Leita í fréttum mbl.is

Hvað hefði verið sagt um Sjálfstæðisflokkinn?

Nú hefur Samfylkingunni tekist að fara á svig við rannsóknarskýrslu Alþingis og sýkna alla í hrunríkisstjórninni nema leiðtoga samstarfsflokksins. Í tilefni niðurstöðunnar er ekki úr vegi að velta fyrir sér hvað hefði verið sagt um Sjálfstæðisflokkinn ef hann hefði haft afl og aðstöðu til þess að koma því svo fyrir að allir sakborningar hefðu verið sýknaðir nema leiðtogi Samfylkingarinnar.

Það eina rétta var að láta alla hrunstjórnina fara í heilu lagi fyrir landsdóm til þess að láta reyna á sýkn eða sekt í sakargiftum. Ég er nokkuð viss um að Jóhanna hefði verið mjög jákvæð með þá lausn en það var einmitt það sem hún ætlaði Björgvini Sigurðssyni að vera þegar allt leit út fyrir að leið hans lægi fyrir landsdóminn.

Annars hefði Geir Haarde betur látið ógert að fara í Kastljósið en hann er enn fastur í þessum örvæntingarútskýringum um að fall Límannbræðrabankans í BNA hafi fellt Ísland og sömuleiðis að enginn hafi séð hrun bankakerfisins fyrir. Það segir hann þrátt fyrir viðvaranir og skýrslur erlendra aðila sem kveðnar voru niður m.a. af gagnmerkum efnahagsráðgjafa, Tryggva Þór Herbertssyni, sem Geir réð til að kljást við hrunið. Niðurstaða þeirra var að gera sem minnst.

Ekki má heldur gleyma því að Frjálsyndi flokkurinn varaði almenning við blikum á lofti í efnahagsmálum í aðdraganda kosninganna 2007, m.a. með auglýsingum sem voru umdeildar þá en í þeim voru lesendur varaðir við með spurningum um hvort þeir væru að verða gjaldþrota vegna verðtryggingar, hárra vaxta og óhóflegra lántaka. 


mbl.is Engin flokkslína Samfylkingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Í fullri vinsemd erum við leið á því að allir séu meiri vitleysingar en þú og þinn flokkur . Hvernig væri að segja að þau gerðu sitt besta en við hefðum gert betur. Hversu trúlegt sem það er svo sem, ykkar flokkur tók þá afstöðu að gerast vinstri flokkur korteri fyrir síðustu kosningar eins og þar væri ekki nóg af slíku fyrir, þannig að hægrisinnaðir kjósendur sátu heima. Nú eru öfgasinnaðir vinstrimenn að taka völdin í VG og það kallar á öfgafullan hægriflokk. Gott væri að hafa valkost þarna á milli annað en hentustefnuflokk (Samfylkinguna), hægfara vinstrimenn (Sjálfstæðisflokkinn) og fyrverandi Don Fredó siðleysið (Framsóknarflokkinn).

Guðmundur Ingi Kristinsson (IP-tala skráð) 29.9.2010 kl. 03:50

2 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Mér sýnist nú að flestir séu meiri vitleysingar en Sigurjón og hans flokkur.

Íslendingar búa við þann hörmulega raunveruleika að forysta allra stóru flokkanna keyrir elítu/leiguliðastefnu sem miðaðar að því að bæta kjör fárra en gera allan almenning að öreigum. Þetta er hvorki vinstri né hægri heldur ný útgáfa af fasisma.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 30.9.2010 kl. 10:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband