Leita í fréttum mbl.is

Vinstri Grænir guggnuðu

Vinstri grænir höfðu uppi stór orð um breytingar og endurskoðun  á fiskveiðistjórnunarkerfinu í aðdraganda síðustu Alþingiskosninga. Þegar sjávarútvegsráðherra var í stjórnarandstöðu flutti hann þingmál ásamt núverandi mannréttindaráðherra, Ögmundi Jónassyni, núverandi formanni sjávarútvegsnefndar, Atla Gíslasyni, auk  þingmanna Frjálslynda flokksins, sem fól það í sér að breyta stjórn fiskveiða í samræmi við álit Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Framangreindir þingmenn Vg sem nú eru valdamestu menn Íslands sögðu afstöðu sína þá að álit Mannréttindanefndarinnar væri skuldbindandi og að ríkinu bæri að bæta þeim sjómönnum sem sóttu mál sitt og ættu rétt á bótum. Ekki ber á öðru en að þremenningarnir hafi skipt um skoðun við það að setjast í mjúka valdastóla og telji við sætaskipti sín réttlætanlegt að virða fyrrgreint álit að vettugi og að ríkið haldi áfram að brjóta mannréttindi og níðast á þeim sjómönnum sem þeir áður vörðu. Enginn af framangreindum ráðamönnum Vg hefur heldur haft manndóm í sér til þess að ræða við sjómennina sem þeir þóttust berjast fyrir.Í raun hafa sáralitlar breytingar orðið á stjórn fiskveiða frá því að Vg fékk lyklavöldin í sjávarútvegsráðuneytinu. Loforð ríkisstjórnarflokkanna um frjálsar handfæraveiðar breyttist þegar til átti að taka í ófrjálsar handfæraveiðar og nýbúinn á fiskimiðum, makríllinn, var að mestu settur inn í kerfið og landsmenn standa ekki jafnfætis við nýtingu hans.Nákvæmlega engin meining virðist hafa verið á bak við þá ætlan Jóns Bjarnasonar sjávarútvegsráðherra að endurskoða fiskveiðiráðgjöfina þegar á hólminn var komið. Nýlega stóð sjávarútvegsráðuneytið fyrir „ráðstefnu“ um svokallaða aflareglu sem tekin var í notkun snemma á tíunda áratugnum og átti að leiða til aukins afla þegar fram liðu stundir. Aflareglan snerist sem vonlegt var upp í andhverfu sína enda gengur hún þvert á viðtekna vistfræði.  Þorskaflinn nú er einungis helmingurinn af því sem hann var áður en reglan var tekin í notkun. Aflareglan og beiting hennar þolir ekki neina málefnalega gagnrýni og var það tryggt við val á fyrirlesurum á fyrrgreindri ráðstefnu að engum gagnrýnisröddum væri hleypt að. Vísindin ganga út á gagnrýna hugsun og að spurt sé gagnrýninna spurninga og segir það í raun allt sem segja þarf um viðkomandi ráðstefnu að gagnrýnisröddum var ekki hleypt að.

Ekki ætla ég sjávarútvegsráðherra að vilja vísvitandi svíkja öll loforð um úrbætur en greinilegt er að stefna Vg í verki er allt önnur en sú sem boðuð var. Forysta Vg hefur greinilega guggnað og hlýtur hún að þurfa gefa kjósendum einhverjar skýringar á kjarkleysinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Er möguleiki að LíÚ og Björn Valur hafi haft áhrif á stefnubreytingu VG?

Sigurður I B Guðmundsson, 8.3.2011 kl. 00:06

2 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Sigurður svo er það möguleikinn að Steingrímur J. hafi ekki meinað eitt né neitt með neinu sem hann boðaði fyrir kosningar en Björn Valur virðist enduróma  vilja Steingríms J. í einu og öllu.

Sigurjón Þórðarson, 8.3.2011 kl. 11:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband