Leita í fréttum mbl.is

Vísindauppgötvanir á heimsmælikvarða

 

Trillukarlar hafa verið gagnrýnir á ráðgjöf Hafró sem er engin furða. Niðurskurður á aflaheimildum hefur ekki leitt til aukinnar veiði seinna eins og hefur verið lofað síðustu 20 árin. Nú er ástandið þannig að við veiðum um 30% af því sem við veiddum að jafnaði af þorski um áratugaskeið áður en þetta sérkennilega uppbyggingarstarf hófst.

Framkvæmdastjóri Landssambands smábábátaeigenda, Örn Pálsson, gerði nú í haust grein fyrir stórmerkilegri uppgötvun nokkurra trillukarla sem byggðist beint á gögnum Hafrannsóknastofnunar.

Í þessum gögnum Hafró kom fram að fiskur léttist gríðarlega eftir því sem hann eldist. Í skýrslum Hafró kemur fram að þorskur sem var 11 ára árið 2004 hafi þá mælst að meðaltali um 11 kg en nú, þegar hann er orðinn 14 ára, mælist hann að meðaltali tæp 7 kg. Ef þetta væri raunin væru þetta stórmerkilegar niðurstöður og Örn og trillukarlarnir ættu ekki minna skilið en Nóbelinn fyrir uppgötvanir sínar.

Eitthvað virðist sem það hafi farið fyrir brjóstið á bæði núverandi og fyrrverandi sérfræðingum Hafró að íslenskir trillukarlar hafi verið fyrri til að koma auga á að gögn Hafró sýndu að þorskurinn léttist eftir því sem hann eltist. Af því tilefni hafa verið skrifaðar tvær greinar í Morgunblaðið þar sem dregið hefur verið úr mikilvægi uppgötvananna. Ég er þessu ekki sammála þar sem uppgötvanir trillukarlanna hljóta að vera á heimsmælikvarða ef á annað borð er hægt að byggja á gögnum Hafró.

Einn af ofangreindum sérfræðingum Hafró greip til þess ráðs í nokkuð flókinni og torskilinni röksemdafærslu gegn því að stórmerkileg uppgötvun trillukarlanna skipti máli og væri þvert á móti eitthvert þvarg að gera ítarlega grein fyrir þróun hrygningarstofns og nýliðunar allt til ársins 1920!

Mér er í sjálfu sér hulin ráðgáta hvað stærð hrygningarstofnsins fyrir næstum 100 árum hefur með það að gera að skýrslur gefa til kynna að fiskur léttist eftir því sem hann eldist.

Það sem er meiri háttar við rökstuðninginn og hlýtur að vera stórmerkileg uppgötvun í sögu vísindanna er að grein er gerð fyrir stofnstærðum og nýliðun þorskstofnsins á þeim tíma þegar engar athuganir voru gerðar á þessum þáttum. Hingað til hefur Hafró einungis birt í skýrslum sínum gögn um ágiskun nýliðunar og stofnstærðar aftur til ársins 1955.

Nú á árinu 2007 eru í deilum við trillukarla dregnar upp viðbótartölur allt aftur til ársins 1920!

Ekki er úr vegi að spyrja Jóhann Sigurjónsson forstjóra Hafró: Hvaða tækni var notuð við stofnmælingar 1920 og hverjir unnu við þær?

Minna má á að það eru ekki nema örfá ár síðan Hafró tapaði liðlega 600 þúsund tonnum út úr reiknilíkani sínu sem svarar til um um fjórfaldrar leyfilegrar veiði í ár. Sá vísi maður Kristinn Pétursson hefur reiknað út frá gögnum Hafró að stofnunin hafi tapað að meðaltali 76 þúsund tonnum af þorski frá árinu 1984 til ársins 2005 og er það rúmlega helmingur af því magni sem leyfilegt er að veiða á þessu fiskveiðiári.

Það hljóta að hafa orðið undur og stórmerki í stofnmælingum botnfiska og almennt í reiknisfiskifræðinni á síðustu tveimur árum. Stofnuninni hefur ítrekað mistekist að reikna út stærð stofna sem eru lífs en nú treystir hún sér óforvarandis til að ákvarða stærð stofna áratugi aftur í tímann þótt engar rannsóknir á stofnstærð séu til grundvallar.

Það er orðið tímabært að sérfræðingar Hafró greini þeim sem standa utan við innsta hring hvaða sigrar í vísindum hafa unnist síðustu tvö árin sem valda því að hægt sé að treysta þeirri ráðgjöf Hafró sem Einar Kristinn Guðfinnsson ráðherra fylgir í blindni. Það hefur afgerandi áhrif á byggðir landsins og hag þjóðarinnar.

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu í gær


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Jón

Kenning: fiskur léttist ef hann fær ekki nóg að borða. 

Einar Jón, 19.12.2007 kl. 11:54

2 Smámynd: Óskar Þorkelsson

athyglisvert

Óskar Þorkelsson, 19.12.2007 kl. 12:44

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Hversu mörg ár hefur það tekið Hafró með ráðgjöf sinni að koma þorskstofninum í lægstu lægðir sem sögur fara af. Og á sama tíma höfum við þó setið einir að veisluborðinu?

Hvað getum við lengi haldið ráðstefnur og gumað af árangrinum af besta fiskveiðistjórnkerfi í heimi?

Hvaða einkunn skyldi "undralyf" fá hjá læknasamfélaginu ef það skilaði hliðstæðum árangri í baráttunni við þann tilgreinda sjúkdóm sem ráða átti bót á?

Árni Gunnarsson, 19.12.2007 kl. 16:02

4 identicon

Sæll Sigurjón:

Á vorþingi 2006 gerði Guðjón Arnar grein fyrir þyngdarrýrnun tveggja aldursflokka þorsks og það vakti þá enga umræðu á Alþingi. Nú hefur Herdís Þórðardóttir vakið athygli á hvort ekki þurfi að skoða flotvörpuveiðar á æti þorsks og væri betur að Alþingi sinnti því með einhverjum raunhæfum aðgerðum.

Hvað varðar gagnrýni trillukarla, þá veit ég ekki hvar þú sérð hana.Opinber umræða í þeirra hópi er heldur fátækleg, t.d. hefur ekki sést athugasemd við nokkra frétt á heimasíðu LSS allt þetta ár.

Með kveðju, Vilhjálmur Jónsson

Vilhjálmur Jónsson (IP-tala skráð) 19.12.2007 kl. 21:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband