Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Ingibjörg Sólrún vill eiga eðlileg samskipti við þá sem grýta

Þegar ég las þessa sorglegu frétt, að átta konur og einn karlmaður biðu þess að verða grýtt til bana í Íran, kom upp í huga mér sú yfirlýsing utanríkisráðherra okkar að hún teldi rétt að hafa eðlileg samskipti við Íran. Hún leggur sem kunnugt er mikið upp úr því að fá sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og virðist vera tilbúin að snapa atkvæði hjá hverjum sem er og fyrir hvað sem er. Hver man ekki eftir yfirlýsingunni um að hún styddi stefnuna um eitt Kína þegar málefni mannréttindabrota í Tíbet bar á góma?

Í þessu ljósi er engin furða að Ingibjörg Sólrún skuli senda lögregluna á smábátasjómenn þótt mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna sé búin að gefa íslenskum stjórnvöldum tilmæli um að greiða þeim bætur.


mbl.is Níu manns bíða þess að vera grýtt til bana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðningin sýnir ráðaleysi Geirs

Það er augljóst að Geir Haarde ber ábyrgð á stöðu efnahagsmála á Íslandi hvað sem ýmsir vinir ríkisstjórnarinnar, s.s. Katrín Júlíusdóttir, reyna að bera blak af honum. Sumir reyna jafnvel að telja fólki trú um að George Bush eigi meginsökina vegna heimskreppunnar. Það er auðvitað ekki svo þar sem Geir hefur sýnt algjört andvaraleysi gagnvart erlendri lántöku viðskiptabankanna sem hafa dælt fé til viðskiptavina til að kaupa húsnæði og bíla. Í lok árs 2005 var staða þjóðarbúsins neikvæð við útlönd um 856 milljarða en hefur nú versnað gríðarlega, í vor var hún 2.212 milljarðar.

Til þess að komast út úr erfiðleikunum er ráðinn fyrrum forstöðumaður Hagfræðistofnunar HÍ sem hefur m.a. komið með það sérkennilega ráð að hætta þorskveiðum í nokkur ár í þeirri von að þorskurinn staflist upp á miðunum, og staflist síðan eftir það í enn stærri stæður.

Á vordögum 2006 skilaði nýi efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar af sér skýrslu ásamt hagfræðingnum Mishkin þar sem meginefnið var að efnahagslífið á Íslandi stæði einkar styrkum fótum og var skýrsla hagfræðinganna ósammála varnaðarorðum Danske bank um íslenska fjármálakerfið. Ef meira mark hefði verið tekið á þeirri gagnrýni sem íslenska fjármálakerfið varð fyrir á haustdögum 2005 frá Danske bank væri staðan allt önnur og Geir léttari í skapi.

Það er eins og mig minni að nýráðinn efnahagsráðgjafi hafi einnig talið að skuldabréfaútgáfa í íslenskum krónum, svokölluð jöklabréf, sýndu styrk íslenska efnahagskerfisins og blásið þar með á þá gagnrýni að þetta gæti verið varasamt. Það kemur á óvart að Tryggvi stökkvi í þessa vinnu því að maður hefði haldið að fjárfestingarfyrirtækið Askar Capital sem Tryggvi stýrir þyrfti á öllu sínu að halda eftir að hafa tapað 800 milljónum króna í fyrra.

Það er ekki úr vegi að óska þeim Geir og Tryggva góðs gengis. Ekki veitir þeim af. En þeir verða þá að horfast í augu við og viðurkenna fyrri mistök.


mbl.is Nauðsynlegt að ná niður verðbólgu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Bretinn kominn aftur á Íslandsmið?

Það er í tísku nú að kenna hlýnun jarðar um alla óvænta atburði og náttúrulegar sveiflur. Það á jafnt  við um mikil veður og breytingar á dýralífi. Í raun er sama hver breytingin er, alltaf er hlýnun jarðar fyrsta skýringin sem sett er fram. Fyrr í sumar syntu tveir ísbirnir á land hingað í Skagafjörðinn. Sá fyrri var vart stiginn á land fyrr en hann var talinn óræk staðfesting á hlýnun jarðar.

Í fyrra og hittiðfyrra kom fram í rannsóknum grafalvarlegt ástand sandsílastofnsins. Ástæðan hlaut að vera alvarlegar umhverfisbreytingar af völdum hlýnunar jarðar enda er það móðins.

Í gær bárust þær gleðifréttir í Viðskiptablaðinu að það hefði orðið mikill viðsnúningur á sandsílastofninum og hann sé í þann mund að ná sér á strik. Þessar fréttir hljóta að koma þeim sem trúa á ráðgjöf Hafró í blindni algerlega í opna skjöldu þar sem samkvæmt reiknisfiskifræðinni ætti helst að vænta mikillar nýliðunar og uppbyggingar þegar stofnar eru stórir og alls ekki ef þeir hafa verið í mikilli lægð um áraraðir. Samkvæmt framangreindu væri rökrétt að álykta að miklar breiður af hitaþolnu sandsíli hefði synt yfir Atlantsála og tekið sér bólfestu hér við land. 

Mér hefur alltaf þótt þessi kenning um að loftslagsbreytingar á meintu hvarfi sandsílisins af Íslandsmiðum æði langsótt þótt ekki væri fyrir annað en að tegundin lifir í miklum mun heitari sjó en hér er við land. Það er ljóst að sandsílið hefur mikil áhrif á lífsafkomu fjölda dýrategunda, s.s. lundans sem er landsmönnum kær. Það er miklu nærtækara að skýra sveiflur í magni sandsílis út frá stærð ýsustofnsins en hún er sólgin í sandsílið og slungin að ná því upp af botninum. Á undanförnum árum hefur ýsustofninn verið stór og hefur það án nokkurs efa komið niður á sandsílinu.

Aukningin á sandsíli er líklegast til marks um að ýsustofninn sé að gefa eftir, nema jú auðvitað að um sé að ræða hitakær bresk síli sem hafi stungið sér inn fyrir landhelgina.


Mun Jóna Kristín Þorvaldsdóttir styðja áframhaldandi mannréttindabrot?

Kunningi minn af Suðurnesjunum sló á þráðinn til mín fyrr í dag og gerði stuttlega athugasemd við skrif mín þar sem ég hefði gefið í skyn að fyrrum sóknarprestur hefði slitið meirihluta bæjarstjórnarinnar í Grindavík til þess eins að komast í ofurlaun sem Samfylkingin hafði skammtað fyrri bæjarstjóra.

Hann sagði að meira hlyti að búa að baki og að öllum líkindum tæki nýi bæjarstjórinn af fullum krafti þátt í baráttu gegn brotum stjórnvalda á mannréttindum íslenskra sjómanna. Þeir eru líka margir í Grindavík. Ég vona svo sannarlega að nýi bæjarstjórinn fari gegn Ingibjörgu Sólrúnu og gerist málsvari Ásmundar Jóhannssonar í glímunni við Golíat.

Guð láti gott á vita.


mbl.is Bátur á ólöglegum veiðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofurlaunasamningar Samfylkingarinnar

Á sama tíma og Jóhanna Sigurðardóttir saup hveljur og náði vart andanum í ræðustól Alþingis af hneykslun yfir ofurlaunasamningum í þjóðfélaginu gerði Samfylkingin í Grindavík ofurlaunasamning við fyrrverandi bæjarstjóra, Ólaf Örn Ólafsson, sem virðist hafa verið ráðinn á svipuðum kjörum og forseti Íslands og mun betri en forsætisráðherra þjóðarinnar.

Eitthvað virðist sem umrædd launakjör hafi verið girnileg beita og svo góð að leiðtogi jafnaðarmannaflokksins hafi tekið þá ákvörðun að slíta meirihlutanum til að geta sjálf sest í stólinn og makað krókinn, a.m.k. hefur hvergi komið upp kvittur um að um einhvern málefnaágreining hafi verið að ræða.

Umræddur samningur kom bæjarbúum í opna skjöldu, og jafnvel bæjarfulltrúum, enda er getið um sérkjör bæjarstjórans í einhverjum viðauka sem samþykktur er löngu eftir ráðningu bæjarstjórans.

Leiðtogi Samfylkingarinnar hefur verið drjúg við að skipa nýja sendiherra og jafnvel ráða ríkisforstjóra með ómálefnalegum hætti, eins og forstjóra Varnarmálastofnunar, og margir samfylkingarmenn hafa varið fyrrverandi REI-furstann sem vildi ekki skila opinberum gögnum. Líklegast er nú skynsamlegast fyrir almenning, ég tala ekki nú um blaðamenn, að grennslast fyrir um á hvaða ofurlaunum Samfylkingin hefur ráðið flokkshesta sína - og hvort einhverjir óvæntir viðaukar komi upp úr kafinu sem almenningur verður látinn punga út fyrir.


Björn Bjarnason næsti forsætisráðherra?

Í pottunum og víðar heyrir maður á sjálfstæðismönnum vaxandi óánægju með Geir Haarde, sérstaklega slæma stöðu efnahagsmála sem hann ber mesta ábyrgð á sjálfur, þráa við að viðhalda vondu kvótakerfi og síðast en ekki síst undanlátssemi gagnvart vitleysunni í Samfylkingunni.

Þegar litið er yfir þinglið sjálfstæðismanna kemur einn maður upp í hugann sem væri líklegur til að snúa af þessari braut þráa og aðgerðaleysis Geirs Haarde. Það er helst Björn Bjarnason sem er vinnusamur og tilbúinn að skoða mál upp á nýtt, s.s. evrumálin. Hver veit nema dómsmálaráðherra sé einnig tilbúinn til að skoða sjávarútvegsstefnu þjóðarinnar sem hefur stórskaðað hana?


mbl.is Ríkisstjórnin ræði evrumál við ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fréttablaðið: Stendur ekki á útúrsnúningum - bíða með leiðréttingar

Fréttablaðið hefur undir stjórn Þorsteins Pálssonar verið mjög andsnúið Frjálslynda flokknum og ritstjórn blaðsins hefur hvað eftir annað afvegaflutt málflutning flokksmanna. Það á sérstaklega við um viðkvæma en nauðsynlega umræðu sem snýr að útlendingum. Í vikunni var fullyrt að ég varaði sérstaklega við fréttaflutningi af málefnum flóttamannsins Pauls Ramses hér á bloggsíðunni.

Það er auðvitað ekki rétt eins og lesendur síðunnar vita. Það rétta í málinu var að ég nefndi í athugasemd eitthvað á þá leið að sagan segði að það væri rétt að vera gagnrýninn í fréttaflutningi. Það er umhugsunarvert að ekki stóð á því að Fréttablaðið sneri út úr skrifum mínum en þegar átti að koma að leiðréttingum bárust mér þau boð í tölvupósti frá blaðinu að leiðréttingin yrði birt um helgina en síðan kom í ljós að ekki var pláss í blaðinu og leiðréttingin verður ekki birt fyrr en einhvern tímann í næstu viku.


Merktur mannréttindabrotum og útdauða


 
Nýjasta nýtt er að sjávarútvegsráðherra Einar Kristinn Guðfinnsson vill efla íslenskan sjávarútveg með því að kynna hann sem sjálfbæran og vistvænan. Óvíst hvort ráðherra verði kápan úr því klæðinu þar sem sviðsstjóri veiðiráðgjafarsviðs Hafró kvað upp þann dóm í vor að þorskstofninn hefði aldrei verið jafn lítill, en nokkru áður höfðu sérfræðingar Hafró látið þess getið að það þyrfti að friða stofninn svo að hann dæi ekki út. Það eru reyndar sárafáir sem starfa í atvinnugreininni sem sjá hlutina jafn svarta og sérfræðingarnir sem sjávarútvegsráðherra ætlar að kalla til vitnis um sjálfbærni fiskveiðanna.

Það eru miklu meiri líkur á því að erlend umhverfissamtök sem sum hver eru alfarið á móti fiskveiðum muni nýta sér í baráttunni gegn íslenskum afurðum að það kerfi sem notað er til að stýra veiðum sé álitið af Sameinuðu þjóðunum ósanngjarnt, brjóta í bága við mannréttindi og hafa neikvæða ímynd rétt eins og alþjóðleg merki sem þrífast á barnaþrælkun.
 

Fjarstæðukennd rannsókn
Það er greinilega mikil örvænting hjá stjórnvöldum að leita að einhverjum skýringum á því hvers vegna ekki koma fleiri nýliðar inn í veiðina þrátt fyrir að stöðugt sé veitt minna og minna úr þorskstofninum í þeirri viðleitni að byggja upp stofninn en árangurinn er hrikalegur, ráðgjöfin hljóðar upp á þrefalt minni veiði en áður en þetta einkennilega uppbyggingarstarf hófst. Nú berast fréttir af því að ráðherra hafi gert að sérverkerkefni sínu að kanna hvort virkjanir á Suðurlandi hafi áhrif á ferskvatnsflæði til hafs og efnainnihald yfirborðslaga á hrygningarslóðum og þar með komið í veg fyrir fæðunám þorsklirfa. Það er auðvitað fráleitt að telja að virkjanir hindri að vatn berist til hafs en mögulega getur það að litlu leyti breytt efnainnihaldi vatnsins. Fjarstæða er að það hafi einhver áhrif langt úti í hafi.

Það er engu líkara en að ráðherra hafi ýtt öllum sem hafa einhverja þekkingu á líffræði þorsksins til hliðar í dauðaleit að skýringu á því hvers vegna reiknilíkönin sem gefa til kynna að uppbygging sé ætíð á næsta leiti gangi ekki upp. Fyrir það fyrsta hefst ekki fæðunám hjá þorskinum fyrr en um þremur vikum eftir klak og hefur þorskegg og lirfa að jafnaði borist langt frá þeim stað sem hrygning fór fram og í öðru lagi hefur ekki verið sýnt fram á nokkurt samband á milli magns þorskseiða og mikillar nýliðunar. Þessar niðurstöður voru svo skýrar að Hafró afréð að leggja af sérstakt seiðarall.

Er ekki orðið tímabært að skoða nánar og fara yfir vel rökstuddar röksemdir þeirra sem hafa bent á svo árum skiptir að núverandi aðferðafræði og fiskatalning Hafró sé dæmd til að mistakast enda stangast hún á við viðtekna vistfræði, þ.e. að ætla að fjölga og stækka stofn þegar mælingar sýna að einstaklingsvöxtur er við sögulegt lágmark?

Við hvað er ráðherra hræddur?

 

 


Er Fréttablaðið í blaðamennsku, Kio Briggs og Plank?

Í gær hringdi í mig blaðamaður og óskaði eftir áliti mínu á máli Pausl Ramses. Ég svaraði spurningunum eftir bestu getu og tók fram að mál sem þessi væru viðkvæm og erfið.  

Það sem var megininntak þess sem ég kom á framfæri við blaðamanninn var að Paul Ramses hafi fengið sömu meðferð og aðrir sem hefðu verið í sömu sporum. Ég tók fram að eftir því sem ég best vissi hefði hann ekki óskað eftir því að fjallað yrði um mál sitt og konu sameiginlega af Útlendingastofnun. Ákvörðun um framsal Pauls hefði verið tekin í janúar á þessu ári en henni hefði verið frestað af tillitssemi.

Ég nefndi að mér þætti mjög miður að barátta fyrir landvist Pauls væri á stundum rekin með mjög rætnum hætti 1  2  3 4  þar sem spjótum væri beint persónulega að starfsmönnum Útlendingastofnunar og dómsmálaráðherra, sérstaklega þegar viðkomandi hafa annars vegar ekkert komið að málinu eða hins vegar leyst úr því með svipuðum hætti og sambærilegum málum.

Ritsjórn Fréttablaðisins ákvað einhverra hluta vegna að birta ekki umrætt viðtal en í þess stað snúa út úr skrifum mínum á blogginu þar sem ég svaraði sjálfskipuðum talsmanni mannúðar og umburðarlyndis sem fullyrti að á Útlendingastofnun væri ,,uppfull af þurrum skrifstofukellingum" sem framfylgdu þar að auki aríastefnu.

Hér er svar mitt við þessum ómerkilega áburði sem ritstjórn Fréttablaðsins setur í samhengi við að ég vari við fréttaflutningi af máli Pauls Ramses! 

,,.. ég tel vafasamt og rauninni mjög rangt að tala um aríastefnu.

Útlendingastofnun er að framfylgja reglum þjóðfélagsins.  Það eru ýmsir sem fjölmiðlar hafa borið á höndum sér sem ekki hafa reynst merkilegir þegar málin hafa verið skoðuð ofan í kjölinn s.s. Planton og Kyo Briggs."


Paul Ramses vs. Björn Bjarnason

Mál Íslandsvinarins og Keníubúans Pauls Ramses hefur verið rekið á mjög tilfinningasömum nótum þar sem Ramses, hinn bjarti góði drengur, er fórnarlamb hins svarta Björns Bjarnasonar sem býr í Skuggasundi. Ekki ætla ég að hætta mér út í þá umræðu, heldur benda á að Samfylkingin sem vill að við Íslendingur göngum inn í bandalag hinna góðu og göfugu Evrópuríkja treystir alls ekki einu af stofnríkjum Evrópusambandsins til að fjalla með óvilhöllum hætti um mál Ramses sem er algjörlega borðliggjandi að mati Evrópusinnanna í Samfylkingunni.
mbl.is Vill að dómsmálaráðherra endurskoði ákvörðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband