Leita í fréttum mbl.is

Hundrað milljarða spurningin

Stjórnvöld leita ýmissa leiða til þess að endar nái saman í ríkisfjármálum. Skattar eru hækkaðir upp úr öllu valdi. Ríkisstjórn Samfylkingar og Vg sveiflar blóðugum niðurskurðarhníf enn og aftur og búist er við að hann beri niður víðast í kerfinu. Helst er að vænta þess að pólitískt ráðnir aðstoðarmenn sem hlaðið hefur verið inn í ráðuneytin séu í öruggu skjóli. Alþingi hefur leitað vægast sagt óhefðbundinna leiða til þess að auka gjaldeyrstekjur, s.s. að semja við grunaða fjárglæframenn sem hafa komið óorði á þjóðina um sérstakan skattaafslátt til atvinnurekstrar. Ég leyfi mér að efast um að það séu til fordæmi fyrir því að nokkurt þjóðþing hafi farið þessa leið í að hygla grunuðum stórglæpamönnum.

Ólíklegustu leiðir hafa verið kannaðar eins og að framan greinir til þess að ná jafnvægi í opinberan rekstur en samt sem áður hefur algerlega verið hlaupið yfir þá spurningu hvort vert sé að ná meiri fiskafla úr hafinu sem gæti gefið þjóðinni tug ef ekki hundrað milljarða tekjur árlega. Óumdeilt er að upphafleg markmið núverandi fiskveiðiráðgjafar sem hefur gengið út á að geyma fiskinn í sjónum hefur alls ekki gengið upp.

Vísindalegar forsendur ráðgjafarinnar eru vægast sagt umdeildar, bæði meðal líffræðinga og sjómanna, en samt hefur ríkisstjórnin ekki varið einni krónu í að fara yfir vel rökstudda og málefnalega gagnrýni. Það er ljóst að ef efasemdamenn um ráðgjöf sem ekki hefur gengið upp hafa rétt fyrir sér myndi það skila þjóðinni milljarða gjaldeyristekjum. Oft var þörf en nú er nauðsyn.

Fyrir þá sem trúa í blindni á að veiðar mannsins stjórni í einu og öllu lífkeðjunni í hafinu er gott að hafa á bak við eyrað að sjófuglar, hvalir og selir taka tugfalt meiri næringu úr hafinu en maðurinn. Fiskarnir sjálfir eru miklu stærri lífmassi en framangreind dýr sem þurfa að næra sig. Oft er á matseðlinum hjá þeim smærri fiskur sem leiðir til að vöxtur og viðgangur þeirra sjálfra hlýtur að hafa úrslitaáhrif á stofnstærðarsveiflur.

Út frá framangreindum staðreyndum er út í hött að ætla að kenna veiðum um allar breytingar á stofnstærð fiska, sérstaklega í ljósi þess að hver og einn fiskur getur átt mergð afkvæma.

Og hundrað milljarða spurningin er: Er ekki tímabært að leita svara við öllum spurningum sem geta rétt hag þjóðarinnar, jafnvel þótt það kosti skotsilfur?



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Baldursson

Þessi ríkisstjórn er fallinn á framkvæmdaprófinu. Það er akkúrat ekkert hægt að nota þetta fólk. Þau standa í kringum björgunarhringinn tala sig rauð í framan en hafa ekki verkvit til að fleygja honum út til að draga þjóðina að landi. Þeirra vegprestur virðist vera Prófessor Stefán Ólafsson, sem segir að það sé bara allt í lagi að fólk flýi land. Í mínum huga er þó alveg ljóst að vinningsliðið er ekki skipað jarfræðingi og flugfreyju, heldur fólki sem þorir og getur raðað upp málum í forgangsröð. Og ráðgjafarnir gætu vart verri verið. AGS mun gera allt sem það getur, nema hjálpa Íslandi.

Haraldur Baldursson, 18.5.2010 kl. 20:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband