Leita í fréttum mbl.is

Ráð sem valda tjóni

Það er stórundarleg hve lítilli gagnrýni er hleypt að veiðiráðgjöf Hafró í loðnu.  Það er ekki eins og "ráðgjöfin" sé hafin yfir gagnrýni frekar en önnur mannanna verk.

Í fyrsta lagi þá byggir veiðireglan sem tekin var upp árið 1983 ekki á neinni líffræði og stofnmatið er með óvissu aðeins í aðra áttina, þ.e. niður á við. Það liggur einnig fyrir að endurskoðuð veiðiregla sem tekin var upp árið 2015 hefur hvorki leitt til aukins afla eða að koma í veg fyrir "aflabrest". Endurskoðunin sem fól í sér aukna vernd hefur reynst ávísun á frekari hörmungar.

það er áhugaverð staðreynd að loðnuveiðin á sl. 20 árum er innan við þriðjungur af því sem hún var 20 árin þar á undan.

Það er tímabært að spurt sé hver sé árangurinn og hvert er markmiðið með ráðgjöfinni? 

 


mbl.is „Áhrif loðnubrests eru enn mikil og víðtæk“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mun nýr formaður Vg treysta stöðu sína?

Í yfirstandandi viðræðum um framhald stjórnarsamstarfs Vinstri grænna, Sjálfstæðis- og Framsóknaflokks hefur umræðan snúist um hvort Bjarni eða Sigurður Ingi muni leiða ríkisstjórnina en báðir kostirnir eru slæmir.  Bjarni er nýbúinn að flakka á milli ráðuneyta vegna "sölunnar" á Íslandsbanka og svo verður það að segjast eins og er að það hefur hvorki gengið né rekið í nokkrum þeim málum sem Sigurður Ingi hefur haft á sinni könnu. 

Jú vissulega eru settar upp flottar glærusýningar um uppbyggingu húsnæðis næstu áratugina en raunveruleikinn er ekki í nokkru samræmi við þá draumsýn enda vandinn farið vaxandi. Vegna þess hve báðir kostirnir hafa þótt slæmir, þá hefur Þórdís Kolbrún verið nefnd til sögunnar til þess að hlaupa í skarðið fyrir flokksformennina. 

Það er ljóst að Sandís Svavarsdóttir hyggst berjast við Guðmund Inga núverandi formann Vg um forystusætið í flokknum.  Það er því freistandi fyrir Guðmund Inga að láta undan þrýstingi frá Sjálfstæðisflokknum um að setja hana út úr ríkisstjórninni og taka Bjarna Jónsson inn, en með því myndi ekki aðeins verða starfsfriður í ríkisstjórninni heldur myndi nýr formaður styrkja stöðu sína innan flokksins.


Ringulreið þegar brýn verkefni bíða

Það er óþægilegt að fylgja með stífum fundarhöldum og vandræðaganginum í ríkisstjórn Íslands, en það er allveg ljóst fundirnir snúast ekki um að verið sé að leysa úr brýnum vanda sem brennur þegnunum m.a. verðbólgu,Grindavík,okurvöxtum, hælisleitendum og húsnæðisskorti, svo eitthvað sé tínt til.

Ráðherrarnir sem eru búnir að vinna náið saman í 7 ár eru ekki með hugann við ofangreind mál, frekar en fyrri daginn - Nei það virðist vera einhver stólaærsl í gangi um hver fái að verma hvaða ráðherrastól. Miklar líkur eru á því að það muni verða samþykkt vantraust á matvælaráðherra í næstu viku, enda nýtur hún ekki trausts innan eigin flokks og svo eru það auðvitað framboðsraunir forsætisráðherra, sem þarf að leysa úr.   

Það sem er ekki eins og forsetaframboð Katrínar eigi að koma nokkrum á óvart þar sem það hefur legið fyrir frá áramótum að hún ætli í þetta vonlitla framboð.  Með framboðinu sleppur Katrín frá "leiðindunum" í ríkisstjórninni og eygir í leiðinni von um að geta ferðast áfram um á fyrsta farrými.

 

Þessi farsi í boði afhjúpar forgangsröðun ráðherranna þ.e. hagsmunamál þjóðarinnar er raðað mun aftar en persónulegum metnaði þeirra sjálfra.

 

 

 

  

 


mbl.is Hópur blaðamanna bíður eftir ríkisstjórninni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er formaður Sjálfstæðisflokksins geislavirkur?

Í herbúðum Framsóknarmanna er mikil ánægja með boðað forsetaframboð Katrínar Jakobsdóttur og umdeilda endurkomu Svandísar inn í matvælaráðuneytið. 

Það sem vekur einkum kæti í framsóknarfjósinu er að formaður flokksins eygir þá von að verða forsætisráðherra. Innviðaráðherra virðist vera næstur í röðinni þrátt fyrir að vera þekktur af allt öðru en eldmóði við að leysa úr verkefnum sínum hvort sem það hefur verið að koma skikk á húsnæðismálin eða vegakerfið. 

Það er auðvitað stórundarlegt að sprækur og geislandi formaður stærsta ríkisstjórnarflokksins Bjarni Benediktssonar komi ekki til greina til þess að leiða ríkisstjórnina. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins virðast sjálfir vera búnir að játast undir að Bjarni Ben komi ekki til greina m.a. vegna Borgunarmálsins, Falsons og vinavæðingar Bankasýslunnar ofl. ofl.

Sú spurning vaknar hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn gerir ekki þá kröfu að varaformaður flokksins leiði ríkisstjórnina ef allir eru sammála um að formaðurinn komi ekki til greina? 

 

 


Að lækna fákeppni með einokun

Á síðustu tveimur áratugum hefur átt sér stað gríðarleg samþjöppun í úrvinnslu landbúnaðarvara og sláturhúsa. Fækkun sláturhúsa var keyrð áfram með ríkisstyrkjum og beinlínis rangfærslum á borð við að verið væri að mæta kröfum ESB.  Auðvitað var gulrótin um  að "ríkishagræðingunni" fylgdi betri kjör fyrir bændur og neytendur.

Vandséð er að sú spá hafi ræst  ef litið er til kjara bænda og verðlags í matvöruverslunum. 

Nú er ríkisstjórnin að keyra í gegnum þingið lög sem heimila einokun - það árið 2024. Með sömu rökum og á liðnum árum.

Samvinnuhugsjónin virðist vera löngu týnd og tröllum gefin í Framsóknarflokknum og reikna má með að Jónas Jónsson frá Hriflu hefði gefið núverandi þingmönnum Framsóknarflokksins, þá einkunn að þar færu skósveinar braskara og fjárplógsmanna. Það bólar nefnilega ekki á því að leitað sé eftir samvinnu í stað samþjöppunar valds og eigna. Vg styður málið til þess að Katrín fái að halda í stólinn.

Sérkennilegustu rökin fyrir löggjöfinni eru í boði Sjálfstæðisflokksins en Óli Björn taldi réttast að mæta fákeppnishryllingi á matvörumarkaði með því að opna fyrir einokun afurðastöðva, en meðal þeirra fyrirtækja sem verið er að hliðra til fyrir eru afurðarstöðvar sem tengjast Alma leigufélagi, sem er þekkt fyrir allt annað en að huga að kjörum neytenda.

Landi og þjóð til heilla.


Sjálfstæðisflokkurinn er flokkur atvinnuhafta

Það verður ekki tekið frá Sjálfstæðisflokknum að þingmenn flokksins fara árlega á rúntinn í rútunni sinni út á land. Rútan þræðir, þá ýmist brotnar byggðir eða byggðalög sem mega muna fífil sinn fegurri. Það er samt alltaf mikið gaman og mikil gleði og allir pósta myndum á Instagram.

Ekki nýta þeir ferðina til þess að endurskoða harðneskjulega afstöðu sína til t.d. frjálsra handfæraveiða eða hvað þá ráðgjafar Hafró sem gengur augljóslega ekki upp. Allir sem skoða árangur hennar geta ekki komist að annarri niðurstöðu.

Hvers vegna er stefnan ekki endurmetin - jú það gæti mögulega komið stuggur að litlu elítuna.

Nú er frumvarp fyrir þinginu sem mun leiða það af sér að færa grásleppuna inn í gjafabraskkerfið. Það vita allir hvað það mun leiða af sér þ.e. auðvitað að þeir sem eru nú þegar komnir upp fyrir kvótaþakið munu gleypa grásleppukvótann eins og annað og útgerð smábáta heyra sögunni til.

Þegar ég hélt að "frelsisflokkurinn" gæti ekki gengið lengra þá fréttist af því að ekki fengist leyfi til tilraunanytja á þara fyrir Norðurlandi.

Ekki kæmi á óvart að það fari nú fram dauðaleit í Valhöll að einhverri Evrópugerð til þess að réttlæta eðlislæga haftastefnu og kenna Evrópusambandinu um.

 

 

 


Almenningur skrældur af bankaelítunni

Vaxtaokrið hefur fært bönkunum gríðarlegan hagnað á kostnað heimilanna. Einu hefur gilt hvort verðbólga geisi,þar sem hún er samkvæmt séríslenskri venju sett alfarið á lántakendur þ.e. heimilin og minni fyrirtæki.

Stjórnendur Landsbankans hafa ákveðið að nota það fé sem rakað var saman af heimilunum á síðasta ári, til þess að kaupa TM af samkeppnisaðilanum. Það er gert alfarið gegn eigendastefnu ríkisbankans og án samráðs við stjórnvöld. Ekkert gagnsæi og engar haldbærar röksemdir hafa verið lagðar fram með þessum gjörningi og virðist flest benda til þess að fiskur liggi undir steini.

Það er við hæfi að rifja það upp að þegar TM sameinaðist Kviku fyrir 3 árum, þá var það gert með lúðrablæstri um tækifæri á fjölbreyttum fjármálagjörningum. Verðgildi Kviku blés þá upp á "markaði" vegna vænts hagnaðar. Einstaka stjórnmálamaður leysti síðar út mikinn kaupréttarhagnað, en gleymdi víst að greiða skattinn eins og gengur.

Nú að þremur árum liðnum er komið á daginn að sameining TM og Kviku fyrir 3 árum var bara bóla. Það væri eftir öðru ef salan á TM gengur í gegn að það munni leiða til þess hlutabréf Kviku hækkuðu upp úr öllu valdi á ný!

Það sem má læra af þessu máli er að það þarf að aflúsa fjármálakerfið af peningafíklum og koma á fót samfélagsbanka sem veitir almenningi bankaþjónustu á sanngjörnum kjörum.

 

 

  

 


Sinnuleysi gagnvart leigubílaóreiðunni

Það er öngþveiti á þjónustu leigubíla og það átti ekki að koma neinum á óvart. Leigubílstjórar vöruðu við hvert stefndi með nýjum lögunum sem samþykkt voru í lok árs 2022.

Það kemur á óvart að ferðaþjónar skulu ekki krefjast þess að tekið verði til og að komið verði skikk á ástandið. Ferðamálayfirvöld víðast hvar reyna að tryggja öryggi ferðamanna og koma í veg fyrir svik og pretti.

Óöryggið felst meðal annars í að brotalamir eru á því að ökuferlar séu skráðir og merkingar bíla. Nýlegt dæmi er um erlendur sakborningur í nauðgunarmáli var kominn í harkið nánast strax að lokinni yfirheyrslu.

Það er ódýr leið hjá ráðherra að reyna að færa ábyrgðina yfir á Samgöngustofu eða einstaka ökuskóla sem sjá um próf. Augljóst er að með því að galopna þessa þjónustu fyrir hverjum sem er án nokkurs aðhalds, er vegna pólitísks vilja innviðaráðherra.

 Tillögur um íslenskukunnáttu leigubílstjóra virðast því miður vera einhvers konar sýndarmennska til þess að fría Sjálfstæðisflokkinn af pólitískri ábyrgð.  Ef einhver meining væri á bak við þetta tal ráðamanna þá væru lögð fram í þinginu stjórnarfrumvörp til þess að ná utan um málið.

Það er áhugavert að fara yfir lista á Íslandi.is um þá sem reka leigubíl  og ekki síður yfir starfandi leigubílstöðvar sem virðast vera nafnið eitt .

 

 


Mæti á þingið

Nú er ég mættur óvænt suður til Reykjavíkur til þess að hlaupa í skarðið hjá Flokki fólksins, sem varaþingmaður.

Á dagskrá þingsins í dag er m.a. umræða um umhverfismál þ.e. hringrásarhagkerfið sem þingmaður Sjálfstæðisflokksins Bryndís Haraldsdóttir stendur fyrir. Bryndís á hrós skilið fyrir að reyna að vekja ráðherrann en hann virðist vera áhugalaus um verkefni ráðneytisins nema þá helst þegar talið berst að vindmyllum, en þá veðrast hann allur upp. Ýmis mál sem hægt væri að leysa fyrir hádegi eru látin danka og kemur það niður á umhverfinu og  atvinnulífinu.

Ríkisstjórn sem leidd er af græningjum og studd af Sjálfstæðisflokknum hefur tekist að hækka álögur og búa til nýja skatta sérstaklega á rafbíla, með þeim afleiðingum að sala þeirra hefur dregist gríðarlega saman. Eru þessar aðgerðir líklegar til þess að hvetja til orkuskipta - greinilega ekki.

Það er ekki úr vegi að setja þessa nýju skattlagningu á rafbíla almennings í samhengi við að umhverfisráðherra rétti ekki fyrir svo löngu nokkrum bílaleigum milljarð til orkuskipta og örfáum stórútgerðum hátt í 300 milljónir króna m.a. Samherja úr Orkusjóði.

Mikill vilji er hjá stjórnvöldum að koma styrkjum á stórfyrirtækin en í nafni orkuskipta hafa kaup þeirra á rafmagnslyfturum verið styrkt af almannafé, en umrædd tæki hafa verið í notkun í um hálfa öld á Íslandi.

 

 


Bjartasta vonin dofnar

Ýmsir eru farnir að velta því fyrir sér hver verði næsti formaður Sjálfstæðisflokksins. Þeir sem hingað til hafa verið taldir líklegri til þess að taka við keflinu hafa ekki styrkt stöðu sína á kjörtímabilinu.  Sammerkt er með þeim að þeir hafa gjarnan boðað mikla sókn og breytingar með stórfenglegri flugeldasýningu, en þegar til kastanna hefur komið hefur skotist upp lítil ýla sem varla hefur náð upp fyrir þakskeggið. 

Guðrún HafsteinsÍ kjölfarið hefur nafn Guðrúnar Hafsteinsdóttur oftar verið nefnt til sögunnar sem vænlegur kostur. Hún hefur ekki verið með mikið orðagjálfur, heldur boðað breytingar með yfirveguðum hætti og að því virðist reynt að vinna þeim.

Nú í þinginu í síðustu viku virtist sem að það væri slokknað dómsmálaráðherranum í svörum við fyrirspurnum um landamæragælsu og vanrækslu flugfélaga við að upplýsa hverjum þau eru að fljúga til landsins.

Guðrún virkaði eins og hver annar ísaður embættismaður langt innan úr kerfinu sem var sáttur við að hingað kæmu liðlega 150 þúsund manns árlega sem stjórnvöld vissu engin deili á.  Ráðherrann virtist hamingjusamur með að íslensk lög vikju fyrir sjónarmiðum flugfélaganna þar til búið væri að fara í einhverjar viðræður um málið við Evrópusambandið.  Það hreyfði ekki við neinu þó svo að dæmi væru um að útlendingum sem hefði verið brottvísað kæmu til landsins hvað eftir annað m.ö.o. landamærin eru galopin. 

Svör við því hvort taka ætti upp auknu eftirliti á landamærunum voru með sama sniði - engin pólitísk sýn eða skilaboð og öllum ákvörðunum vísað til ríkislögreglustjóra.

Það er vonandi að dómsmálaráðherra hressist sem fyrst og boði festu í málaflokknum - Ekki veitir af.

 


Næsta síða »

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband