuverk færu fram á Íslandi.

Það vakti athygli mína að fræðimaðurinn Daniel Pauly var fenginn til þess að votta að framleiðsla á eldisfiski værI óábyrg og framleiðsla á fiskimjöli skaðleg fyrir ofveidda fiskistofna. Ofveiðigrýlan lifir góðu lífi hér á Íslandi, bæði á Hafró og hjá fjölmiðlamönnum þar sem stöðugt er klifað á því að helstu nytjastofnar þjóðarinnar séu ofveiddir þrátt fyrir að sú staðreynd liggi á borðinu að þorskveiði hefur nánast aldrei verið minni og ekki er það vegna þess að þorskinum sé ekki til að dreifa. Nei, ástæðan er að sjómenn hafa ekki leyfi til að veiða hann. Sömuleiðis liggur fyrir að í Barentshafinu og Færeyjum þar sem ekkert er gert með ofveiðigrýluna ganga veiðar sinn vanagang og fiskistofnar eru við hestaheilsu.

Það er sem margur átti sig ekki á að Daniel Pauly er á mála hjá umhverfissamtökum og -sjóðum, t.d. PEW, sem hafa yfir gríðarlegum fjármunum að ráða sem greiða fyrir rannsóknir sem eiga að sýna fram á skaðleg áhrif fiskveiða og reyna að sverta atvinnugreinina með falsvísindum.

Ekki er Pauly einn um að birta reglulega heimsendaspár um sjávarútveginn, fleiri frægir hafa komist í fréttirnar hér, s.s. Boris Worms sem kom fram með spádóminn um að allir fiskistofnar heims kláruðust 2048, Andrew Rosenberg sem reiknaði út stærð þorskstofnins við strendur Bandaríkjanna á 19. öld og Ransom Myers sem reiknaði út hnignun mörg hundruð fiskistofna vítt og breitt um heiminn.

Það sem vekur ugg er að íslensk stjórnvöld hafa nýtt sér starfskrafta sumra þessara manna, s.s. Andrew Rosenbergs, í að fara yfir hvers vegna friðunarstefna sem verið hefur við lýði undanfarna áratugi hafi ekki gengið eftir eins og þegar Hafró týndi mörg hundruð þúsund tonnum af þorski fyrir nokkrum árum. Það stóð ekki á svarinu sem var á þá leið að friðunarstefnan stæði fyrir sínu nema þá að helst þyrfti að friða enn meira til þess að geta veitt meira seinna en þetta seinna hefur aldrei komið eins og þeir sem fylgjast með sjávarútvegi ættu að vita.

Það er langt í frá að starfsmenn Eskju séu þeir einu sem ekki hafa varað sig á lymskulegum áróðri græningja gegn sjávarútvegi og veiðum.


Frjálslyndir settir til hliðar

Það er upplýsandi að lesa hvaða fyrirtæki studdu hvaða flokka og um hversu háar fjárhæðir í kosningabaráttunni 2007. Það er augljóst að beinskeyttur málflutningur gegn sjálftöku og gagnrýnislausu dekri á kostnað almennings hefur haft áhrif á styrki til Frjálslynda flokksins. Stærstu kvótafyrirtækin sniðgengu öll flokkinn en veittu á sama tíma kvótavininum Steingrími J. gríðarlega fjármuni.

Það er líka umhugsunarvert að fjárstreymið er ekki bara minna, heldur hefur flokkurinn sem hefur barist einarðlega fyrir almannahugsjónum mátt glíma við fjölmiðlana af því að þeir hafa iðulega sett hann út í kuldann.

Liðsmenn Frjálslynda geta verið stoltir af og ánægðir með baráttu sína. Málflutningur flokksins, s.s. hvað varðar feigðina um skuldasöfnun og kvótakerfið, stendur sjálfur undir sér - án styrkja.


Verkin sýna merkin

Þórður Már Jónsson, frambjóðandi Samfylkingarinnar, ungur maður á uppleið, fer mikinn í skrifum sínum og talar um skýra sjávarútvegsstefnu Samfylkingarinnar og fullyrðir að Samfylkingin hafi raunverulegar breytingar á ömurlegu kvótakerfi ofarlega á forgangslista sínum. Þetta er mikill misskilningur hjá Þórði þar sem Samfylkingin hefur haft einstakt tækifæri með stjórnarsetu sinni til að gjörbreyta sjávarútvegsstefnu sinni en hefur ekki gert það. Samfylkingin tók nánast heils hugar undir óábyrgar niðurskurðartillögur í fiskveiðiheimildum og hefur alls ekki opnað fyrir nýliðun í atvinnugreininni, heldur viðhaldið höftum og óréttlæti.


Einstaka þingmenn Samfylkingarinnar hafa á kjörtímabilinu áttað sig á að flokkurinn væri kominn á algjörar villigötur þegar hann ákvað að virða í engu álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Eina undantekningin á hinum harðsvíraða málflutningi jafnaðarmanna var Karl V. Matthíasson og hann uppskar skeytingarleysi og jafnvel ákúrur frá varaformanni og formanni Samfylkingarinnar.
Að halda því fram að Samfylkingin hafi skýra stefnu í sjávarútvegsmálum og að hún sé einhver önnur en stefna ríkisstjórnar sem Samfylking hefur átt aðild að er auðvitað barnalegt. Samfylkingin situr einfaldlega uppi með það að vera flokkur sem hefur stuðlað að mannréttindabrotum og byggðaeyðingu með því að hafa stutt óréttlátt kvótakerfi í sjávarútvegi.


Verkin sýna merkin.


Fundur haldinn í skugga mannréttindabrota formannsins

Ef eitthvert púður er í almennum flokksmönnum Vinstri grænna hljóta þeir að krefja aðalritara sinn svara við því hvers vegna í ósköpunum hann hafi vanvirt álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna og haldi áfram að brjóta mannréttindi á sjómönnum. Það er vitað að Steingrímur J. studdi framsal veiðiheimilda á sínum tíma og hefur verið stuðningsmaður óréttláts kvótakerfis sem markaði upphafið að hruninu.

Núna um helgina væri tækifæri fyrir Steingrím J. til að iðrast og snúa við blaðinu.


mbl.is Sterk skilaboð frá yngra fólki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleðigjafarnir á Hafró

Ein gleðilegasta frétt vikunnar er síldartorfan í Vestmannaeyjahöfn. Heilbrigðiseftirlitið á Suðurlandi skrifaði upp á að vissara væri að veiða upp síldina áður en hún dræpist. Grunur lék á að einhver hluti hennar væri sýktur og dæmi eru um að ef síld drepst í stórum stíl verði nánast ólíft vegna ólyktar í kjölfarið.

Vestmannaeyingar brugðust glaðir við og veiddu síldina, 550 tonn, sjómenn gáfu vinnu sína, bræðslan líka og ágóðinn á að fara í að greiða niður æfingagjöld fyrir krakkana í Eyjum.

Í hádegisfréttum í dag var síðan að helstu sérfræðingar Hafró töldu að helmingur síldarinnar væri mjög mikið sýktur en restin eitthvað minna og jafnvel fjórðungur alveg ósýktur. Var það mat sérfræðinganna að helmingur síldarinnar ætti séns á að komast aftur út úr höfninni. Því varð að ráði hjá Hafró að stöðva veiðarnar.

Ef Hafró hefur rétt fyrir sér munu Vestmannaeyingar væntanlega þurfa að standa í gríðarlega mikilli hreinsun í höfninni því að helmingur torfunnar á eftir að drepast þarna. Sú sýkta síld sem kemst út getur þá væntanlega haldið áfram að breiða út veikina.

þessi ákvörðun um að stöðva veiðarnar á sýktri síld inni í höfn til að láta náttúruna njóta vafans er áreiðanlega ekki gleðifregn fyrir krakkana í Eyjum, hvað þá húsmæður og -feður sem þurfa að búa við ýldulykt. Ég get ekki dregið fjöður yfir það að mér þóttu þessir snúningar Hafró grátbroslegir þar sem enn og aftur er veiðistjórnunin með þeim ólíkindum að skera niður veiðar, og það jafnvel á sýktum fiski.

Mikil sýking í fiskum er yfirleitt greinilegt merki um of mikinn þéttleika og vanþrif og þá væri miklu nær að bæta í veiðar en hitt.


Hér bora menn í nefið og vilja beita bókhaldsbrellum

Þjóðin glímir við gífurlegt atvinnuleysi. Íslenski fjórflokkurinn rífst innbyrðis um hvort eigi að fara í einhverja bókhaldsbrellur, s.s. að afskrifa lán í gríð og erg, eða hvort að leiðin út úr vandanum sé jafnvel að fara í kynjaða hagstjórn.

Frjálslyndi flokkurinn leggur til auknar veiðar á helstu nytjastofnum þjóðarinar og skapa með þeim hætti raunveruleg verðmæti og vinnu.  

Rökstuðningurinn er einfaldur. Núverandi fiskveiðiráðgjöf hefur engu skilað nema niðurskurði og þar sem ekkert hefur verið farið eftir reiknisfiskifræðingunum mokveiðist.  Síðastliðið sumar var nánast gefið út dánarvottorð fyrir færeyska fiskistofna en ráðgjöfin þar var 50% niðurskurður á aflaheimildum. Ekkert var farið eftir ráðgjöf færeysku Hafró og árangurinn er mokveiði og þorskstofninn sækir í sig veðrið. Með öðrum orðum reyndist ráðgjöfin röng. Hér heima halda menn áfram að bora í nefið og stýra eftir ráðgjöf sem hefur ekki skilað neinu öðru en minnkandi afla!

Í viðtali í Fréttablaðinu skilaði maðurinn sem hafði svör við öllum gátum lífsins í stjórnarandstöðu auðu blaði þegar kom að atvinnusköpun.  teingrímur J Sigfússon lagði ekki einu sinni til að tína fjallagrös eða mosa!


Bönnum klám og skuldir

Ekkert bólar á efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar á sama tíma og hún leggur fram 25 liða aðgerðaáætlun til þess að ráðast gegn klámi og nektarbúllum. Það sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur til málanna að leggja er helst að standa vörð um innvígða, eins og Davíð Oddsson, auk þess sem helsti efnahagssérfræðingur flokksins til margra ára, Tryggvi Þór Herbertsson, leggur keikur til að skuldir verði afskrifaðar í gríð og erg.


Það er deginum ljósara að fjórflokkurinn hefur brugðist landsmönnum, en hvað ættu ráðamenn að vera að gera í stað þess að leggja alla áherslu á að banna klám og skuldir?
Í fyrsta lagi stafar vandinn hvað helst af hækkun neysluverðsvísitölu sem hefur bein áhrif á greiðslubyrði verðtryggðra lána sem og erlendra. Ekki er hækkun vísitölunnar tilkomin vegna mikillar eftirspurnar eða þenslu í samfélaginu heldur hruns íslensku krónunnar.
Það væri strax mikið unnið fyrir skuldug heimili, bændur og fyrirtæki ef krónan væri rétt af. Einn helsti þrándur í götu þess að koma á eðlilegum gjaldeyrisviðskiptum eru hundruða milljarða jöklabréf erlendra aðila sem haldið er föstum með gjaldeyrishöftum, sem fyrrgreindur Tryggvi Þór taldi þar til fyrir skemmstu bera vott um hraustleikamerki íslensks fjármálakerfis. Það ætti því að verða fyrsta verk stjórnvalda að hafa uppi á eigendum jöklabréfanna og semja við þá um að framlengja bréfin og innleysa þau smám saman. Það er einnig vel þess virði að fara betur yfir hvort eigendur svokallaðra jöklabréfa séu ekki í einhverjum mæli innlendir aðilar með erlenda kennitölu sem eru að senda eitthvað af Tortola-gulli annan hring um íslenskt efnahagslíf og sleikja þá í leiðinni upp eina hæstu vexti í heimi.
Núverandi ástand hafta býður upp á tvöfaldan markað og svartamarkaðsbrask með íslensku krónuna sem hlýtur að stórskaða efnahagslífið. Það hvetur beinlínis til þess að útflytjendur reyni frekar að skipta erlendum gjaldeyri í útlöndum þar sem hægt er að fá hærra verð fyrir hann en á innlendum opinberum markaði.


Í öðru lagi þarf að snarlækka vexti, enda er ekki verið að slá á neitt sem kallast þensla heldur miklu frekar samdrátt efnahagslífsins. Áframhaldandi ofurvextir munu miklu frekar herða samdráttarhnútinn. Það má flytja vexti af ríkisbréfum úr landi og því hærri sem vextir eru þeim mun stríðar streymir gjaldeyrir úr landinu sem veldur sem kunnugt er lækkandi gengi íslensku krónunnar.
Í lokin á íslenska þjóðin að taka undir með Frjálslynda flokknum og gera þá skýlausu kröfu að ríkið innleysi veiðiheimildir og stórauki þær í leiðinni. Aukningunni á að deila út á jafnræðislegan hátt þar sem tekið er tillit til byggða og hafa strax tekjur af þessum auknu veiðiheimildum með leigu aflaheimilda. Sömuleiðis á smám saman að fyrna nýtingarrétt af veiðiheimildum sem ríkið innleysir og leigja þær út.


Það er ömurlegt að verða vitni að því þegar núverandi sjávarútvegsráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, gerir sig beran að því að halda áfram  eins og ekkert sé með núverandi kvótakerfi sem hratt hruninu af stað og brýtur enn í bága við mannréttindi.
Í stað þess að endurskipuleggja af skynsemi og tryggja að þjóðin hafi arð af atvinnugreininni hefur leiðtogi VG boðað hækkun skatta í stórum stíl á launþega þessa lands.


Hvar eru íslenskir fréttamenn?

Eitthvað er um að íslenskum fréttamönnum finnist það nánast neðan við sína virðingu að fjalla með gagnrýnum hætti um sjávarútveg. Á því eru sem betur góðar undantekningar, s.s. Kristinn Hrafnsson og Erla Hlynsdóttir. Í Spegli Ríkisútvarpsins er stöðugt fjallað um hrun lífríkis og fiskistofna án að taka það með í reikninginn að nánast óeðlilegt sé að ætla að stofnstærð lífvera, s.s. fiska, sem geta eignast gríðarlegan fjölda afkomenda sveiflist gífurlega. Aldrei er fjallað gagnrýnið um að hvergi í heiminum hafi tekist að byggja upp þorskstofn með þeim aðferðum sem íslensk stjórnvöld hafa stuðst við.  

Íslenskur sjávarútvegur aflar drýgsta hluta dýrs gjaldeyris þjóðarinnar sem mikill skortur er á um þessar mundir. Fréttamenn, svo og landsmenn allir, ættu því að vera vakandi yfir því hvort ekki sé hægt að gera betur en nú er gert, t.d. með því að koma í veg fyrir brottkast og veiða meira.

Frjálslyndi flokkurinn hefur í gegnum árin bent á hagkvæmara og betra kerfi en enn er í notkun hér á Íslandi, þ.e. að beita sóknarstýringu í stað þess að notast við kvótakerfi sem hvetur til brottkasts. Sömuleiðis hefur Frjálslyndi flokkurinn bent á að það sé óhætt að veiða langt umfram ráðgjöf Hafró enda hafi hún engu skilað í gegnum árin nema auknum niðurskurði.

Í Færeyjum fór fram hörð umræða í fyrrasumar um hvort ætti að skera veiðiheimildir niður um helming en ætla má að ef sú hefði orðið raunin hefðu Færeyingar ekki verið aflögufærir með lán til Íslendinga. Niðurstaðan úr þeim umræðum varð sú að stjórnin sprakk eftir að deilurnar fóru út um víðan völl, m.a. um lyklavöld í ráðuneytum.

Hvað afleiðingar hefur umframveiði um 50% haft? Í Færeyjum er mjög góð ufsaveiði og þorskurinn virðist vera að ná sér á strik á ný eftir lægð síðustu ára. Vel að merkja hefur ufsaveiðin í Færeyjum verið á síðasta áratug allt frá nokkrum tugum prósenta og upp í hundruð prósent umfram ráðgjöf reiknisfiskifræðinga.

Á heimasíðu Jóns Kristjánssonar fiskifræðings er mjög athyglisverð frétt úr færeyska togararallinu sem gefur heldur betur til kynna að feitur þorskur sé í miklum mæli kominn inn í veiðina.

Það er furðulegt að fylgjast síðan með formanni VG, Steingrími J. Sigfússyni, halda áfram mannréttindabrotum og meina fólki í dreifðum byggðum að draga björg í bú með handfærum. 

Og flestir fréttamenn snúa blinda auganu að þessum fréttum öllum.


Frjálsar handfæraveiðar

Frjálslyndi flokkurinn hefur um áraraðir lagt til að opna á frjálsar handfæraveiðar þannig að landsmenn gætu átt lítinn bát og sótt sér sjálfir björg í bú. Það er engin spurning að þetta litla mál yrði gríðarleg lyftistöng fyrir byggðirnar og yki bjartsýni í samfélaginu. Í hverri sjávarbyggðinni á fætur annarri voru tugir ef ekki hundruð smábáta sem reru á góðviðrisdögum til fiskjar en kvótakerfið hefur valdið því að oftar en ekki er á sömu stöðum hægt að telja trillurnar á fingrum annarrar handar.
Ég sem hef tekið þátt í stjórnmálum hef aldrei getað skilið hvers vegna fjórflokkurinn þar sem einn kennir sig við frelsi, annar við vistvænar veiðar, sá þriðji við samvinnu og sá fjórði við jöfnuð getur ekki unnt fólkinu í landinu þessa frelsis og að njóta náttúruauðæva í túnfætinum. Eitt er víst, það að hafa lagt af handfæraveiðar hefur alls ekki gefið öðrum útgerðum meiri afla.
Þetta yrði mjög skemmtilegt og gæti orðið fyrsti liðurinn í því að búa til raunverulega sátt um sjávarútveginn.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband