Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Oddviti Sjálfstæðisflokksins vildi afsögn Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar borgarstjóra

Það er mjög erfitt að átta sig á þeirri atburðarás sem varð til þess að Sjálfstæðisflokkurinn fór frá völdum í Reykjavíkurhreppi.

Í dag upplýstist um sms-skilaboð sem gengu á milli kjörinna fulltrúa þar sem fram kom að viðkomandi væri til í allt án Villa og sömuleiðis hafa kjörnir fulltrúar stundað það síðustu viku að senda frá sér nafnlausar yfirlýsingar um vafasama sameiningu REI og GGE. 

Það eru þó ekki allir kjörnir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins jafn feimnir að koma fram með hreinskipt álit á pólitísku sviptivindunum sem feyktu flokknum frá völdum. Ég gat ekki betur séð en að oddviti Sjálfstæðisflokksins í Tálknafirði, Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, kæmi fram í í Kastljósinu sl. fimmtudagskvöld þar sem hún sagði orðrétt.

Síðan bætti hún því við að ferill Vilhjálms væri allur. 

Það er mín skoðun að Eyrún Ingibjörg hafi með þessari yfirlýsingu sýnt mikinn styrk sem almenningur kann að meta. Hún opinberaði hreinskilnislega afstöðu sína og nánustu samherja til þeirra atburða sem urðu í höfuðborginni.

Eyrún Ingibjörg leiðir eins og áður segir starf Sjálfstæðisflokksins í sjávarbyggðinni Tálknafirði í kjördæmi sjávarútvegsráðherrans  Einars K. Guðfinnssonar og er kjörin í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins.

Það er sannarlega til eftirbreytni að kjörnir fulltrúar viðri afstöðu sína til þessa vafasama máls sem getur orðið til þess að auðlindir lendi með einhverju baktjaldamakki hjá einhverjum skuggaböldrum. Ég er á þeirri skoðun að hreinlegast sé að fram fari lögreglurannsókn á sameiningu REI og GGE og átta mig bara alls ekki á því hvers vegna málfræðingurinn Svandís Svavarsdóttir þykist ætla í þau verk.

Ég spái því að það hitni allsvakalega undir Svandísi ef fólk verður þess vart að hún muni ekki hreyfa við þeim aðila sem liggur undir grun um að vera höfuðpaurinn í baktjaldamakki REI vegna þess að viðkomandi tryggir henni völdin.


Guðmundur G. Halldórsson kvaddur

Í dag var ég við útför stórmerkilegs vinar míns, Guðmundar G. Halldórssonar. Hann var svo sannarlega hress og skemmtilegur og lá aldrei á skoðunum sínum. Okkar sameiginlegu áhugamál sem við ræddum oftsinnis voru stjórnmál, rjúpnaveiðar og selveiðar. Hann var einn af stofnendum Frjálslynda flokksins, einarður baráttumaður fyrir réttlátara og árangursríkara fiskveiðistjórnunarkerfi og þar með byggðum landsins.

Hann hafði einnig áhuga á að Ísland staðfesti þjóðréttarlegan rétt sinn til veiða í norðurhöfum og vildi hann í því skyni m.a. senda skip út til selveiða. Þegar ég sá símanúmerið hans birtast á skjánum mínum vissi ég að í vændum var hressilegt samtal sem jafnaðist á við vítamínsprautu eða jafnvel rautt eðalginseng þar sem málum var velt upp og tekin a.m.k. ein hlátursroka í samtalinu.

Nú eru þeir tímar liðnir. Blessuð sé minning Guðmundar.


Villi féll á eigin bragði

Maður fann til með borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins þegar maður fylgdist með beinni útsendingu sjónvarpsins af fundi þeim sem borgarstjórnarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins boðuðu til. Ég verð að segja eins og er að ég var virkilega farinn að finna til með fólkinu sem stóð þar fyrir svörum. Þau voru ringluð og sársvekkt, og greinilega ekki búin að vinna úr tilfinningum sínum.

Það má þó segja að borgarfulltrúi Vilhjálmur Þór hafi fallið á eigin bragði, því sem hann beitti þegar hann blekkti Ólaf F. Magnússon vorið 2006 eftir kosningarnar þá. Eini munurinn er sá að nú hefur taflið snúist við og borgarfulltrúi Björn Ingi Hrafnsson lék á Villa með því að telja honum trú um að samstarfið héldi. Þannig hélt hann Villa volgum.

Þessi vinnubrögð öll eru þó ekki til eftirbreytni, hvort sem um er að ræða ráðslag Villa eða Binga.

Eftir þennan tilfinningahlaðna blaðamannafund Sjálfstæðisflokksins birtist forsætisráðherra okkar í þinghúsinu, ekki síður sár og svekktur á svip og í tali. Það var greinilegt að honum fannst sem hann hefði misst borgina sína sem hann ætti með hurð og gluggum. Hann tók það þó fram að hann hefði leitað eftir fundi hjá „samstarfskonu“ sinni sem staðfesti við hann að hann væri ekki að missa sæti sitt í landsstjórninni. Var honum greinilega mikill léttir að þeim huggunarorðum formanns Samfylkingarinnar.

Nú er að sjá hvort Ingibjörg leikur sama leikinn og bæði Björn og Villi.

Það er rétt að óska nýjum meirihluta borgarstjórnar og borgarstjóra velfarnaðar. Maður hefur vissar efasemdir en þær væru eflaust mun minni ef í borgarstjórastólnum sæti Svandís Svavarsdóttir. Hún hefur sýnt af sér röggsemi og það verður fylgst með störfum hennar.


Meira um REI og GGE - svar til Vilhjálms Þorsteinssonar

Ég var byrjaður að svara athugasemd frá Vilhjálmi Þorsteinssyni við pistli mínum um hjal sjónvarpsmannsins Evu Maríu við athafnamanninn Bjarna Ármanns í athugasemdakerfinu en ákvað síðan að gera svarið að sérstökum pistli:

 

Vilhjálmur Þorsteinsson ritar hér að ofan nokkrar línur þar sem hann setur fram lágmarkskröfur til mín sem eiga að felast í að ég eigi að reyna að kynna mér hlutina áður en ég læt vaða á súðum eins og hann orðar það. Nú skal ósagt látið hvort ég bjóði fram starfskrafta mína í stjórnmálum á ný þannig að þessar áhyggjur Vilhjálms gætu verið með öllu óþarfar.

Í sporum Skerfirðingsins Vilhjálms hefði ég miklu meiri áhyggjur af borgarstjóranum okkar sem virðist ekki hafa kynnt sér eitt eða neitt varðandi sameiningu REI og GGE og virðist koma af fjöllum þegar hann er spurður út í kaupréttarsamninga starfsmanna og verðmat fyrirtækisins. Hann er jafnvel illskiljanlegur á köflum þar sem hann virðist vita miklu minna um málið en þeir sem fylgjast endrum og eins með fréttum.

Varðandi athugasemdir Vilhjálms að öðru leyti:

1. Ég vil leyfa mér að kalla fyrstu athugasemdina orðhengilshátt þar sem það var vissulega gert ráð fyrir að viðkomandi starfsmenn, sumir nýráðnir, fengju að kaupa í fyrirtækinu á ákveðnu gengi þó að þeir hafi ekki verið framvirkir.

2. Það hefur komið fram að ekki liggur fyrir neitt óháð verðmat á REI, ekki annað en mat stjórnenda fyrirtækisins sem ákváðu sér síðan rétt til að kaupa hlut í fyrirtækinu á kjörum sem eru helmingi lægri en öðrum starfsmönnum áttu að bjóðast. Þeir sem voru neðar í goggunarröðinni áttu að fá að kaupa á genginu 2,77 og þeir sem ákváðu þessi skipti ákváðu helmingi betri sérkjör fyrir sjálfa sig.  Það er rétt að gæta að því að hér er um eigur hins opinbera að ræða sem stjórnendurnir Vilhjálmur og Björn Ingi eru að rétta út til valinkunnra fyrir mjög mismunandi háa endurgreiðslu.

2,77 eru ekki sérkjör fullyrðir Vilhjálmur en þau bjóðast samt sem áður ekki öðrum borgarbúum eða fjárfestum. Þeir sem ákváðu sjálfum sér til handa að greiða helmingi lægra verð hljóta þá að hafa verið að skammta sjálfum sér tombóluverð. 

Það sem er sömuleiðis alvarlegt í þessum skyndisamruna er að það fór ekki fram neitt óháð verðmat á GGE, a.m.k. hefur það ekki verið kynnt nokkrum manni.

3. Að réttlæta kaupréttinn með því að um lykilstarfsmenn væri að ræða er eins og hvert annað þvaður. Þarna er margur annar á skrá yfir kaupréttarhafa en þeir sem búa yfir verðmætri þekkingu.  Ég ætla að gera það að tillitssemi við viðkomandi að vera ekki að margtyggja þau nöfn sem hafa flækst inn á þennan lista, s.s. skemmtanastjórans o.fl.

4. Það að eitthvað hafi alltaf legið ljóst fyrir í þessu máli er mjög vafasöm fullyrðing en síðast í gærmorgun hlýddi ég á Hjörleif Kvaran forstjóra á Útvarpi Sögu þar sem það mátti skilja á honum að fyrirtækið REI hefði ekki átt að vera mjög umsvifamikið í upphafi en eftir að Bjarni Ármannsson hafi komið að fyrirtækinu hafi verkefnið undið upp á sig. Það mátt sömuleiðis skilja á honum að fleiri eignir hefðu farið inn í þetta púkk sem kallaðist REI.

5. Það hefur ekkert óháð verðmat farið fram, a.m.k. hefur það ekki verið kynnt hvorki á Geysir Green Energy eða REI eins og áður segir.

6. Það eiga að mati Vilhjálms að felast stórkostleg tækifæri í saminingu REI og GGE en það má svo sem vera að við Íslendingar búum yfir alveg einstakri þekkingu á sviði nýtingar jarðhita sem hvergi er til annars staðar í heiminum.  

Hvers vegna má þá þessi sameining ekki vera uppi á borðum og þokkalega undirbúin? Í stað þess er almenningi boðið upp baktjaldamakk, skyndisameiningu og stjórnendur sem bera ábyrgð á milljarðasamningum koma algerlega af fjöllum þegar þeir eru spurðir nánar út í samþykktir sínar. Hvað veldur?

Ein spurning til Vilhjálms Þorsteinssonar: Hvernig er það, ert þú tengdur í viðskiptum við OR eða GGE og áttu þá einhverra hagsmuna að gæta? Ég skil ekki að maður sem hefur látið til sín taka á sviði atvinnurekstrar vilji ekki stuðla að gagnsæjum viðskiptum, sérstaklega með eigur og gæði hins opinbera.


Æ, æ og ó, Eva María hjalar við Bjarna Ármannsson

Fátt brennur heitar á þjóðinni þessa dagana en að upplýsa pukrið í kringum braskið við REI sem er hlutafélag í eigu hins opinbera og þess vegna á allt að vera uppi á borðinu hvað varðar athafnir stjórnarmanna þar. Í fréttaskýringaþættinum Kastljósi ræddi Eva María í kvöld við stjórnarformann REI um þessi mál og hefði maður haldið að RÚV ætti að nota tækifærið til að sinna lagaskyldu sinni skv. 3. gr. laga um Ríkisútvarpið ohf. og stunda áreiðanlega og hlutlæga fréttamennsku á því sem efst er á baugi. Í stað þess var þetta eins og hvert annað hjal þar sem hlaupið var yfir grundvallarspurningar í málinu. Bjarna virðist hafa verið skotið inn í þáttinn með engum fyrirvara miðað við hvaða viðmælandi er kynntur á vef RÚV í kvöld. Maður hefði því getað haldið að til stæði að leggja fyrir hann knýjandi spurningar en ekki vera með eitthvert hjal.

Spurningarnar sem Eva María sneiddi hjá voru t.d.: Hver samdi við Bjarna um kaup hans í fyrirtækinu á bónuskjörunum 1,3? Hvaða heimild hafði viðkomandi til þess? Hvers vegna fá skemmtanastjóri og kosningastjóri Framsóknarflokksins, Rúnar Hreinsson, og sömuleiðis fyrrum blaðamaður á Fréttablaðinu, Hafliði Helgason, kjörin 2,77 í opinberu fyrirtæki? Það eru líka sérkjör þótt þau séu tvisvar sinnum hærri en Bjarna buðust. Við þetta má bæta að forsvarsmenn fyrirtækisins segja að verðmæti þess muni margfaldast í verði á næstu kannski tveimur árum, fjórfaldast jafnvel.

Niðurstaða viðtalsins er að nánast hefði mátt komast hjá vandræðaganginum ef Bjarni hefði ekki verið símasambandslaus í Afríku þegar málið komst í hámæli.  


Júlíus Vífill næsti borgarstjóri?

Það er mjög þungt hljóð í mörgum sjálfstæðismanninum vegna þess snarpa snúnings sem borgarstjórinn tók í braski með eigur almennings.  Ekki er ólíklegt að þetta mál verði til þess að Júlíus Vífill Ingvarsson setjist í stól borgarstjóra innan tíðar en hann er eini maðurinn í flokki borgarstjórans sem hefur þorað að mæla fyrir hagsmunum almennings og gegn braski boragarstjórans.

Ég efast um að fólk kaupi þessar skýjaborgir sem verið er að reisa sem gefa til kynna að verðgildi REI  muni margfaldast á örfáum árum en tilgangurinn virðist vera að plægja akur fyrir óraunhæfar væntingar um gull og græna skóga til að fá fólk til að sættast við ráðstöfun orkuauðlinda landsins.

þeir sem standa á bak við byggingu skýjaborganna hafa áður tekið þátt í að draga upp falskar væntingar. Hver man ekki eftir gauraganginum í  kringum gagnagrunninn sem Íslensk erfðagreining hugðist koma á fót og átti nánast að verða lykillinn að lækningu nær allra sjúkdóma sem hrjá mannkynið.   Íslenskur almenningur tapaði mjög á fjárfestingum í fyrirtækinu þar sem verðgildi þess hrapaði eftir að hafa rokið upp í hæstu hæðir enda var dregin upp rósrauð mynd af framtíðarmöguleikum fyrirtækisins.  Þeir sem drógu upp þessa tálsýn voru forsvarsmenn fjármálastofnana, s.s. Bjarni Ármannsson sem þá var forstjóri FBA, stjórnmálamenn og jú fyirtækið ÍE en þar var Hannes nokkur Smárason aðstoðarforstjóri.

DV greindi frá því á sínum tíma að í öllu þessu mikla fjárstreymi í kringum fjármögnun á ÍE hefðu 400 milljónir runnið inn á reikning í Panama sem að öllum líkindum væri í eigu æðstu yfirmanna ÍE.

Geir Haarde forsætisráðherra ætti að vita manna best að eitt og annað í viðskiptum dugnaðarkaupsýslumannsins Hannesar Smárasonar hefur orkað tvímælis í gegnum tíðina en frúin hans, Inga Jóna Þórðardóttir, sá það ráð vænst að segja sig úr stjórn Fl Group sem  Hannes Smárason veitti formennsku.  Ekki var hún ein um þá ákvörðun heldur gekk stjórnin út nánast í heilu lagi og var ein ástæðan sem gefin var upp sú að fjárfestingar félagsins hefðu ekki verið með hag félagsins í huga.  Getum hefur verið leitt að því að þessi upplausn í stjórn félagsins hafi orsakast af umdeildum fjárfestingum í dönskum flugfélögum, Sterling og Mærsk, sem Fl greiddi um 11 milljörðum meira fyrir en Fons hafði greitt fyrir sömu félög nokkru áður.

Bjarni Ármannsson stjórnarformaður REI hefur verið nokkuð stórtækur í að skara elda að köku sinni  en þegar hann stýrði Glitni tók hann nokkuð reglulega lán í gegnum bankann til þess að kaupa hlut í bankanum sínum og selja hann síðan bankanum á ný.  Nú virðist hann vera kominn vel á skrið á ný og það í fyrirtæki í eigu hins opinbera. 

Það kæmi mér ekki á óvart ef niðurstaða þessa máls yrði sú að sameiningu REI og Geysir Green Energy yrði rift, Vilhjálmur Þór Vilhjálmsson léti af störfum sem borgarstjóri og Júlíus Vífill Ingvarsson tæki við.


Er rafmagnsreikningurinn að hækka eða lækka?

Forsetinn okkar leggur land undir fót og sest fyrir framan þingnefndir í valdamesta ríki heimsins. Borgarstjórinn okkar sameinar opinbert fyrirtæki útrásarfyrirtæki í nafni útrásar Íslendinga. Allir eiga að vera ánægðir og glaðir. Ég væri örugglega fyrsti maðurinn til að fagna ef ég sæi að rafmagnsreikningurinn væri að lækka en ekki hækka. Ekki veit ég betur en að rafmagnskostnaður almennings hafi frekar aukist en dregið úr, og nú berast fréttir af því að Orkusalan boði tugprósentahækkun á rafmagnskostnaði fyrirtækja vegna þess að ekki hafi tekist að fylla eitthvert miðlunarlón.

Þegar öllu er á botninn hvolft vantar spurninguna um hag hins almenna raforkukaupanda af öllu þessu brölti, hag litla mannsins með borvélina sína. Er hann einhver?


Æsir tófan upp hungrið í fálkanum?

Þessi pistill fjallar ekki um samskipti Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins, heldur galna líffræði. Nú liggur fyrir veiðiráðgjöf Náttúrufræðistofnunar Íslands um að veiða megi 38.000 rjúpur í haust. Ráðgjöfin byggir á reiknilíkani sem svipar að öllu leyti til reiknilíkans Hafrannsóknastofnunar, þ.e. að áætlað sé að fyrirframákveðinn fasti drepist af náttúrulegum orsökum, sem sagt öðrum orsökum en veiðum. Síðan eru veiðar lagðar við þennan fasta sem ættu þá að vera heildarafföll stofnsins. Það er alveg ljóst að þetta reiknilíkan Náttúrufræðistofnunar gengur engan veginn upp þar sem það hafa tapast út úr stofninum 400 þúsund rjúpur á síðustu tveimur árum sem svarar til fjórfalds varpstofns í vor. Í hnotskurn er ekkert mark takandi á því líkani sem umhverfisráðherra notar til veiðistjórnunar.

Í bréfi Náttúrufræðistofnunar Íslands til umhverfisráðherra, dags. 6. september 2007, var ýmislegt sem flokkast undir galnar líffræðilegar vangaveltur, s.s. að skotveiðar magni upp aðra þætti affalla. Þetta eru sérlega furðulegar vangaveltur þar sem tekið er fram í bréfinu að afföll séu svipuð á friðuðum svæðum og þar sem veiðar eru leyfðar. Þetta er álíka og að telja að fálkinn magni upp matarlystina í tófunni.Það er orðið löngu tímabært að taka þessi líkön til endurskoðunar þar sem þau virðast vera jafn vitlaus hvort sem er í undirdjúpunum eða háloftunum.

Í mínum huga er alveg ljóst að grunnhugsunin í þessum líkönum er röng, þ.e. að áætla að náttúrulegur dauði sé einhver fasti og að öll önnur afföll skrifist síðan á veiðar. Í tilfelli rjúpunnar verður þessi skekkja augljós þar sem hún flögrar ofan jarðar og veiðin er þekkt stærð. Þegar afföll verða mun meiri en líkanið gerir ráð fyrir er farin gamalkunnug leið til að skýra út skekkjuna, þ.e. með því að endurmeta fyrri stofnstærð og segja stofninn minni en fyrri mælingar sýndu, og síðan er farin hin nýja stórundarlega leið að telja að veiðar magni upp önnur afföll. Er ekki orðið löngu tímabært að setja stórt spurningarmerki við þessa reiknileikfimi? Frá því að umrætt stofnstærðarlíkan var tekið í notkun hafa tapast út 400.000 fuglar og það á tveimur árum.  


« Fyrri síða

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband