Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Mun Samfylkingin stuðla að áframhaldandi mannréttindabrotum?

Nú hefur það verið staðfest að Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hefur úrskurðað að íslenska kvótakerfið brýtur í bága við almennar sanngirnisreglur.

Eðlilegt væri að stjórnvöld í réttarríki brygðust skjótt við þessum úrskurði og breyttu kerfinu í snarhasti í sanngirnis- og jafnræðisátt. 

Það verður mjög fróðlegt að fylgjast með hvernig ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks muni bregðast við þessum úrskurði.  Áður en Samfylkingin fór í ríkisstjórn var flokkurinn mjög hávær í mannréttindabaráttu sinni, s.s. harðri kröfu um að hverjum steini yrði velt við í rannsókn á hálfrar aldar hlerunarmáli, á meintum hlerunum sem beindust gegn þingmönnum flokka sem runnu síðan inn í Samfylkinguna. Sömuleiðis héldu þingmenn Samfylkingarinnar innblásnar og funheitar ræður gegn lokun einnar skrifstofu í Reykjavík sem heitir Mannréttindaskrifstofa Íslands.

Nú hefur verið staðfest sem ekki hefði átt að koma á óvart að brotið er gróflega á íslenskum sjómönnum og íbúum sjávarbyggðanna. Það verður fróðlegt að bera saman viðbrögð Samfylkingarinnar annars vegar við brotum gegn íslenskri alþýðu og hins vegar sellufélögum.

Ef Samfylkingin reynir að leiða málið hjá sér segir það okkur það eitt að flokkurinn er endanlega genginn í björg, eins og ræða Ingibjargar á LÍÚ-þinginu 2005 gaf til kynna.


mbl.is Útfærsla kvótakerfis gagnrýnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kristinn góður

Kristinn Pétursson frá Bakkafirði er maður að mínu skapi. Ég er mjög oft sammála honum og get tekið undir margt sem hann segir þó að ég sé þeirrar skoðunar að hann eigi það til að kveða of fast að orði. Vel að merkja, mér finnst hann aldrei taka nógu djúpt í árinni þegar hann ræðir sjávarútvegsmál því að kvótakerfið er svo glórulaust að það liggur við að manni verði illt þegar maður hugsar til þess að íslenska þjóðin hafi notast við þetta kerfi alltof lengi.

Á bloggsíðu Kristins er að finna afar fróðlega umfjöllun þar sem hann gerir rækilega grein fyrir því og reiknar út að sjávarútvegurinn er ofveðsettur um 200 milljarða króna, m.ö.o. geta aflaheimildirnar og sjávarútvegsfyrirtækin þar með ekki staðið undir þeim gríðarlegu skuldum sem búið er að hlaða á greinina. Það er bara útilokað.

Það virðist sem tvær grímur séu að renna á framámenn í stórútgerðinni og þá sem starfa í skjóli þeirra, þeir átta sig orðið á að dæmið gengur ekki upp eins og Frjálslyndi flokkurinn hefur lengi bent á. Eitthvað eru menn samt að berja í brestina, s.s. Elliði Vignisson sem sér sérstaka ástæðu til að taka fram í umfjöllun sinni um sjávarútvegsmál að Eyjamenn séu ekki að gefast upp.

Fregnir úr Vestmannaeyjum herma að blaðamenn þar hafi séð ástæðu til að berja kjark í útvegsmenn í Eyjum og útnefna þá mann ársins 2007. Þar með neyddust þeir til að ganga framhjá fræknustu dóttur Vestmannaeyja, Margréti Láru Viðarsdóttur, íþróttamanni ársins 2007.


Löghlýðnir Pólverjar

Hún er forvitnileg, fréttin í Mogganum um löghlýðnu Pólverjana. Þar kemur fram að þeir brjóti lögin síður en aðrir landsmenn ef marka má tölfræðina sem liggur að baki. Ég tel að það geti verið mjög gagnlegt að ræða þessi mál opið og fordómalaust og leyfa hópum að eiga sitt lof og last með réttu. Það var vafasamt sem sjálfskipaðir verðir leyfilegrar umræðu ætluðu sér síðasta sumar og haust, þ.e. að koma í veg fyrir umræðu um öll afbrot í tengslum við innflytjendur.

Það kemur mér ekki á óvart að Pólverjar séu löghlýðnir en það er pottur brotinn í þeim málum sem varða afbrot erlendra ríkisborgara og hvernig tekið er á þeim, s.s. manna sem eru í farbanni eftir að hafa framið alvarlega glæpi. Þeir geta áfram farið út úr landinu eins og ekkert sé. Hið sama má segja um stórhættulegan eiturlyfjasmyglara sem var varla fyrr búið að vísa út úr landinu en var kominn hingað aftur.

Það er virkilega þörf á að taka á alvarlegum afbrotum útlendinga sem bitna á saklausum löndum þeirra.


mbl.is Pólverjar þeir löghlýðnustu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vakti Geir upp draug?

Í röðum sjálfstæðismanna eru efasemdir um ríkisstjórnarsamstarfið og mörgum þeirra þykir sem Geir Haarde hafi styrkt stöðu Samfylkingarinnar og vakið upp draug - eða jafnvel Grýlu sjálfa - sem Davíð hafði kveðið niður. Óánægja kraumar einnig undir hjá gömlum krötum, líka þeim sem seldi mér flugelda á gamlársdag og sagðist hafa starfað lengi innan Alþýðuflokksins.

Hið sama má segja um gamla góða kratann Björgvin Guðmundsson sem skrifar grein í Morgunblaðið í dag og bendir á að Samfylkingin reynir að sniðganga mesta ranglæti íslensks þjóðfélags sem er kvótakerfið.

Það er auðvitað absúrd að flokkur sem kennir sig við jafnaðarmennsku skuli forðast umræðu um gargandi geðveikt fiskveiðistjórnunarkerfi. Það er eins og að það sé komið með sitt sjálfstæða líf, eigin kennitölu og farið að halda heimili sem stjórnvöldum kemur ekki við nema þá í formi einhverra þversagnakenndra mótvægisaðgerða. Hvernig væri nú að flokkur sem kennir sig við umræðustjórnmál tæki grundvöll kerfisins til umræðu?

Össur fiskalíffræðingur virðist skynja undiröldu sem er í flokkunum og reynir að berja í brestina með því að klifa stöðugt á árangri stjórnarflokkanna í einhverjum skoðanakönnunum. Ég tel að þann árangur flokkanna megi miklu frekar rekja til ómarkvissrar stjórnarandstöðu þar sem stjórnarandstöðuflokkarnir hafa eytt púðri hverjir á aðra í stað þess að veita ríkisstjórninni málefnalegt aðhald.

Það er hætt við að það flæði hratt undan ríkisstjórninni ef fleiri stuðningsmenn verða þess áskynja sem Björgvin Guðmundsson bendir á í grein sinni í Mogganum í dag, að Samfylkingin framkvæmi ekki þau stefnumið sín sem hún bar undir kjósendur síðasta vor.


« Fyrri síða

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband