Leita í fréttum mbl.is

Stjórnmálastéttin í kreppu

Niðurstaða rannsóknarskýrslu Alþingis fól í sér margvíslega gagnrýni á stjórnarhætti, fjölmiðla sem og hagsmuna- og fræðasamfélagið. Flestir ef ekki allir þingmenn hafa lofað bót og betrun á starfsháttum og sumir auðlegðar- og kúlulánaþingmennirnir hafa jafnvel gert það tárvotir og skreytt heit sín svo að loforðaflaumurinn úr barka þeirra er orðinn velgjulegur.

Þegar til á að taka eru efndirnar engar sem sást best á aumum verkum Guðbjarts Hannessonar sem stjórnaði svokallaðri sáttanefnd í sjávarútvegi sem ætlað var að innleiða réttlátar breytingar á stjórn fiskveiða.  Ekki ætla ég að hafa mörg orð um afurð Guðbjarts sem er nýbakaður ráðherra og félaga hans í meirihluta nefndarinnar en þjóðin hefur hvorki siðferðislega né fjárhagslega efni á að halda áfram með núverandi stjórnkerfi fiskveiða eins og ekkert hafi í skorist.

Það sem Guðbjartur og meirihluti svokallaðrar sáttanefndar flaskaði algerlega á var að taka forsendur núverandi fiskveiðistjórnunarkerfis til endurskoðunar en kvótakerfið skilar einungis á land þriðjungnum af þeim þorskafla sem veiddist að jafnaði fyrir daga kerfisins.  Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum hafði nefndin ekki nokkurt þrek til þess að fara yfir galnar forsendur kerfisins sem stangast á við viðtekna vistfræði og heilbrigða skynsemi sem segir að vafasamt sé að ætla að nokkurt vit sé í því að draga það sem má veiðast við Grímsey frá því sem má veiða á Breiðafirði, hvað þá við Vestmannaeyjar.  Það liggur í augum uppi að ef stjórnvöld ætla sér að festa í sessi aflamarkskerfi ætti að sníða af helsu galla þess, s.s. brottkast, og fara að sjálfsögðu yfir það hvers vegna kerfið sem byggir á reiknisfiskifræði skilar ekki upphaflegum markmiðum sínum um stöðugan aukinn fiskafla.

Auðvitað hefði það átt að vera algjört forgangsverk fyrir íslensk stjórnvöld að líta til Færeyja þar sem ágæt sátt ríkir um stjórn fiskveiða öfugt við hér.  Færeyska dagakerfið byggir á því að sókn sé stöðug en aflinn ræðst þá af því sem lífríkið gefur en ekki hæpinni ráðgjöf reiknisfiskifræðinga.  Nú er þorskstofninn á uppleið við Færeyjar þrátt fyrir að alltaf hafi verið veitt umfram ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins síðustu tvo áratugina. Reyndar hljóðaði ráðgjöfin síðustu þrjú árin upp á algert veiðibann en samt hefur stofninn sveiflast upp og niður og er núna kominn í uppsveiflu.  Þetta segir mér einungis eitt, það að reynslan frá Færeyjum sýnir að ráðgjöf reiknisfiskifræðinganna er röng. Það sama ætti algjört árangursleysi hér við land að sýna.

Borðleggjandi er að þjóð sem glímir við gjaldeyrisskort á að fara gaumgæfilega yfir öll rök sem hníga að því að hægt sé að sækja í auknum mæli í vannýtta fiskveiðiauðlind.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Sigurjón

Ágæt skrif hér að ofan. Mig langar til að sjá nákvæmari greinargerð yfir hvernig Færeyingar hafa staðið að sínum málum. T.d. eftirfarandi:

Eru takmarkanir á tegundum veiðarfæra?

Hvar eru tilmæli Alþjóðahafrannsóknaráðsins um 3 ára þorskveiðibann á prenti?

Hver er stofnaukning fiskistofna við Færeyjar sl 3 ár og hver er afli á sama tímabili.?

Hvar fást upplýsingar um ofangreind atriði?

Með kveðju, Vilhj

Vilhjálmur Jónsson (IP-tala skráð) 21.9.2010 kl. 20:34

2 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Jú það er veiðarfærastýring og reglan er að eftir því sem skip eru stærri og öflugri þeim mun fjær landi veiða þau (Hér er um mikla einföldun að ræða hjá mér).

Til þess að fá upplýsingar ráðgjöf ICES þá er hér tengill á skýrslu http://www.ices.dk/committe/acom/comwork/report/2010/2010/cod-farp.pdf en taflan sem um ræðir þar sem ráðgjöfin á umliðnum árum er talin upp er tafla 4.4.1.1.

Sigurjón Þórðarson, 21.9.2010 kl. 23:45

3 identicon

Sæll aftur og þökk fyrir upplýsingarnar.

Rýndi í skýrslu ICEF, en ekki virðist mikil reisn yfir þorskstofni við Færeyjar, er að skila ca 10,000 tonnum í ár. Uþbil 80% eru veidd á króka og afgangur í troll. Stærðin virðist að meðaltali vera 1-2 kg( leiðréttu ef ranglega lesið ).

Ég velti stundum fyrir mér, sumt af eigin reynslu, ýmsu sem ekki er í umræðu um okkar fiskveiðistjórnun:

Á vetrarvertíðum, t.d. 1960-70, var þorskur og ufsi veiddur í miklu magni í net, algengasta möskvastærð var 7-7.5". Vissulega var þorskurinn vænn, en golþorskar ánetjuðust síður og smáfiskurinn smaug. Í samanburði eru netaveiðar í dag minniháttar, en krókaveiðar beitningavélabáta, stærri og smærri, komið í staðinn. Svo er öllum smábátaflotanum gert að veiða á króka.

Mín skoðun er að krókar séu síður en svo umhverfisvænt veiðarfæri sem skilja eftir í sjó fjölda fiska, særða til ólífis.

Spurning viðvíkjandi uppsjávarveiðum sumarsins:

Hversvegna eyrnamerkja Norðmenn sína síldar og makrílkvóta eftir veiðarfærum, fyrirskipa ca 80% í nót og ca 10 % í troll. Við notum eingöngu flottroll, en á síldarárunum gekk bara vel að veiða í nót, en mikið hreistur var í garninu þegar þurrkað var. Hver er viðskilnaður flottrollsins við fiskislóðina?

Með kveðju, Vilhj

Vilhjálmur Jónsson (IP-tala skráð) 22.9.2010 kl. 21:12

4 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Staðreyndin er að stofninn er talinn vera í uppleið núna af þeim sem hafa farið fram á veiðibann s.l. þrjú ár.

Eitt ber að hafa í huga þegar rýnt er í skýrslu ICES um Færeyjar að ICES vantelur veiðina við Færeyjar og reyna að gera minna úr aflanum en hann er í rauninni innan færeysku efnahagslögsögunnar en það er gert með því að gefa hluta af aflanum íslenskt ríkisfang.  Það var tekið upp á þessu fyrir nokkrum árum og Jörgen Niclasen fyrrverandi sjávarútvegsráðherra og núverandi utanríkisráðherra gerði alvarlega athugasemd við þetta bókhald þeirra á fiskirannsoknasovunni.

Sigurjón Þórðarson, 22.9.2010 kl. 22:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband