Leita í fréttum mbl.is

Mörg hundruð þúsunda rjúpna týndar

Umhverfísráðherra tilkynnti í vikunni að það yrði einungis leyft að veiða rjúpu í 18 daga í haust en ákvörðunin byggir á ráðgjöf Náttúrufræðistofnunar.

Ráðgjöf Náttúrufræðistofnunar byggir síðan aftur á reiknilíkani sem minnir um margt á reiknilíkön Hafró þar sem búinnn er til fasti um hversu hátt hlutfall af rjúpunni drepst af öðrum orsökum en veiðum. Þetta kallast náttúrulegur dánarstuðull og er hann fastsettur í 31% af veiðistofni.

Heildarafföll rjúpunnar eiga samkvæmt líkaninu að vera náttúrulegur dauði að viðbættu því magni sem veiðimenn eru sagðir veiða.

Líkanið gengur alls ekki upp, það mælist sem sagt meiri fækkun á rjúpu en sem nemur fastanum og veiðinni sem líkanið getur ekki útskýrt. Mörg hundruð þúsund rjúpur hafa týnst á síðustu tveimur árum út úr fuglabókhaldi Náttúrufræðistofnunar og verður hvarf þeirra ekki skýrt út með þeim aðferðum sem stofnunin vinnur með.

Alls ekki er hægt að kenna veiðum um þessa fækkun þar sem mælingar á friðaða svæðinu á suðvesturlandi síðustu tvö ár gefa nákvæmlega sömu mynd af afföllum og á norðausturlandi. Skýrsla Náttúrufræðistofnunar frá í fyrra gaf reyndar til kynna að það hefði verið fjölgun á einstaka svæðum þar sem mikið var veitt, eins og á Austurlandi.

Í sjálfu sér er það réttmætt sjónarmið að vilja friða fallegan fugl - sem rjúpan er í íslenskri náttúru - en ég tel það mjög vafasamt að friðunin sé gerð á forsendum ráðgjafar Náttúrufræðistofnunar þar sem hún er hvorki fugl né fiskur.

Ég hef vissar áhyggjur af því að þegar það er búið að þrengja þann tíma sem veiðar eru leyfðar verði mikið at þann stutta tíma sem þær standa yfir og að veiðimenn láti freistast til þess að halda til veiða í tvísýnu veðri.

Fyrir áhugasama lesendur um rjúpnaveiðar skal bent á spjallvefinn hlad.is en þar fer fram umræða veiðimanna um rjúpnaveiðitímann og er óhætt að fullyrða að þar sýnist sitt hverjum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ég neld að best væri að hætta að tala um náttúruleg afföll í dýraríkinu. Þetta orðalag er úrelt og það byggist á þeirri staðreynd að núna er þessum svonefndu "náttúrulegu afföllum" stýrt pólitískt.

Mesti vágestur í viðhaldi rjúpnasofnsins í dag,- auk pólitíkusa er refurinn. Um það bera þeir menn sem þar þekkja best til en það eru refaskytturnar sem halda til á sameiginlegum svæðum þessara tegunda beggja á fyrsta vaxtarskeiði ungviðanna.

Náttúruleg afföll til lands og sjávar ber að reikna út með hliðsjón af viðkomu refs og hvals sem vernduð er af pólitískum reglugerðum.

Og brýnast viðfangsefni í aukningu fiskistofna og fjölgun rjúpunnar er einfalt: Að senda helstu pólitíkusa þjóðarinnar og jafnframt vísindamenn þeirra í útlegð þangað sem þeir "hafa af þessu landi hvorki fugl né hval," svo gamalt og gilt málfar sé notað.  

Árni Gunnarsson, 15.9.2007 kl. 20:20

2 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sammála síðasta ræðumanni.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 16.9.2007 kl. 00:19

3 Smámynd: Bjarni Daníel Daníelsson

Veit ekki hvað skal segja Sigurjón og Árni eða hvort eitthvað sé hægt að segja við menn sem hafa myndað sér skoðanir og það er sama hvað hver segir,,,, "ég hvika eigi". Refurinn og rjúpan geta skrifað töluvert lengri sögu í sátt og samlyndi heldur en við víkingarnir sem námu þetta land. Þar myndaðist og var hið fullkomna jafnvægi með sveiflum upp og niður. Refurinn, rjúpan eru frumbyggjar hér ásamt öðrum góðum dýrum. Í fornsögum um þjóðhætti má lesa að mikið var um rjúpu, svo mikið að menn gengu með snæri á milli sín til veiða með snörum á. Síðan hafa verið öfgafullar sveiflur í náttúrufari með elgosum og breyttri tíð. Nú síðari ár hefur það verið gengdarlaus veiði mannana sem nota sífellt meiri vélakost til að elta bráðina uppi og þar sem rjúpan hafði griðland áður hefur hún ekki í dag. ÞETTA telur en best að kenna rebba um.

Bjarni Daníel Daníelsson, 16.9.2007 kl. 00:45

4 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Bjarni Daníel Daníelsson ég var bara að lesa í tölur Náttúrufræðistofnunar og sá að hvað rekst á annars horn í því sem þar er birt sem einhver vísindi.

Sigurjón Þórðarson, 16.9.2007 kl. 03:54

5 Smámynd: Árni Gunnarsson

Bjarni Daníel. Fyrstur manna skal ég verða til að viðurkenna það að grófasta ógnin við allt lífríkið er innrás mannsins sem snýst oft um ofbeldisfulla græðgi. Nú er hinsvegar ekki annað í boði en að halda þessu áfram ef við mennirnir ætlum að lifa áfram í þessu viðkvæma sambýli. Það er löngu komið i ljós að í mörgum efnum höfum við farið offari og verðum að breyta um hugsunarhátt. Það er vandasamt og fyrst og fremst vegna þess að almennan skilning vantar og á því eru margar skýringar sem ekki verða raktar hér.

Refurinn er náttúrulegt fyrirbæri í landinu okkar rétt eins og rjúpan. Ekki er ég nú svo umburðarlyndur að ég samþykki skilyrðislaus yfirráð hans þar, enda svarinn óvinur frá þeim tíma er ég mátti þola af honum dýrar búsifjará meðan ég var fjárbóndi. Það er of mikil viðkvæmni í mínum huga að virða rétt hans til að eyða mófugli á víðáttumiklum varpsvæðum og svartfuglinum í fjölsetnustu fuglabjörgum heimsbyggðarinnar.

Ályktun mín í upphafi sneri að náttúrulegum sveiflum og þeim aðgerðum sem þar hafa skekkt hugtakið. Og að lokum er rétt að halda því til haga að um margra ára skeið hefur gilt bann við notkun vélknúinna farartækja við rjúpnaveiðar og því er framfylgt með nokkuð skilvirku eftirliti þar sem ég þekki til.

En um viðhorfin til lífríkisins held ég að við eigum flest sameiginlegt Bjarni. Kannski er ég meiri veiðmaður í eðlinu en þú, þó er það engan veginn víst.

Bestu kveðjur!

Árni Gunnarsson, 16.9.2007 kl. 10:01

6 identicon

Í sumum laxveiðiám má bara nota flugu.  Hvernig væri að leifa aðeins riffla cal 22, til rjúpnaveiða.  Veiðin yrði 100 sinnum minni.

Ólafur B. ´Jónsson (IP-tala skráð) 16.9.2007 kl. 15:14

7 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þessi tillaga um að veiða einvörðungu með riffli er bráðsnjöll og fullrar athygli verð. Hún útilokar í það minnsta þá sem kunna ekki að skjóta.

Árni Gunnarsson, 16.9.2007 kl. 21:35

8 Smámynd: Hallgrímur Guðmundsson

Strákar hugsið málið til enda með rifflana. Við erum nokkuð öruggir með líf okkar fyrir þessum bandbrjáluðu kúrekum sem skjóta á allt sem hreifist í hundrað metra radíus frá haglabyssu. En skoðum málið til enda með riffilinn á því færi eru þeir stórhættulegir þó bara sé verið að tala um cal 22. Er einhver trygging fyrir því að kúrekastælunum ljúki þótt skipt sé um vopn? Ég segi nei, hvað með ykkur? 

Hallgrímur Guðmundsson, 17.9.2007 kl. 16:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband