Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Áfram gríðarlega háir vextir

Síðustu dagana hafa verið uppi háværar umræður um að nú væri von til þess að Seðlabankinn gæti lækkað vexti, m.a. til að koma húsnæðismarkaðnum af stað á ný en hann hefur staðið pikkfastur síðustu mánuðina.

Seðlabankinn var í mjög þröngri stöðu þar sem háir vextir hafa haldið uppi háu gengi íslensku krónunnar, m.a. með útgáfu svokallaðra jöklabréfa í íslenskum krónum. Útgáfa þeirra nemur hundruðum milljarða króna. Ef þessir aðilar færu út af markaðnum í einni hendingu hefði það alvarlegar afleiðingar til lækkunar á íslensku krónunni. Nú er sú staða uppi að gengi krónunnar hefur hrapað þrátt fyrir háa vexti og er sú hækkun rakin til lækkunar á hlutabréfum og meiri efasemda um efnahagslífið. Það sem spurningarmerki hefur verið sett við er gríðarlegur viðskiptahalli sem stafar ekki af mikilli fjárfestingu í atvinnutækjum heldur að miklum hluta af mikilli neyslu eins og má sjá á dýrum bílaflota sem ekið er um þjóðvegi landsins.

Það hefði mátt búast við því að ef Seðlabankinn hefði farið í mikla lækkun stýrivaxta, m.a. til að koma húsnæðismarkaðnum á flot, hefði það getað haft áhrif til enn frekari lækkunar gengis íslensku krónunnar með tilheyrandi hækkun verðlags á innfluttum vörum.

Það má segja að fáir góðir leikir hafi verið í stöðunni hjá Seðlabankanum þar sem stjórnvöld hafa tekið mjög óábyrgar ákvarðanir og skorið niður þorskafla og minnkað þar með gjaldeyristekjur þjóðarinnar - og í ofanálag þanið út ríkisútgjöld um allt að 20%.   

Það merkilega við umræðuna um efnahagsmál núna snýst ekki um framangreinda hluti, heldur um gjaldmiðilinn sem slíkan, þ.e hvort við við notum krónu eða evru. Ýmsir stjórnmálamenn virðast hafa þá barnalegu trú að allt lagist með því einu að skipta úr krónu í evru. Þó fylgir sjaldnast sögunni að ójafnvægið er slíkt, bæði vegna hárrar verðbólgu og vaxta, að Íslendingar eru langt frá því að geta uppfyllt þau skilyrði sem sett eru fyrir upptöku evrunnar.

Það er gömul og ný saga að árinni kennir illur ræðari.


mbl.is Krónan styrktist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Magnússon, Ólafur F. Magnússon og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson

Í 24 stundum í dag skrifar Margrét Kristjana Sverrisdóttir grein þar sem hún lýsir miklu frati á núverandi borgarstjórnarmeirihluta og er rauði þráðurinn í röksemdinni persónulegar aðdróttanir að Ólafi og Vilhjálmi.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem heilög Margrét lýsir aðra stjórnmálamenn vanhelga. Þar má nefna að hún gekk hart fram í persónulegum svívirðingum gegn Jóni Magnússyni þar sem hún gerði honum upp skoðanir. Það er eitt að greina á um og efast um núverandi meirihluta og pólitísk viðhorf manna en annað að lýsa þá nánast vanhelga. Ég er þeirrar skoðunar að Margrét verði að hugsa sinn gang þar sem hún snýst af heift ítrekað gegn sínum fyrri samherjum.

Þetta ætti að vera til umhugsunar fyrir þá sem hyggja á samstarf við hana. 


Borgarstjórn leggst gegn opnun nýrra verslana

Það er ánægjulegt að sjá að vinstri grænir virðast vera búnir að finna fjölina sína aftur, enda eru þeir á ný komnir í stjórnarandstöðu í borginni. Þeim virðist láta það mun betur en að vera í stjórn borgarinnar.

Borgarstjórinn okkar fyrrverandi virðist enn vera í vandræðum þrátt fyrir að hafa axlað mikla ábyrgð en hann leitar aðstoðar góðra manna við að leysa úr vanda sínum. Í Fréttablaðinu í dag kemur fram að hann hefur ekki látið sér nægja að ræða við Geir Haarde, heldur hefur einnig ráðfært sig við sjálfan Davíð Oddsson. Þegar virkilega gefur á bátinn virðist enn vera leitað til sjálfs yfirformannsins sem hefur enn tögl og hagldir þegar á reynir. 

Það verður líka að segjast eins og er að hann hefur leyst úr jafnvel enn stærri vanda, sbr. vanda Árna Johnsens. Hann gerði það svo vel að Árni skilaði sér fljótlega á þing. Ég hef það fyrir satt frá óvilhöllum mönnum sem fylgjast með þingstörfum að Árni sé ekki bara betri maður á þingi, heldur betri þingmaður, einn besti þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Þótt margt sé sérkennilegt við stjórn Reykjavíkur virðist sem sveitarstjórnir annars staðar á landinu séu jafnvel í enn meiri vanda. Í Fréttablaðinu segir í dag frá Haraldi Sigurðssyni, útræðisbónda frá Núpskötlum, sem óskaði eftir því að sveitarstjórnir í Þingeyjarsýslum styddu þá kröfu Fonts, félags smábátasjómanna á Norðausturlandi, að veiðar smábáta yrðu gerðar frjálsar á ný. Í fréttinni kemur fram að það að styðja atvinnuuppbyggingu á svæðinu standi í sveitarstjórnarmönnum. Það er galið að vilja ekki standa við bakið á henni og væri álíka og að borgarstjórn Reykjavíkur legðist gegn því að nýjar verslanir gætu opnað í Reykjavík.


Siggi og Bjössi, þynnka og röfl

Athyglisvert var að renna í gegnum Fréttablaðið í morgun. Þar tók Sigurður Líndal Björn Bjarnason rækilega í gegn í grein þar sem hann fjallaði um umdeilda skipan Sjálfstæðisflokksins í dómaraembætti. Hann dró fram hvernig Björn Bjarnason reyndi að víkja sér undan þegar hann var orðinn rökþrota í málinu.

Ég hef ákveðna samúð með Birni Bjarnasyni þar sem hann lifir og hrærist í áhugamáli sínu í hernaðarkúltúr þar sem menn fylgja skipunum foringjans. Hann hefur greinilega fylgt þeirri skipun og ver vígið með öllum tiltækum ráðum þó að staðan sé æði þröng út frá þeim viðmiðum sem siðuð þjóðfélög búa við. 

Öllu lakari var grein Sauðárkróksskáldsins Hallgríms Helgasonar en hann reit söguna Rokland sem er óður til heimabæjar míns. Þessi grein í Fréttablaðinu er að nokkru leyti ferða- og lífsreynslusaga þar sem lýsir hughrifum sínum í Færeyjum og þeirri gleði að komast í Bónusverslun sem var klímax ferðarinnar. Hann bergði á bragðlausum Bónusdjús og það var toppurinn í ferðinni.

Það var nokkuð erfitt fyrir mig að átta mig á hvað skáldið mitt, Hallgrímur Helgason, var að fara í þessari grein en eftir þó nokkra yfirlegu og umhugsun, m.a. í heitum potti í sundlaug, komst ég að því að eina rökrétta ástæðan fyrir þessu væri venjuleg íslensk þynnka með færeysku ívafi. Hringdansinn getur farið illa í óvanan Íslendinginn.

Það var virkilega erfitt að komast að því hvað hann væri að fara í greininni, en mér er með öllu óskiljanlegt hvað Helgi Áss Grétarsson rr að fara í greinaflokki sínum um álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna á íslenska kvótakerfinu. Þriðji hluti hans birtist í dag. Greinaflokkurinn hefur verið flest annað en upplýsandi. Það er erfitt að henda reiður á hvað þessi illskiljanlega samsuða og nánast röfl hefur að gera með álit mannréttindanefndarinnar.

Ég veit varla hvernig ég á að útskýra hvernig tautið virkar á mig. Hann hljómar svolítið eins og maður sem hefur búið sér til kennisetningar og fær nú í hausinn að þær gangi ekki upp út frá jafnræðissjónarmiði og séu óréttlátar. Samt sem áður streðast hann við að segja í hálfum hljóðum að álitið muni litlu breyta.


Sjálfstæðisflokkurinn boðar frekari skattahækkanir á einstaklinga

Hið opinbera hefur á síðustu árum ráðstafað æ stærri hlut af þjóðarkökunni. Á árinu 1995 var skattbyrðin 32% en hefur farið hratt upp á við í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins, er komin vel yfir 40% og áreiðanlega farin að nálgast 45% af landsframleiðslu.

Ekki er að sjá að Sjálfstæðisflokkurinn hafi slakað á eyðsluklónni þó að hann hafi skipt um meðreiðarsvein í ríkisstjórninni. Fjárlög fyrir árið 2008 hækkuðu um 18% frá fyrra ári. Miklu frekar hefur því verið gefið í en dregið úr eyðslunni.

Birgir Ármannsson   

Í 24 stundum í dag er grein eftir Birgi Ármannsson þar sem hann boðar sérstaka skattalækkun á fyrirtæki þannig að það er ekki hægt að ráða annað af orðum hans og eyðslu stjórnvalda en að fara eigi dýpra í vasa einstaklinganna til að standa undir síaukinni eyðslu Sjálfstæðisflokksins.


Sjálfstæðisflokkurinn og Maó

Ég var að lesa ævisögu eftir Jung Chang og Jon Halliday um dekkri hliðarnar á valdabrölti einræðisherrans Maós. Það kom skýrt fram að Maó fyrirleit réttarríkið og vildi stjórna með tilskipunum flokksræðisins.

Nú þegar ég verð vitni að tómlætislegum viðbrögðum forsætisráðherra Geirs Haarde og ekki síður þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins Arnbjargar Sveinsdóttur við úrskurði mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um að fiskveiðilögin séu ósanngjörn og þeim beri að breyta svo að atvinnufrelsi og jafnræði þegnanna séu tryggð hvarflaði óneitanlega að mér að skeytingarlaus og í raun harðneskjuleg viðbrögð þeirra við úrskurðinum væru ekki sæmandi í flokki sem kennir sig við lýðræðið og grundvallar í orði kveðnu stefnu sína á mannréttindum þegnanna. Þau hljóma frekar eins og þau eigi heima í flokki Maós. Mér fannst orðræða þeirra miklu frekar eiga við fulltrúa alræðisflokks sem lætur grundvallarmannréttindi og reglur réttarríkisins lönd og leið.


Sjávarútvegurinn fórnarlamb hugmyndafræði

Á Íslandi má færa ítarleg rök fyrir því að sjávarútvegurinn og byggðirnar sem byggja á honum hafi orðið fórnarlömb hugmyndafræði þar sem ekkert mark hefur verið tekið á raunsæi og nytsemishyggju. Annars vegar má skipta þeirri hugmyndafræði í stjórn veiða með það að markmiði að byggja upp fiskistofnana. Þau fræði hafa hvergi gengið eftir í heiminum enda stangast þau á við viðtekna vistfræði eins og ég hef margoft bent á. Hins vegar hafa hagfræðingar gleypt þessi fræði og yfirfært á skortskenningar sínar og búið til framseljanlegt kvótakerfi þar sem viðkvæðið er að um takmarkaða auðlind sé að ræða.

Það er auðvitað vafasamt vegna þess að þessi auðlind er vissulega endurnýjanleg en ekki takmörkuð. Þessi fræði eru á góðri leið með að keyra sjávarútveginn og byggðirnar í kaf.

Í Færeyjum horfir málið öðruvísi við. Þar hefur verið þjóðarsátt um að leggja til hliðar reiknisfiskifræðin sem ganga út á að veiða minna til að veiða meira seinna. Ekkert hefur verið farið eftir þessum fræðum sem hafa líka hvergi gengið upp eins og áður segir. Helst hefur þó reiknisfiskifræðin átt hljómgrunn í Þjóðveldisflokknum, en faðir Högna er fiskifræðingur og flokkurinn sækir fylgi sitt m.a. til stofnanafólks.

Nýja stjórnin í Færeyjum hyggst leigja hæstbjóðendum fiskveiðiréttindin til þriggja mánaða í senn. Með því verður eflaust tryggður eignarréttur þjóðarinnar yfir auðlindinni eins og Frjálslyndi flokkurinn beitir sér fyrir. Það sem maður óttast þegar réttindin eru öll leigð út í svona skamman tíma er að erfitt geti verið að tryggja fjárfestingu í greininni. Þessi tilhögun býður upp á að menn hugsi sig tvisvar um áður en þeir fara út í miklar fjárfestingar í útgerð. Í öðru lagi má óttast að samkeppni og háar greiðslur fyrir leigu á aflaheimildum geti orðið til þess að launagreiðslurnar minnki til þeirra sem starfa í greininni.

Hér á Íslandi hafa kjör sjómanna versnað, og minni fjárfesting orðið í greininni þrátt fyrir að stjórnvöld hafi ætlað sér að úthluta aflaheimildum varanlega til útgerða. Það hefur orðið vegna þess að útgerðir hafa lagt í gríðarlegan kostnað til að króa af varanlegar aflaheimildir“.

Það sem öllu máli skiptir er að við stjórn fiskveiða hafi menn raunsæi og nytsemishyggju að leiðarljósi. Reynslan sýnir okkur að hingað til hafi Færeyingum lánast miklum mun betur en okkur Íslendingum að stjórna fiskveiðum af skynsemi í stað þess að láta stjórnast í blindni af einhverjum ismum. Það verður fróðlegt að fylgjast með hvort núna verði breyting á því með nýrri stjórn.

Mér segir svo hugur að íslensk stjórnvöld - með sjálfan Einar Kristin í broddi fylkingar - muni ekki reyna að læra af reynslu Færeyinga enda búum við við besta fiskveiðistjórnunarkerfi í heimi“.


mbl.is Ólga í Þjóðveldinu vegna ráðherraskipunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tepruskapur í kringum embætti forseta Íslands

Það kemur nokkuð á óvart að allt útlit er fyrir að ekki verði neitt raunverulegt mótframboð gegn Ólafi Ragnari Grímssyni. Það er engu líkara en að þeir sem fjalla um stjórnmál í samfélaginu geri einfaldlega ekki ráð fyrir að um mótframboð geti orðið að ræða. Þetta kemur á óvart vegna þess að störf hans urðu fyrir harðri og óvæginni gagnrýni hjá vissum öflum í samfélaginu þar sem forsetinn var gagnrýndur á persónulegum nótum fyrir það að hann vísaði fjölmiðlalögunum árið 2004 í atkvæðagreiðslu hjá þjóðinni.

Ekki alls fyrir löngu átti ég leið um Alþingishúsið og var boðið þar í mat þar sem eitt og annað bar á góma. Þá spurði ég einn af metnaðargjörnum forystumönnum íslenskra stjórnmálaflokka hvort hann hygðist ekki láta til sín taka í forsetaframboðinu í vor. Honum varð um og lá við að stæði í honum, honum fannst greinilega fjarstæðukennd spurning að hann sæktist eftir æðsta embætti þjóðarinnar.

Svo heyrir maður útundan sér að fólk veltir fyrir sér kostnaðinum við forsetaskipti. Fólki finnst hagkvæmast að sami maðurinn haldi áfram sem forseti sem lengst vegna þess að það sparar eftirlaunagreiðslur. Þessi umræða gagnvart Ástþóri og kostnaði við framboð hans fyrir samfélagið er stórundarleg þar sem fyrir honum vakir aðeins að nýta sér lýðræðislegar leikreglur sem eru í gildi. Eðlilegra væri að stjórnmálaflokkarnir beittu sér fyrir að breyta reglunum en að beina spjótum sínum að Ástþóri.

Það er að mínu viti orðið tímabært að breytingar verði gerðar á stjórnarskránni og að fram fari umræða í leiðinni um þetta æðsta embætti þjóðarinnar.


Svandís á móti því sem hún lagði til í vikunni - ekki í fyrsta sinn

Svandísi Svavarsdóttur virðist vera einkar lagið að snúa við blaðinu og er nú á góðri leið með að toppa sjálfan Össur Skarphéðinsson sem lengi var legið á hálsi fyrir að geta ekki haft sömu skoðun frá morgni til kvölds. 

Í haust sem leið beitti hún sér hart fyrir að upplýsa REI-málið en þegar hún komst í stjórn með Birni Inga var hennar fyrsta verk að senda málið í nefnd þaðan sem engar upplýsingar hafa borist almenningi.

Nú í kvöld birtist Svandís í tíu-fréttum RÚV og mátti helst skilja á henni að hún væri mjög andsnúin kaupum á húseignum og lóðum við Laugaveginn í Reykjavík vegna þess að gjörningurinn væri fordæmisgefandi. Mér þóttu þetta nokkur tíðindi þar sem Svandís samþykkti í borgarráði að kaupa umræddar eignir á mánudaginn var. Ástæðuna fyrir þessum nýjasta viðsnúningi sínum sagði hún þá að verðið væri of hátt. 

Með réttu ætti nú Tjarnarkvartettinn að líta í eigin barm ef hann hefur skyndilega eitthvað við verðlagninguna að athuga. Með aðgerðaleysi sínu og tvístíganda kom Tjarnarkvartettinn málinu í kremju sem losa þurfti um í flýti og hefur örugglega ekki verið til að gera kaupin hagstæðari fyrir Reykvíkinga.


« Fyrri síða

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband